miðvikudagurinn 15. janúar 2014

Í upphafii nýs árs - frá bæjarstjóra

Kæru íbúar Vesturbyggðar.

Þá er nýtt ár gengið í garð enn og aftur. Jólahátíðinni lokið og hversdagurinn tekinn við. Nýárssólin boðar bjartari tíma og lengri daga.

Árið 2013 var nokkuð gott í Vesturbyggð ef frá er dregið veðrið! Íbúum fjölgaði talsvert á árinu en fækkaði aftur í lok árs og íbúafjöldinn endaði í 949 manns. Þá fæddust 6 börn og er sérstök ástæða til að gleðjast yfir því. Við minnumst jafnframt þeirra sem féllu frá á árinu með kærri þökk fyrir þeirra framlag til samfélagsins.

Verkefni sveitarfélagsins hafa verið allmörg á liðnu ári. Fjárhagurinn hefur batnað umtalsvert, skuldir lækkað og tekjurnar urðu mun meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Fjárhagur sveitarfélagsins er því styrkjast ár frá ári en enn má lítið út af bregða. Halda verður áfram að fjölga íbúum og auka tekjur sveitarfélagsins.

Framkvæmdir voru miklar á liðnu ári. Helstar eru þær við ofanflóðavarnir ofan Patreksskóla og Heilbrigðisstofnunar en þær ganga mjög vel og mun ljúka í lok þessa árs. Samhliða verða framkvæmdir við ofanaflóðavarnir við Litla-Dalsá. En þá voru líka umtalsverðar framkvæmdir við gagnstéttar, viðhald gatna, viðhald á húseignum, tjaldsvæði á Patreksfirði, félagsheimili á Patreksfirði og Bíldudal og við Bíldudalsskóla og Patreksskóla. Síðast en ekki síst var langþráð lyfta við Kamb vígð í lok árs. Þá er hafin endurnýjun á leikskólalóðinni á Arakletti en endurbætur á leikskóla og leikskólalóð verða stærstu verkefni nýrrar fjárhagsáætlunar. Hvet ég ykkur til þess að kynna ykkur verkefni komandi árs í stefnuræðu bæjarstjóra.

Mikil áhersla hefur verið undanfarin ár á málefni aldraðra. Nýr starfsmaður, Arnheiður Jónsdóttir þroskaþjálfi var ráðinn til starfa sem verkefnisstjóri í málefnum aldraðra og fatlaðra. Talsverðar breytingar hafa verið gerðar á starfssemi Eyrarsels á Patreksfirði og Læks á Bíldudal og heimilin opin fleiri en öldruðum. Opunartíminn hefur verið lengdur og þjónustan aukin. Það er von okkar að notendur kunni að meta þær breytingar sem hafa orðið og fleiri nýti sér þjónustuna.

Breytingar áttu sér stað hjá Tæknideild Vesturbyggðar. Ármann Halldórsson flutti sig til Grindavíkurbæjar og er þar skipulagsfulltrúi. Elfar Steinn Karlsson byggingatæknifræðingur var ráðinn til starfa í upphafi árs í 50% starf en hann starfar hjá Verkís í 50% starfi. Árni Traustason byggingatæknifræðingur hjá Verkís og Patreksfirðingur að ætt og uppruna er nýr byggingafulltrúi og Óskar Örn Gunnarsson skipulagsfræðingur hjá Landmótun er skipulagsfulltrúi.

Það er ákaflega gleðilegt að sjá þá uppbyggingu sem er hér í samfélaginu. Sjávarútvegurinn verður ætíð hryggjarstykkið í samfélaginu enda liggur Vesturbyggð nærri gjöfulum fiskimiðum. Fiskeldið er í hröðum vexti og ótrúlegt að sjá þá uppbyggingu sem þegar er orðin hjá Fjarðalax og hvaða áhrifum það hefur skilað til samfélagsins. Sömuleiðis er það tilhlökkunarefni að fylgjast með uppbygginu Arnarlax enda mun sú starfsemi breyta Bíldudal til frambúðar. Þá er ennfremur gleðilegt hve vel hefur gengið hjá ferðaþjónustufyrirtækjunum síðustu ár. Allt bendir til þess að erlendum ferðamönnum muni aðeins fjölga á næstu árum. Þess vegna er mikilvægt að vanda undirbúning og bjóða upp á framúrskarandi þjónustu. Við uppskerum eins og við sáum. Við erum öll í ferðaþjónustu. Tökum vel á móti gestum og hugum að umhverfinu og því hvaða afurðir við erum að selja.

Bættar samgöngur eru lykilatriði fyrir alla uppbyggingu á svæðinu og það verður því bylting þegar framkvæmdum í Kjálkafirði og Mjóafirði lýkur. Enn verða þó hálsarnir eftir og Klettsháls verður áfram farartálmi á Vestfjarðarvegi 60, svo ekki sé talað um mikilvægi Dýrafjarðargangna og nýs vegs yfir Dynjandisheiði. Við verðum öll sem eitt að leggjast á stjórnvöld og þrýsta á vegabætur og það sem allra fyrst. Bættar samgöngur munu styrkja samfélögin og efla Vestfirði í heild sinni.

Vestfirðingar allir sýndu samstöðu og mótmæltu kröftuglega áformum um sameiningu heilbrigðisstofnana í fjórðungnum sem heilbrigðisráðherra kynnti á haustdögum. Öll sveitarfélög mótmæltu, íbúar skrifuðu undir mótmælaskjöl, haldnir voru fjölmennir fundir og sveitarstjórnarmenn áttu fundi með þingmönnum og ráðherrum þar sem þessum áformum var mótmælt. Árangurinn var sá að útgáfu reglugerðar um sameiningu stofnana var frestað. Vonandi mun sá tími nýtast til þess að skoða málið ofan í kjölinn og að niðurstaðan verði sú að um Heilbrigðisstofnunina á Patreksfirði gildi önnur lögmál en aðrar stofnanir á landsbyggðinni vegna lélegra samgangna. Við verðum að standa öll heilshugar á bak við stofnunina okkar og styðja það mikilvæga starfs sem þar fer fram.

Mikil umræða hefur verið upp á síðkastið um skólamál og árangur íslenskra skólabarna í samræmdum prófum og PISA könnunum. Athygli hefur verið hversu lélegur árangur barna á landsbyggðinni er, þá sérstaklega á Vestfjörðum. Þetta mál þarf að taka föstum tökum og við þurfum öll að skilja hversu miklu máli skólarnir skipta samfélögin okkar. Sveitarfélög keppast um fólk, þau keppast um íbúa og vilja bjóða upp á hagstæð búsetuskilyrði. Gæði skóla skiptir þar miklu máli, ungir foreldrar velta mikið fyrir sér skólastarfi og vill fá góða menntun fyrir börnin sín. Það þarf að byggja upp metnað og efla sjálfstraust nemenda og samfélögin allt í kringum landið þurfa að bera meiri virðingu fyrir námi hverskonar. Við þurfum menntað fólk. Samfélagið okkar þarf menntaða sjómenn, sérhæfða starfsmenn fiskvinnslu og fiskeldi, viðskiptafræðinga, kennara, rafvirkja, smiði, hjúkrunarfræðinga, verkfræðinga, vélfræðinga. Samfélög þrífast ekki og þróast ekki án menntaðs fólks. Þess vegna hvet ég alla til þess að afla sér meiri menntunar í gegnum fjarnám eða námskeið Fræðslumiðstöðvarinnar, styðja við börn sín í skólanum og hvetja þau til dáða. Ég þekki mýmörg dæmi þar sem eldra fólk hefur drifið sig í nám og látið drauma sína rætast í heimabyggð og það er fátt ánægjulegra en að læra meira og styrkja sig þannig sem einstaklinga.

Vesturbyggð fór af stað með verkefni á haustdögum þar sem gerð var fræðslugreining af Fræðslumiðstöð Vestfjarða á meðal ófaglærðra starfsmanna. Í kjölfarið verður unnin símenntunaráætlun. Er þetta gert til þess að efla starfsmennina, auka starfsánægju þeirra en ekki síst færni í starfi. Bindum við miklar vonir við þetta verkefni og er Vesturbyggð í fararbroddi annarra sveitarfélaga varðandi fræðslugreiningu meðal starfsfólks.

Kæru íbúar. Það er vöxtur á sunnanverðum Vestfjörðum og kraftur í fólkinu. Nýtum þann kraft til góðra verka fyrir samfélagið. Megi nýtt ár verða okkur öllum heillaríkt.

 

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri

Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is