þriðjudagurinn 8. október 2013

Ræða bæjarstjóra á ferðamálaþingi 2013

Eru sveitarfélög stærsti ferðaþjónustuaðilinn?

Fundarstjóri. Ráðherra, alþingismenn. Aðrir góðir gestir.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir það tækifæri sem mér er veitt hér í dag. Það er mitt sérstaka áhugamál að fjalla um ferðaþjónustu og mikilvægi hennar fyrir samfélögin okkar. Ferðaþjónusta sem áður var aukabúgrein, hliðargrein sem var meira skemmtun heldur en að vera talin alvöru atvinnugrein, er nú orðin sú grein sem skapar hvað mestan gjaldeyri fyrir þjóðina. Ferðaþjónustan hefur vaxið mjög hratt á íslandi, tekið stórstígum framförum á örfáum árum og þeim hefur fjölgað gríðarlega sem byggja upp og vinna við ferðaþjónustu.

______

Þegar ferðaþjónustuaðilar eru skilgreindir horfum við fyrst og fremst til þeirra sem eru í greininni; gisting, veitingaþjónusta , flutningaraðilar og afþreyingarfyrirtæki. Þeir sem að baki standa gleymast oftar en ekki eða líta ekki á sig sem ferðaþjónustaðila. Bankar, olíufélög, verslanir, bílaverkstæði. Allt eru þetta ferðaþjonustuaðilar. Og sveitarfélögin, þau mega ekki gleymast, þau eru stærsti ferðaþjónustuaðilinn. Margir hvá þegar þessari fullyrðingu er skotið fram. Sveitarfélagið sér til þess að grunngerðin sé til staðar, gatnakerfi, veitukerfi og umhverfi sé í lagi. Sveitarfélagið hefur skipulagsvaldið og býður fram lóðir fyrir áhugasama. Þá reka sveitarfélögin sundlaugar og íþróttamiðstöðvar, göngustígakerfi, lystigarða, miðbæi, upplýsingamiðstöðvar, söfn og oftar en ekki tjaldsvæði . Það hefur sýnt sig að fallegir bæir og þorp eru aðdráttarafl fyrir ferðamenn og þess vegna er það kappsmál fyrir hvert sveitarfélag að byggja upp fallegan bæ, vernda gömul hús og mannvirki, halda umhverfinu snyrtilegu, skikka fyrirtækin til þess að taka til hjá sér og bjóða upp á góða þjónustu þannig að gestir vilji sækja okkur heim.

Slíkar móttökur og þjónusta skapar þar með frjóan jarðveg fyrir þá aðila, hugsjónamenn og fjárfesta sem vilja byggja upp ferðaþjónustu til þess að starfa í því umhverfi sem í boði er.

Það vill enginn heimsækja subbulegan bæ og það er auðvelt að eyðileggja ímynd úrvals samfélags með sóðaskap. Þess vegna er mikilvægt að huga að innviðum og umhverfinu með íbúum, hagsmunasamtökum og fyrirtækjum með góðu deiliskipulagi , hönnun og framkvæmdum með þarfir sveitarfélagsins og fyrirtækjanna að leiðarljósi. Þannig er hægt að taka á móti gestum og íbúum framtíðarinnar og setja viðmið um allt þetta.

Svo haldið sé áfram að tíunda verkefni sveitarfélaga í þágu ferðaþjónustunnar þá koma sveitarfélög myndarlega að markaðssetningu á heimasvæði sínu með því að taka þátt í rekstri Markaðsstofa og upplýsingamiðstöðva. Sveitarfélögin taka enn fremur þátt í rekstri atvinnuþróunarfélaga sem eru oftar en ekki fyrsti stoppustaður frumkvöðla á landsbyggðinni þegar þeir hefja undirbúning að stofnun fyrirtækja. Þetta eru fjölmörg verkefni sem ég hef talið upp og það eru gríðarlega miklir fjármunir sem sveitarfélög, eða skattgreiðendur hverrar byggðar, leggja til þeirra málaflokka sem tengjast ferðaþjónustu.

-----------------------------

Í ferðaþjónustu er mikið rætt um gæðamál og ég held að við þurfum sífellt að vera ræða þau og hvernig við getum gert betur og sveitarfélögin geta alltaf gert betur í umhverfismálum og þjálfun starfsfólks. Við eigum að bera virðingu fyrir menntun og þjálfun þeirra sem í ferðaþjónustu starfa og eigum stöðugt að vinna að því að starfsmenn okkar séu menntaðir til þess að veita upplýsingar og bregðast við öllu því sem upp getur komið. Aðstaðan sem Íslendingar bjóða upp á á að vera fyrsta flokks. Við eigum ekki að bjóða upp á gistingu í gámum, við eigum ekki að vera þekkt fyrir það. Við eigum ekki að bjóða gestum eða okkur sjálfum að helstu perlur þjóðarinnar séu í einu drullusvaði og ekki hægt að fara á salerni. Við eigum ekki síður að beina umferðinni um fáfarnari en jafn áhugaverða staði og við eigum að huga að gjaldtöku í ferðaþjónustu til þess að geta byggt upp fjölsótta ferðamannastaði því sveitarfélögin hafa ekki fjármagn umfram lögbundin verkefni eins og staðan er í dag. Það er verkefni sveitarfélaganna að passa upp á þessi atriði í samráði við ykkur gott fólk og þarna hefur sveitarfélagið ákveðið vald sem hægt er að nýta sem er deiliskipulag.

Mig langar til þess að segja ykkur frá því sem við erum að gera í Vesturbyggð en þar hafa orðið miklar breytingar á stuttum tíma. Íbúum hefur fjölgað um 80 á 3 árum eða um 12% og nú er uppbygging í stað áralangrar hnignunar. Ferðaþjónusta á ekki síst þátt í endurreisn og aukinni bjartsýhni í sveitarfélaginu.  

Vesturbyggð er einstakt sveitarfélag. Þar eru einhverjar mestu náttúruperlur landsins og ef ekki heimsins. Látrabjarg er einstakt fuglabjarg á heimsvísu, friðlandið í Vatnsfirði og landnám Hrafna—Flóka, Rauðasandur þar sem fegurðin ein ríkir, Arnarfjörður og Geirþjófsfjörður þar sem sagan drýpur af hverju strái, þorpin Bíldudalur og Patreksfjörður og í næsta nágrenni einhver fegursti foss landsins, Dynjandi.

Í Vesturbyggð er ferðaþjónustan mjög ung og afar lítt þróuð atvinnugrein en á stuttum tíma hefur ferðaþjónustan tekið risastökk fram á við. Á þessu ári var glæsilegt 3,5 stjörnu heilsárs hótel tekið í notkun á Patreksfirði . Nýtt ferðaþjónustufyrirtæki tók til starfa í sumar með ferðamannamiðstöð og upplýsingamiðstöð á Patreksfirði býður það upp á fjölbreytta afþreyingu og skipulagningu ferða. Mikil vöruþróun hefur farið fram hjá starfandi ferðaþjónum sem hefur aukið fjölbreytni þjónustu. Veitingastöðum hefur fjölgað, tjaldsvæði hafa verið endurbætt og eru nú fyrsta flokks og unnið er markvisst að bæta aðgengi að fjölsóttum ferðamannastöðum í samráði við landeigendur, Umhverfisstofnun, Ferðamálastofu og sveitarfélagið.

Síðast en ekki síst er unnið að undirbúning þjóðgarðs á Látrabjargi.

 

Þrátt fyrir allt þetta er ferðaþjónustan ung og lítið þróuð. Margt skýrir.

  1. Agalegar samgöngur sem fara sem betur fer hratt batnandi.
  2. Heilsárshótel hefur vantað en úr því hefur verið bætt.
  3. Fámenni.
  4. Veitingaþjónusta og afþreyingu hefur vantað. Úr því hefur verið bætt.
  5. Fá tjaldsvæði. Úr því hefur verið bætt.
  6. Vöntun á aðstöðu á Látrabjargi.

Vegna þessarar stöðu hefur atvinnulífið og sveitarfélagið einstakt tækifæri til þess að byggja upp ferðaþjonustu, grunngerð, upplýsingaveitu og sýn okkar til framtíðar með skipulögðum hætti í stað þess að vera alltaf að bregðast við og bjarga hlutunum eins og er ríkjandi í íslenskri ferðaþjónustu. Þetta hafa aðilar áttað sig á og vinna nú skipulega að uppbyggingu og undirbúningi.

Vinna við aðalskipulag og deiliskipulag fer fram á vegum sveitarfélagsins. Við þurfum að spyrja hvernig við viljum byggja upp þjónustu, hvaða svæði þurfi að vernda og hvaða leiðir eigi að fara að því. Þetta eru spurningar sem ferðaþjónustuaðilar, íbúar og landeigendur þurfa að spyrja sig. Í landmiklu sveitarfélagi þarf að vinna með landeigendum að landnýtingu og gerð deiliskipulags þannig að sjónarmið flestra komi fram og reynt sé að ná sátt um nýtingu landsins. Okkar reynsla er sú að sumarbústaða og eyðijarðaeigendur séu þeir allra erfiðustu í samskiptum og hafa minnstan skilning á þróun byggðar og þjónustu á svæðinu. Þessu verður að breyta.

Sveitarfélagið Vesturbyggð telur sig þekkja skyldur sínar við fyrirtækin og bindur miklar vonir við að ferðaþjónusta á Vestfjörðum verði arðbær atvinnugrein sem mun auka hagsæld og fjölga atvinnutækifærum í sveitarfélaginu. Þess vegna leggur sveitarfélagið Vesturbyggð mikið upp úr því að styðja við grunngerðina, markaðsmál og upplýsingagjöf. Sveitarfélagið vill sjá vandaða uppbyggingu og að þjónustan sem veitt er, bæði á vegum sveitarfélagsins og annarra, sé fyrsta flokks. Orðsporið er okkar besta auglýsing og tækin sem sveitarfélagið hefur til þess að hafa áhrif á þetta orðspor er:

  1. Standa fyrir stefnumótun um framtíðina.
  2. Unnið verði deiliskipulag á einstökum svæðum með bætt umhverif að leiðarljósi skv. forsendum aðalskipulags.
  3. Standa fyrir samstilltu átak um gæðamál og aukna menntun í greininni.

-----------------------------------------

En eitt allra mikilvægasta verkefni okkar allra í dag er að vinna að sjálfbærni og umhverfisvernd. Sveitarfélög eiga að vera leiðandi á þessu sviði og vinna með ferðaþjónustunni að aukinni umhverfisvitun sem aftur eflir ferðaþjónustuna.

Í Vesturbyggð er mikil áhersla lög á umhverfisvitund enda byggjum við allt okkar á náttúrunni og því sem hún gefur okkur. Umhverfisvottanir gegna veigamiklu hlutverki, bæði vegna þeirra viðmiða sem sveitarfélögin þurfa að mæta í vottunarferlunum og þar með breyta því sem breyta þarf til batnaðar. Skólar og smábátahafnir Vesturbyggðar eru með Grænfána og Bláfánavottun og sveitarfélög á Vestfjörðum vinna að Earth Check vottun líkt og Snæfellsnes. Til að styðja við þetta þá eru aðrar stofnanir Vesturbyggðar að marka sér umhverfisstefnu, byggða á Grænum skrefum Landverndar. Allt þetta er hluti af ímynd sveitarfélagsins og hvernig það markaðssetur sig sem nútímalegt, framsækið sveitarfélag. Markaðssetningin er ekki síður mikilvæg gagnvart íbúunum til að efla sjálfsmynd þeirra og byggja upp stolt. Það er svo gaman að vera stoltur af sveitarfélaginu sínu og því sem þar er gert. Þá verða íbúarnir enn betri í að taka á móti gestum.

Af þessu sögðu langar mig til þess að koma með dæmi um verkefni sem Vesturbyggð er að vinna að um þessar mundir þar sem sveitarfélagið horfir til framtíðar með vandaðri skipulagsvinnu sem mun efla ferðaþjonustuna á svæðinu til framtíðar. Þetta er deiliskipulagið á Látrabjargi.

 

 

Á Bjargatanga koma um 30 þúsund manns árlega samkvæmt talningu Umhverfisstofnunar og fer fjölgandi. Það er dagsljóst að án meiri aðstöðu og stýringar ferðamanna mun staðurinn verða fyrir óbætanlegu tjóni. Í það stefnir enda hefur lítil uppbygging átt sér stað og enn minni stýring ferðamanna þrátt fyrir góða vinnu Umhverfisstofnunar.

Á Látrabjargi eru landeigendur gríðarmargir og lengi vel var áherslumunur um það hvað gera ætti. Fyrir um 2 árum síðan réðst Vesturbyggð í gerð deiliskipulags fyrir Látrabjargssvæðið frá Keflavík til Breiðavíkur. Hefur Ferðamálastofa styrkt Vesturbyggð dyggilega í þessu verkefni og vil ég nota tækifærið og þakka Ferðamálastofu og Fornleifastofnun fyrir þann stuðning sem verkefnið hefur fengið en Fornleifastofnun styrkti gerð fornleifaskráningar sem var snar þáttur í að ljúka gerð deiliskipulagsins. Deiliskipulagið tekur á landnýtingu, sögunni, lóðum landeigenda, byggingarmagni, göngustígum, áningarstöðum, salernisaðstöðu, bílastæðum, upplýsingagjöf og allri annarri mögulegri uppbyggingu.

Sveitarfélagið Vesturbyggð hefur mikinn áhuga á þessu verkefni og hefur dregið vagninn enda fer sveitarfélagið með skipulagsvaldið og hefur hingað til þurft að leggja til fjármagn í þá litlu uppbyggingu sem orðið hefur ásamt landeigendum. Í vinnuhópnum við skipulagið eiga landeigendur, hagsmunaaðilar ferðaþjónustunnar og Umhverfisstofnunar fulltrúa. Sýnin er skýr, samráðið mikið, allt gert til þess að fá samstöðu íbúa, landeigenda og hagsmunaaðila um verkefnið. Deiliskipulagsvinnan hefur tekið nokkurn tíma en í þessu tilfelli vinnur tíminn með okkur. Ég leyfi mér að fullyrða að fá skipulagsverkefni hafa fengið jafn mikið samráð og þetta og ég tel að vinnuhópurinn sé búinn að ná ótrúlegum árangri í átt að samstöðu um verkefnið framundan.

Samhliða skipulagsvinnunni var ákveðið að vinna að friðlýsingu Látrabjargssvæðisins sem þjóðgarðs. Hóf Umhverfisstofnun strax undirbúning að þeirri vinnu með gerð friðlýsingaráætlunar sem er unnin samhliða og í samræmi við deiliskipulagið. Sú áætlun er sömuleiðis unnin í samráði við landeigendur, hagsmunaaðila og sveitarfélagið þannig að raddir flestra endurspeglist í framtíðarsýn þjóðgarðsins. Hér er einstakt tækifæri til að vinna að nútímalegum þjóðgarði með gjaldtöku á fjölsóttum ferðamannastað, nútímatækni í upplýsingagjöf og lágmarks uppbyggingu á svæðinu. Við erum ekki að horfa til dýrra þjóðgarðsmiðstöðva sem kosta mikið í rekstri. Við viljum nýta það sem fyrir er, auka upplýsingagjöf, merkingar gönguleiða og áhugaverðra áningarstaða, og stýra ferðamönnum. Það er mín von að ef til komi fjármagn verði það í fyrsta áfanga nýtt í uppbyggingu sem mun koma í veg fyrir frekari umhverfisspjöll og er það verkefni mjög aðkallandi. Það er núverandi ráðherra að undirbúa ný lög um þjóðgarinn Látrabjarg og Alþingis að samþykkja þau. Ég bind því miklar vonir við stuðning og skilning umhverfisráðherra um málið.

----------------------------------------------------

Þjóðgarður er krúnudjásn. Þau sveitarfélög sem eru svo heppin að hafa friðlönd eða þjóðgarða innan sinna vébanda þurfa að kunna meta þau og nýta slíkan fjársjóð til markaðssetningar á samfélögunum sínum. Vesturbyggð hefur t.d. kosið horfa til umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar í sinni framtíðarsýn eins og ég hef áður lýst. Allt þetta er hluti af ímynd sveitarfélagsins og hvernig það markaðssetur sig út á við sem og inn á við. Sveitarfélögin eiga því að vera þátttakendur og leiðandi þátttakendur í umræðunni um ferðaþjónustu og uppbyggingu hennar á hverjum stað fyrir sig. Sveitarfélög þurfa að átta sig á því að þetta er vagn sem þarf að hafa ökumann á í þágu þeirra fyrirtækja sem starfa í hverjum bæ fyrir sig og sveitarfélögin eiga að sitja í ökumannssætinu. Ferðaþjónusta snýst ekki aðeins um móttöku ferðamanna h eldur líka hvernig gestgjafar við viljum vera og hvernig bæ við viljum kynna til búsetu og hvernig við ætlum okkur að verða stöðugt betri og betri . Það er því mikilvægt að sveitarstjórnarmenn þekki skyldur sínar gagnvart ferðaþjónustunni og taki þessa atvinnugrein alvarlega. Það skiptir máli fyrir alla.

Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is