Ásthildur Sturludóttir
Ásthildur Sturludóttir
Frumvarp að fjárhagsáætlun Vesturbyggðar fyrir árið 2012 er hér lagt fram og er það lagt sameiginlega fram af bæjarstjórninni.

 

Það er mikilvægt að bæjarstjórnin sýni þessa samstöðu þar sem fyrir eru erfiðir tímar í samfélaginu og ekki síst í rekstri sveitarfélaga. Í þessari stefnuræðu er gert grein fyrir þeim verkefnum sem bæjarstjórnin hefur samþykkt að fara í á næsta ári og þeim aðgerðum til að lækka kostnað.

 

Nokkrar lykiltölur fyrir árið:

 • Reksturinn fyrir fjármagnsliði er jákvæður um 84 milljónir. Var 27 milljónir í fjárhagsáætlun 2011.
 • Fjármagnsliðir eru 93 milljónir en voru 73 milljónir í fyrra.
 • Rekstrarniðurstaðan er neikvæð um 9 milljónir en var neikvæð um 46 milljónir í fjárhagsáætlun 2011.
 • Veltufé frá rekstri er áætlað 93 milljónir kr. en var 41 milljón kr. í fjárhagsáætlun 2011
 • Gert er ráð fyrir 4% hækkun verðlags milli fjárhagsára.
 • Gert er ráð fyrir 4,2% breytingum á meðalgengi.

 

Fyrr á þessu ári gerði Vesturbyggð samkomulag við Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga þar sem sveitarfélaginu var gert að hagræða í rekstri til að koma í veg fyrir frekari fjárhagsleg vandræði sem sveitarfélagið hefur búið við í áratugi. Gerð hefur verið úttekt á rekstrinum af Ólafi Sveinssyni hagverkfræðingi og gerðar tillögur að sparnaði og breytingum á fyrirkomulagi til að draga úr kostnaði. Ólafur fundaði með forstöðumönnum stofnana og er meginhluti af þeim tillögum sem kynntar eru hér í dag í tillögur forstöðumanna. Sumar tillagnanna hafa komist nú þegar í framkvæmd en aðrar munu leiða til sparnaðar á næstu árum.

 

Í stefnuræðu síðasta árs gat ég þess að úttekt yrði gerð á orkukostnaði sveitarfélagsins enda er sveitarfélagið að greiða um 34 milljónir í orkukostnað á ári sem er um 4% heildartekjum sveitarfélagsins. Verkfræðistofan Afl og orka var fengin til þessa verks og hafa þeir nú þegar gert tillögu að breytingum til orkusparnaðar. Eins eru í deiglunni samstarfsverkefni við framleiðendur ofnloka til þess að draga úr kostnaði sem kynnt verður síðar. Gert er ráð fyrir að íbúar geti tekið þátt í því verkefni.

 

Líkt og á síðasta ári var íbúum boðið að koma að fjárhagsáætlunargerðinni með því að taka þátt í þremur fundum sem haldnir voru í öllum byggðakjörnunum. Voru íbúar spurðir hvernig auka mætti lífsgæði í Vesturbyggð. Fjölmargar góðar hugmyndir komu fram sem nýttar voru við áætlunargerðina og ekki síður komu fram góðar hugmyndir á síðasta ári sem notaðar voru þá og aftur nú.

 

Við fjárhagsáætlunargerðina er að sjálfsögðu farið eftir tillögu ráðgjafa sveitarfélagsins og Eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga, tillagna forstöðumanna og fagnefnda. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim íbúum sem tóku þátt í vinnunni sérstaklega en ekki síður fagnefndum sem hafa lagt á sig mikla vinnu. Þá bera að þakka bæjarstjórn Vesturbyggðar fyrir þá miklu vinnu sem hún hefur lagt á sig við fjárhagsáætlunargerðina. Það er alls ekki algilt að sveitarstjórnir standi heilar á bak við fjárhagsáætlanir. Enn sem fyrr hafa bæjarfulltrúar sýnt þann þroska og ábyrgð að vinna að áætluninni saman.

 

Fjárhagur sveitarfélagsins er þungur enda verkefnin mörg, þjónustan mikil en íbúar fáir. Miklar launahækkanir voru á síðasta ári sem ekki var gert ráð fyrir. Þrátt fyrir það var reksturinn nánast á fjárhagsáætlun á líðandi ári. Það er óumflýjanlegt að gera miklar breytingar á rekstrinum til að ná fram hagræðingu og sparnaði í rekstrinum. Jafnframt verður leitast við að skerða sem minnst þjónustu við íbúa en samt sem áður gera nauðsynlegar breytingar líkt og önnur sveitarfélög hafa verið að gera. Ljóst er að tíma tekur að draga úr kostnaði í sumum málaflokkum en hér er reynt að hagræða eins og best kemur út. Þó verður að taka fram að sumar aðgerðir eru tímabundnar. Bæjarstjórn ber þá von í brjósti að sveitarfélagið muni rétta úr kútnum í náinni framtíð, öll teikn eru á lofti þar um.

 

Í dag eru skuldir sveitarfélagsins Vesturbyggðar um 1340 milljónir sem er of há fjárhæð. Fjármagnsgjöld eru áætluð um 93 milljónir á næsta ári. Tekjur hafa jafnframt farið minnkandi undanfarin ár en á síðasta ári voru útsvarstekjur þó aðeins hærri en gert var ráð fyrir og er það vel. Útsvarstekjur hafa þó lækkað umtalsvert sl. ár vegna fólksfækkunar. Rétt er að taka það fram að líkur eru á að íbúum hafi fjölgað um ríflega einn tug á þessu ári.

 

Enn sem fyrr þurfa sveitarfélög að kvarta undan ríkisvaldinu vegna einhliða ákvarðana sem bitna á sveitarfélögunum. Minnkandi framlög úr Jöfnunarsjóði sem tilkynnt er um allt of seint. Auk þess veltir ríkisvaldið verkefnum sínum yfir á sveitarfélögin og litlar sem engar tekjur fylgja með. Ég leyfi mér að endurtaka orð mín frá síðasta ári: „Það er óþolandi að þegar ríkið gerir kröfu til sveitarfélaga um fjárhagsáætlun til þriggja ára í senn, þá geti það sjálft ekki gert slíkt hið sama. Sveitarfélögin verða að mótmæla þessari framkomu kröftuglega." Lítið virðist breytast í þessum efnum.

 

Í fjárhagsáætlun fyrra árs var gert ráð fyrir að unnið yrði að skuldbreytingu lána og óhagkvæm lán endurfjármögnuð. Þrátt fyrir mikla vinnu, mikinn þrýsting og utanaðkomandi aðstoð sérfræðinga og stjórnmálamanna þokast sú vinna hægt. Enginn skilningur, fullkomið úrræðaleysi og ákvarðanatökufælni er hjá bankastofnunum og þetta bitnar allt á neytendum. Í dag eru stærstu lánadrottnar sveitarfélagsins annarsvegar Lánasjóður sveitarfélaga og hins vegar Íbúðalánasjóður vegna Fasteigna Vesturbyggðar. Aðrir stórir lánadrottnar eru Byggðastofnun og Landsbankinn. Er það vegna lána sem stofnað var til á 9. áratug síðustu aldar, fyrir sameiningu sveitarfélaga í Vesturbyggð og síðan til aukningar stofnfjárhlutar Vesturbyggðar í Sparisjóði Vestfirðinga. Það lán lækkaði um tæplega 50% eftir hinn svokallaða MótorMax dóm sem dæmdi lánið ólögmætt gengislán. Nú er aftur komin upp réttaróvissa í þessu máli vegna hæstaréttardóms þar sem lán frá Glitni voru dæmd ólöglega vegna lána til kaupa á stofnfjárbréfum í Byr Sparisjóði. Sveitarfélagið mun að sjálfsögðu gæta allra sinna réttinda í þessu máli.

 

Þrátt fyrir erfiða skuldastöðu er rétt að sýna bjartsýni og gera ráð fyrir að þessi staða sé einungis tímabundin. Þetta gengur yfir eins og hver önnur bræla.

 

Aðgerðir til að rétta af stöðu bæjarsjóðs

 

Þær aðgerðir sem bæjarstjórn hyggst grípa til á yfirstandandi kjörtímabili í því skyni að rétta af stöðu bæjarsjóðs eru í fimm liðum og erframhald frá fyrri fjárhagsáætlun:

 

1. Aðhald í rekstri og fjárhagsleg endurskipulagning
2. Tekjuaukning
3. Skipulagsbreytingar
4. Forgangsröðun verkefna
5. Niðurgreiðsla skulda

 

1. Fjárhagsleg endurskipulagning

 

Farið hefur verið í saumana á öllum rekstri sveitarfélagsins.

 

 • Sett verður innkaupastefna fyrir sveitarfélagiðog sú krafa gerðað ávallt sé leitað hagstæðustu verða hverju sinni.
 • Launakostnaður verður skoðaður sérstaklega hjá öllum stofnunum og deildum og reynt af fremsta megni að minnka yfirvinnu og bæta nýtingu mannafla. Gert er ráð fyrir samningsbundnum hækkunum.
 • Reynt verður að komast hjá því að ráða fólk í störf ef hægt er. Í sumum tilvikum verður dregið úr þjónustu sem ekki er lögbundin.
 • Sú krafa verður gerð tilforstöðumanna að þeir gætiítrasta aðhalds í rekstrinum. Sérstakt átak verður gert til að fylgjast með rekstrinum frá einum mánuði til þess næsta. Framúrkeyrsla úr fjárhagsáætlun er ekki leyfileg.

 

Reynt verður að semja um endurfjármögnun óhagkvæmra lána og kjör skammtímalána enda er fjármagnskostnaður helsta vandamálið í rekstri sveitarfélagsins.

 

2. Tekjuaukning

 

Nauðsynlegt mun reynast að hækka þjónustutekjur með því að leiðrétta gjaldskrár svo þær verði í samræmi við gjaldskrár annarra sveitarfélaga. Heilt yfir eru í flestum tilfellum 5-15% gjaldskrárhækkun sem er það sama og önnur sveitarfélög munu gera á næstunni.

 

Reynt verður af fremsta megni að laða íbúa og fyrirtæki til Vesturbyggðar til varanlegrar búsetu. Það gerum við öll með samstilltu átaki. Gert er ráð fyrir tekjuaukningu hjá Höfnum Vesturbyggðar vegna meiri umsvifa. Þá er gert ráð fyrir auknum útsvarstekjum. Þessar áætlanir eru þó mjög varfærnar.

 

3. Skipulagsbreytingar

 

Á síðasta ári voru boðaðar skipulagsbreytingar á starfsemi sveitarfélagsins. Unnið er að þeim og einnig er unnið að starfsmannastefnuen sótt var um styrk til Sveitamennt og Starfsmenntar til þess og félagsmálastjóri er að klára jafnréttisstefnu fyrir Vesturbyggð og Tálknafjarðarhrepp. Er þeim ætlað að auka faglega stjórnsýslu, stytta ferla og boðleiðir og dreifa álagi.

 

4. Forgangsröðun verkefna

 

Við fjárhagsáætlunina er gert ráð fyrir að verkefnum verði forgangsraðað. Öll verkefnin eru mikilvæg en nauðsynlegt er að fara rækilega yfir einstök verkefni sem ekki geta beðið. Í þessari áætlun hafa forstöðumenn gert tillögur að forgangsröðun sem tekið er tillit til.

 

5. Niðurgreiðsla á skuldum

 

Gert er ráð fyrir að skuldir verði greiddar niður um 45milljónir á árinu 2012. Það verður að teljast gott eins og fjárhagsstaðan er. Farið verður í skuldalækkun með sértækum aðgerðum og vaxtakjör leiðrétt. Unnið er að endurfjármögnun skulda í samráði við Lánasjóð sveitarfélaga og Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga. Lánstraust hjá Lánasjóði sveitarfélaga skiptir sveitarfélagið öllu máli enda býður sjóðurinn mun betri kjör en aðrar lánastofnanir.

 

Skatttekjur

 

Tekjur Vesturbyggðar skv. tekjustofnalögum eru áætlaðar 548milljónir á næsta ári. Það er nokkur hækkun frá árinu 2010 sem skýrist af hækkandi útsvari og fasteignasköttum.

 

Útsvar

 

Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir að útsvarstekjur sveitarfélagsins verði 318milljónir kr. sem er hækkun frá síðasta ári vegna íbúafjölgunar, hækkandi útsvars vegna tillags vegna málefna fatlaðra. Útsvarsálagning er fullnýtt eða 14,48%.
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

 

Reiknað er með að framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði 181 milljónir kr., semívið hærritala en áætlað er á þessu ári. Nokkur óvissa er þó um framlögin frá sjóðnumá komandi ári. .

 

Fasteignaskattur

 

Álagningarstuðlar fasteignagjalda hækka milli ára sem og sorpgjöld.
Fasteignaskattur er áætlaður 37 milljónir króna sem er talsverð hækkun frá fyrra ári enda hefur fasteignamat hækkað sem er vel. Fasteignamat í Vesturbyggð er þó enn eitt það lægsta á landinu.Lóðaleiga er áætluð 13 milljónir.

 

 • Fasteignaskattur á almennt húsnæði verður 0,525% .
 • Opinberar stofnanir: 1,32 % og atvinnuhúsnæði 1,65% eða óbreytt á milli ára.
 • Vatnsgjald hækkar á íbúðarhúsnæði og verður 0,40% en óbreytt eða 0,50% á atvinnuhúsnæði.
 • Holræsagjöld hækka og verða 0,33%.

 

Veittur er 100 % afsláttur af fasteignaskatti til eldri borgara og örorkulífeyrisþega:

 • Einstaklingar með árstekjur allt að 2.143 þús. kr.
 • Hjón með árstekjur allt að 2.977 þús. kr.

 

Auk þess verður 70% afsláttur veittur:

 • Til einstaklinga með tekjur frá 2.143-2.704 þús. kr.
 • Til hjóna með tekjur frá 2.977 þús. kr.-3.786 þús. kr.

 

Samdar verða reglur um styrki til greiðslu fasteignaskatts og holræsagjalds til íþróttafélaga, björgunarsveita og félagasamtaka sem sinna menningarstarfsemi.

 

Útgjaldaliðir

 

02 Félagsþjónusta

 

Miklar breytingar voru gerðar á Félagsþjónustu Vestur-Barðarstrandarsýslu á þessu ári. Félagsþjónustan hefur verið sameiginleg með Tálknafjarðarhreppi sem hefur gengið vel. Nú er gert ráð fyrir að sameina félagsmálanefnd og barnaverndarnefnd og mun hagræðið verða óneitanlega mikið af því.

 

Útgjöld til félagsþjónustu í Vesturbyggð hafa verið tiltölulega lítil á landsvísu en á síðasta ári hefur orðið mikil aukning á fjárhagslegri aðstoð. Ef ekki verða miklar breytingar almennt í samfélaginu má gera ráð fyrir að þessi liður geti vaxið þrátt fyrir gott atvinnuástand hér í Vesturbyggð.

 

Ekki er gert ráð fyrir breytingum á félagsstarfi fyrir aldraða frá því sem nú er. Í skoðun er samstarf við Heilbrigðisstofnun PatreksfjarðarogVelferðarráðuneytið um framtíðarskipan í öldrunarmálum. Aðstaða sem íbúar Kambs hafa lengi barist fyrir, lyfta við húsið, verður sett upp á nýju ári, en því var lofað á síðasta ári. Kostnaður við framkvæmdina er mjög mikill og er fjármögnun þess verkefnis nú lokið en Vestur-Botn ehf. mun fjármagnaverkefnið.

 

Boðað er að óbreyttar reglur gildi um kostnaðarþátttöku ríkisins í húsaleigubótum og þess vegna er gert ráð fyrir að áfram verði greiddar húsaleigubætur samkvæmt núgildandi reglum.


04 Fræðslu- og uppeldismál

 

Fræðslu-og uppeldismál er útgjaldafrekasti málaflokkur allra sveitarfélaga og eru þau flest að skoða hvernig megi draga úr kostnaði en jafnframt að viðhalda gæðum þjónustunnar. Umræða um samrekstur og sameiginlega yfirstjórn skóla hefur verið mjög fyrirferðamikil í samfélaginu undanfarið. Bæjarstjórn leggur ríka áherslu á að styðja við bakið á fræðslumálum.

 

Hagræðingar í rekstrinum og skipulagsbreytingar er þáttur í að efla skólastarfið til lengri tíma.Tveir starfsmenn hættu vegna aldurs á þessu ári og var ekki ráðið nema að hluta í stöðu annars þeirra, en það er hagkvæmara en að greiða yfirvinnu. Vesturbyggð mun áfram styðja við bakið á þeim starfsmönnum sem ætla sér að ná í kennararéttindi (BEd).Þetta verður gert í samstarfi við skólastjórnendur þannig að viðbótarkostnaður skapist ekki og einnig verður sett takmörk um hámarksfjölda einstaklinga á ári hverju. Heildarútgjöld til fræðslumála eru áætlaðar 250 milljónir.

 

Það er mikilvægt fyrir skóla Vesturbyggðar að fá fagmenntaða einstaklinga til starfa, það styrkir skólastarfið. Það er einnig nauðsynlegt að byggja upp metnað í samfélaginu, að íbúar hafi meirimetnað fyrir góðri menntun og þar með góðum skólum. Bestu skólar heims eru starfræktir í örsmáum bæjum. Fylgnin milli gæða skólastarfs og fjármagnsins sem til hans renna fylgist ekki alltaf að, þó svo að vissulega skipti það máli.Gæðin felast í starfinu og mannauðnum. Þess vegna skiptir það máli að hafa vel menntað starfsfólk. Mikið var hlegið þegar Háskóli Íslands tilkynnti að hann ætlaði sér að verða einn af 100 bestu háskólum heims. Nú á aldarafmæli skólans var tilkynnt að HÍ væri kominn í hóp 300 bestu skóla heims og vermir þar bekki með frægustu skólum heims sem starfað hafa í 300-500 ár. Þetta staðfestir að sá litli getur. Framúrskarandi skóli er grunnurinn að öflugu og eftirsóknarverðu samfélagi.

 

Grunnskóli Vesturbyggðar

 

Lagðar eru til nokkrar skipulagsbreytingar og almennar hagræðingarkröfur til að lækka kostnað almennt.

 

Tónlistarskóli Vesturbyggðar

 

Tónlistarskóli Vesturbyggðar var færður úr húsnæði við Stekka 21 í húsnæði í Patreksskóla og húsnæðið leigt út. Mikil hagræðing felst í þessu ogekki síst betri þjónusta við notendur auk þess aðmeiri tengsl munu skapast við Grunnskóla Vesturbyggðar. Eins verður að líta til þeirra fjölbreyttu tækifæra sem munu án efa skapast með þessum samrekstri. Húsnæðið að Stekkum 21 hefur verið auglýst til sölu, en þar til verður það í útleigu.
Gjaldskrá Tónlistarskólans verður hækkuð á nýju ári um 15% og þar með samræmd við aðra skóla á landsbyggðinni.

 

Leikskólar Vesturbyggðar

 

Leikskólar verða áfram reknir á Bíldudal og Patreksfirði. Það ánægjulega hefur gerst að talsverð fjölgun barna er í leikskólunum og líkur er á að þau verði tæplega 50 eftir áramót. Gjaldskrárhækkanir í leikskóla eru 7% en þær eru nauðsynlegar vegna hækkandi launa, matarverðs og almenns verðlags. Leikskólagjöld í Vesturbyggð eru samt sem áður svipuð og gengur og gerist í öðrum sveitarfélögum. Aðstaða á Arakletti og Tjarnarbrekku verður bætt svo hægt verði að framfylgja nýjum leikskólareglum í Vesturbyggð þar sem gert er ráð fyrir að börn 14 mánaða og eldri fái leikskólapláss.

 

05 Menningarmál

 

Ekki er gert ráð fyrir miklum breytingum á rekstri bókasafnanna á Patreksfirði og Bíldudal. Þó hefur verið fækkað um einn starfsmann á bókasafninu. Gert er ráð fyrir 7% hækkun á gjaldskrá milli ára.

 

Skjaldborgarbíóið er þáttur í menningarlífi sveitarfélagsins. Lionsmenn og áhugasamir einstaklingar hafa sýnt bíóinu mikinn stuðning og velvilja sem ber að þakka. Ekki verða gerðar miklar breytingar á þeim rekstri.

 

Unnið er að endurskoðun á starfsemi Minjasafnsins á Hnjóti í samráði við Þjóðminjasafnið og aðra hagsmunaaðila. Mikilvægt er að ná rekstrargrundvelli safnsins á réttan kjöl en vandinn hefur verið umtalsverður undanfarin ár. Framlag Vesturbyggðar er því hækkað í 3,1 milljón króna á næsta ári.

 

06 Æskulýðs- og íþróttamál

 

Æskulýðs-og íþróttamál er annar stærsti málaflokkur sveitarfélagsins. Heildarútgjöld þess málaflokks eru rúmar 91 milljónir kr. Undir málaflokkinn falla rekstur íþróttamiðstöðva og sundlauga, félagsmiðstöðvar, vinnuskóli og stuðningur við íþróttafélög í Vesturbyggð.

 

Gert er ráð fyrir að stytta opnunartíma Bröttuhlíðar um klukkutíma á morgnana og áfram verður öðrum heita pottinum lokað.Leitað verður allra leiða til að lækka hitunar-og lýsingarkostnað í íþróttamiðstöðvunum sem er snar þáttur í rekstri þeirra.

 

Ekki er gert ráð fyrir breytingum á vinnuskólanum frá fyrra á ári enda hefur börnum fækkað sem sækja vinnuskólann.

 

Ekki er gert ráð fyrir breytingu á opnunartíma félagsmiðstöðvarinnar Vest-end. Stutt verður áfram fjárhagslega við starf félagsmiðstöðvar á Bíldudal. Nokkur lækkun er lögð fram á styrkjum við íþróttafélögin.

 

07 Brunamál og almannavarnir

 

Brunavarnir á sunnanverðum Vestfjörðum voru til skamms tíma í miklum ólestri. Síðustu ár hefur mikið og gott starf verið unnið, m.a. í markvissu fyrirbyggjandi starfi. Í úttekt EFS er gerð athugasemd við háan kostnað við málaflokkinn enda er kostnaður Vesturbyggðar við málaflokkinn mun hærri en hjá öðrum sveitarfélögum af sömu stærðargráðu. Heildarútgjöld málaflokksins eru áætluð tæpar 17 milljónir kr.Fjárhagsáætlun ársinsgerir ráð fyrir breytingum á fyrirkomulagi og umfangi aukraunkostnaðarlækkunar.

 

 • Gera verður breytingar á starfsemi slökkviliðs og slökkviliðsstjóra sem er sameiginlegur með Tálknafjarðarhreppi á grundvelli breyttra forsenda.
 • Sett verður þak á fjölda æfinga slökkviliða á árinu.
 • Viðhaldi verður haldið í lágmarki, forgangsraðað og aðgerðaáætlun fyrir næstu ár unnin miðað við breyttar forsendur.
 • Lagt verður aukið fjármagn í búnaðarkaup en hann er orðinn gamall og löngu er kominn tími á endurnýjun.

 

Ofanflóðavörum á Bíldudal er lokið.Haldið verður áfram við hönnun snjóflóðavarnargarða á Patreksfirði og gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á vordögum 2012.Sú framkvæmd verður ein sú viðamesta í Vesturbyggð í áraraðir og mun hafa mikil margfeldisáhrif á svæðinu. Ofanflóðasjóður kostar 90% af þeim kostnaði en áætlaður kostnaður er um 300 milljónir.

 

08 Hreinlætismál

 

Kostnaður við sorphirðingu og sorpförgun hefur farið vaxandi á undanförnum árum og var málaflokkurinn allt of dýr miðað við umfang.Heildarkostnaður við málaflokkinn er áætlaður tæpar 7 milljónir kr. Vesturbyggðhefurí áraraðir greitt með þjónustunni sem er óeðlilegt, ef ekki ólöglegt. Á síðasta ári var breytt um fyrirkomulag og sorpi er nú ekið til Sorpurðunar Vesturlands í Fíflholti á Mýrum. Kostnaður hefur lækkað umtalsvert en samt sem áður þarf að hækka gjaldskrána enda var gjaldið allt of lágt sem innheimt var af málaflokknum í gegnum tíðina. Gjaldskráin er samt sem áður lægri eða svipuð og hjá öðrum sveitarfélögum.

 

09 Skipulags- og byggingamál

 

Nýr forstöðumaður Tæknideildar, Ármann Halldórsson, var ráðinn snemma á þessu ári.Starfar hann einnig fyrir Tálknafjarðarhrepp. Ármann hefur yfirumsjón með öllum verklegum framkvæmdum, skipulags-og byggingarmálum, umhverfismálum, viðhaldi og sorpmálum.

 

Bjarni Þór Einarsson lét af störfum sem byggingarfulltrúi á haustdögum og eru honum þökkuð vel unnin störf.
Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir kostnaðarlækkun við málaflokkinn um rúmar 6 milljónir. Hann mun fara úr tæpum 16 milljónum niður í tæpar11milljónir kr.

 

10 Umferðar- og samgöngumál

 

Viðhaldi gatna og gangstétta hefur verið haldið í algjöru lágmarki sl. ár. Mjög brýnt er að fara í viðhald á gatnakerfinu og er því gert ráð fyrir hækkun á útgjöldum til þessa málaflokks á árinu. Hér gildir einng eins og annars staðar: forgangsröðun.

 

Helstu verkefni:
1. Auka á framlög til viðhalds, malbikunar og afréttinga gatna bæði á Patreksfirði og Bíldudal.
2. Auka á framlög til gangstétta og göngustíga bæði á Patreksfirði og Bíldudal.

 

Heildarkostnaður við málaflokkinn er áætlaður 25 milljónir kr.

 

11 Umhverfismál

 

Lögð er fram almenn hagræðingarkrafa á málaflokkinn en jafnframt eru íbúar hvattir til þess að huga að umhverfi sínu og halda áfram því átaki sem hafið var á þessu ári í að bæta umhverfi sveitarfélagsins. Íbúar eru hvattir til að huga að görðum og húsum og sveitarfélagið mun áfram sömuleiðisleggja sitt af mörkum.

 

Ekki er gert ráð fyrir breytingum vegna grenjavinnslu nema breytingar verði á endurgreiðslum frá ríki.

 

Heildarkostnaður við málaflokkinn er 14 milljónir kr. og er það lækkun um tæpar 2 milljónir kr. frá 2011.

 

13 Atvinnumál

 

Framlög til atvinnumála hækka um 1 milljón kr. frá árinu 2011. og er heildarkostnaður við málaflokkinn áætlaður 8 milljónir kr.Áfram verðurstutt við ATVEST og fjármagn sett til verkefna til að sporna við atvinnuleysi. Þau verkefni verða unnin í samráði við Vinnumálastofnun. Áfram verðurgreitt til Markaðsstofu Vestfjarða. Haldið verður áfram að vinna við tjaldsvæðin á Bíldudal og Patreksfirði enda tekjuaukandi verkefni og mikilvægur þáttur í móttöku ferðamanna.

 

Kláraður verður 2. áfangi tjaldsvæðisins á Patreksfirði og haldið áfram við að græða upp svæði við tjaldsvæðið á Bíldudal.

 

17 Félagsheimili

 

Mikil þörf er á að taka umræðu um starfsemi, eignarhald, fjárhagslega ábyrgð og verkefni félagsheimila í sveitarfélaginu. Það er óforsvaranlegt að sveitarfélagið eitt beri ábyrgð á rekstri félagsheimila í sveitarfélaginu.
Þá er mikilvægt að kanna rekstrargrundvöll félagsheimilanna í sveitarfélaginu enda nauðsynlegt að fá tekjur inn til þess að hægt verði að fara í viðhaldsverkefni sem löngu er kominn tími á.

 

21 Sameiginlegur kostnaður

 

Sameiginlegur kostnaður lækkaði um 20 milljónir milli ársins 2010 og 2011 en árið 2010 var kosningaár og þá er kostnaður venjulega meiri. Áfram er gert ráð fyrir að sameiginlegur kostnaður lækki. Samþykkt hefur verið að sameina tvær nefndir með Tálknafjarðarhreppi og mikið aðhald hefur verið á bæjarskrifstofum. Rétt er að kanna hvort sameina megi fleiri nefndir.
Heildarkostnaður er áætlaður 74 milljónirkr. sem er lækkun um hálfa milljón kr. frá líðandiári.

 

31 Eignasjóður

 

Gert er ráð fyrir að afkoma eignasjóðs verði rúmlega 10 milljónir kr. betri árið 2012 frá endurskoðun fjárhagsáætlunar 2011 eða jákvæð um tæpar 27 milljónir kr. Reynt verður að halda við eignum sveitarfélagsins af fremsta megni.Viðamikil úttekt var gerð á orkunotkun af Verkfræðistofunni Afli og orku og tillögur gerðar til að lækka orkukostnað, en sveitarfélagið er að greiða 34 milljónir kr. á ári í orkukostnað. Gera þarf breytingar á hitastýringakerfi almennt til að lækka kostnað og munu íbúar geta tekið þátt í útboðum og verðum sem í boði verða fyrir sveitarfélagið.Unnið hefur verið að forgangsröðun verkefna en viðamestu verkefnin eru þó án efa:

 

 • Bíldudalsskóli: Viðgerðir utanhúss.
 • Patreksskóli: Þakviðgerðir og málning á gluggum.
 • Birkimelsskóli: Viðgerðir á gluggum.
 • Klára körfuboltavöll við Patreksskóla.
 • Breytingar á hitastýringu í eignum sveitarfélagsins.

 

Gert er ráð fyrir eignasölu; íbúðir og annað húsnæði. Ágóði af eignasölu verður nýttur til að greiða upp skuldir.

 

Selja á:
1. Aðalstræti 63, Patreksfirði, bæjarskrifstofur
2. Jarðhæð í Urðargötu 23, Patreksfirði.
3. Allar íbúðir FV eru til sölu.
4. Stekkar 21, Patreksfirði.

 

Kaupa eða leigja á:
Nýtt húsnæði fyrir bæjarskrifstofur.

 

41 Hafnarsjóður

 

Heildartekjur Hafnarsjóðs eru áætlaðar tæpar 68milljónir kr. en gjöldin eru áætluð 65 milljónir kr. Tekjuáætlun hafnarsjóðs er varlega áætluð en gert er ráð fyrir tekjuaukningu vegna aukinna umsvifa hjá Ískalk og Fjarðalaxi.Nokkur tekjusamdrátturhefur orðið vegna framkvæmda við Patrekshöfn, sem átti að ljúka á þessu ári, en lýkur ekki fyrr en á vormánuðum úr því sem komið er. Á síðasta ári var lokið við deiliskipulag á hafnarsvæðinu á Patreksfirði, unnið að viðhaldi, lokið við fyrsta áfanga uppsáturs- og geymslusvæðis, farið í umhverfisátak á höfnunum, hafnarvog á Patreksfirði máluð, ljóshús á Brjánslæk máluð og ýmislegt fleira. Gjaldskrár munu hækka um 5%.

 

Framkvæmdir á vegum hafnarsjóðs:

 • Lokið verði við framkvæmdir við lagnir og þekju í Patrekshöfn.
 • Skoðun á heildarlausn flotbryggjuvanda í Vesturbyggð.
 • Farið verður í málningarvinnu, viðhald og önnur umhverfisverkefni á hafnarsvæði.
 • Uppsáturssvæði klárað á Patreksfirði.
 • Áfram haldið áfram við viðhald Verbúðar á Patreksfirði.
 • Öryggismál bætt á öllum höfnum.

43 Vatnsveita

 

Miklar framkvæmdir hafa verið við Vatsnveitu Vesturbyggðar á síðasta ári. Forstöðumaður tæknideildar vinnur nú að því að teikna upp lagnakerfi bæjarins enda hafa þær upplýsingar verið í ólestri í mörg ár og lega lagna aðeins verið í minni fyrrum eldri starfsmanna Vesturbyggðar. Feykileg viðhaldsþörf er komin á kerfið enda hefur því lítið verið sinnt í gegnum tíðina og kominn er tími á að endurnýja nánast allt kerfið. Til þess að hægt sé að mæta þessum auknu verkefnum er vatnsgjald hækkað. Tekjur eru áætlaðar um 20 milljónir en gert er ráð fyrir framkvæmdum fyrir nánast sömu upphæð. Endurnýjaðar verða aðveituæðar á Patreksfirði og Bíldudal. Heildargjöld málaflokksins nettó eru áætluð 674 þúsund kr. í fjárhagsáætlun ársins.
Unnið hefur verið að stofnun HitaveituVesturbyggðar svo hægt verði að selja orku úr borholu við Birkimel, sem er nú gjaldfrjáls. Vegna skrifræðis og aukinna krafna hins opinbera hefur enn ekki verið hægt að koma af stað starfsemi hitaveitunnar en stefnt er að því að ljúka því eins fljótt og auðið er. Verkefni Hitaveitu Vesturbyggðar verður ennfremur jarðhitaleit eða skoðun á varmadæluvæðingu í nánustu framtíð enda verður sveitarfélagið að leita allra leiða til að lækka húshitunarkostnað og rafmagnskostnað eins og áður hefur verið nefnt og þar með að auka lífsgæði íbúanna.

 

49 Fráveita

 

Nokkur aukning verður á útgjöldum til fráveitna vegna mjög aðkallandi verkefna sem liggja fyrir. Jafnframt voru fráveitugjöld hækkuð.Unnið verður að viðhaldi á fráveitukerfum sem eru eins og flest allt, komið á mikið viðhaldsstig. Gert er ráð fyrir að rekstur fráveitu verði á núlli.

 

57 Fasteignir Vesturbyggðar

 

Enn er gert ráð fyrir afleitri afkomu Fasteigna Vesturbyggðar ehf.Er gert ráð fyrir tæplega 4 milljón kr. tapi og rétt er að taka fram að A-sjóður mun leggja félaginu til 10 milljónir kr. Skýrist afkoma félagsins einungis af skuldavanda félagsins. Eins og áður hefur verið nefnt hafa viðræður staðið yfir við Íbúðalánasjóð í rúmt ár vegna þeirra lána sem hvíla á félaginu. Ekkert hefur gengið enda er úrræðaleysi sjóðsins gagnvart sveitarfélögum algjört og stefnuleysið líka. Reynt hefur verið að sinna lágmarksviðhaldið til þess að fá íbúa í íbúðir félagsins en fjármagnið er samt sem áður lítið sem ekkert.

 

Seldar hafa verið 5 íbúðir á árinu sem er jákvætt. Hins vegar hefur ekkert gengið í samskiptum við Íbúðalánasjóð varðandi afléttingu veða svo hægt sé að ganga frá sölu þessara íbúða. Varasjóður Húsnæðismála mun leggja til 50% af greiðslu þeirra lána sem eftir standa eftir kaupin en Fasteignir Vesturbyggðar hafa óskað eftir því að hin 50% verði hægt að flytja yfir á aðrar veðbandalausar eignir í eigu FV. Reynt verður að selja fleiri íbúðir, óíbúðarhæfar eignir lagaðar og þeim komið í leigu.

 

Nýtum tækifærin og sækjum fram

 

Stjórnendur bæjarfélags hafa mikil áhrif á framtíð sveitarfélaga. Miklivægt er að horfast í augu við þær staðreyndir sem við blasa og taka tillit til þeirra við mótun framtíðarstefnu. Raunsæi við áætlanagerð er lykilatriði. Bæjarfélag sem er sjálfbært og getur staðið á eigin fótum er betur í stakk búið til að takast á við breytta tíma og breyttar kröfur samfélagsins. Vesturbyggðar bíður að verða sjálfbært samfélag í fjárhagslegu tilliti. Það mun gerast á næstu árum ef rétt verður á málum haldið.

 

Fjárhagsáætlunin ber merki um ábyrga fjármálastjórn og mikinn viðsnúning frá fyrra ári. Ef dregnar eru saman þær aðgerðir sem bæjarstjórn hyggst grípa til og áhrif þeirra á rekstur sveitarfélagsins skoðuðþá mun sveitarfélaginu takast að vinna sig út úr þeim vanda sem að steðjar á næstu árum. Það er ljóst að það krefst sameiginlegs átaks íbúa, starfsmanna og stjórnenda sveitarfélagsins. Það er líka ljóst að vandinn er alls ekki óviðráðanlegur og Vesturbyggð mun ná vopnum sínum á ný. Auknar tekjur gefa tilefni til bjartsýni og örlítilli fjölgun íbúa ber að fagna.

 

Auknar álögur á íbúana eruekki vinsælar, en það ber þó að hafa í huga að þeir fjármunir sem sveitarfélög innheimta fara jú sannarlega til íbúa viðkomandi sveitarfélags aftur í formi þjónustu eða fjárfestingaenda er sveitarfélagið í sameign okkar allra. Nauðsynlegt er að viðhalda eignum sveitarfélagsins.Viðhaldsleysi síðustu áratuga er nú rækilega að koma fram og mikilvægt verður að leggja aukið fjármagn til viðhalds og fyrirbyggjandi aðgerða.

 

Fyrir liggur að taprekstur á árinu 2012 verður talsverður eða um 9 milljónir. Það er þóveruleglækkun, eða 40 milljónir, frá endurskoðaðri fjárhagsáætlun ársins 2011 sé litið framhjá óreglulegum tekjum vegna endurútreiknings ólöglegs erlends myntkörfuláns.Brýnasta verkefnið verður þó að lækka fjármagnsgjöld og afborganir lána. Hin þunga lánabyrði er sveitarfélaginu nánast um megn og lækkun á þessum gjöldum er lífsspursmál fyrir sveitarfélagið.Í þriggja ára áætlun verður lagður grunnur að viðsnúningi rekstrarins næstu ár í samvinnu við ráðgjafa frá Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga.Sá viðsnúningur leggur grunnin að því að sveitarfélagið verði sjálfbært og öflugt og þar með vel ístakk búið til að þjóna þörfum íbúana. Forsenda þess að ná fram þeim skuldalækkunum sem stefnt erað, er einmitt að sýna fram á að sveitarfélagið geti verið sjálfbært. Rétt er að hafa það í huga þegar heildarmyndin erskoðuð að til mikils er að vinna, þrátt fyrir gjaldskrárhækkanir og aðhalds í rekstri.Sérstaklega í ljósi nýrra sveitarstjórnarlaga og fjármálareglna sveitarfélaga en í þeim felst að sveitarfélög mega ekki vera með taprekstur 3 ár í röð. Ég er líka sannfærð um að tekjur muni aukast almennt í samfélaginu sem leiðir til öflugra sveitarfélags þegar fram líða stundir.

 

Samvinna Vesturbyggðar og Tálknfjarðarhrepps verður æ mikilvægari fyrir bæði sveitarfélögin. Samvinna eykur hagkvæmni í rekstri beggja sveitarfélaga og bætir þjónustu við íbúana.

 

Lokaorð

 

Bæjarstjórnin ber ábyrgð á fjárhagslegum rekstri Vesturbyggðar og ætlar sér samhent að mæta erfiðri stöðu sveitarfélagsins. Þetta er mjög mikilvægt. Það er mín trú að ef við getum greitt niður lán sveitarfélagsins þá getum við litið bjartsýn fram á veginn.Atvinnulífið er blómlegt. Sjávarútvegurinn er sterkur og verður ávallt undirstöðuatvinnugrein Vesturbyggðar. Í laxeldi eru mikil sóknarfæri og við vonum að öll þau áform sem nú eru uppi heppnist vel og reynist sem vítamínssprauta í samfélögin okkar hér á svæðinu. Kalkþörungavinnslan á Bíldudal hefur verið mikill happafengur. Verksmiðjan vinnur nú að stækkun og vonandi verður flutt meira út en áður og að frekar verði unnið að nýtingu afurðarinnar í heimabyggð.Ferðaþjónusta er vaxandi þáttur í atvinnulífinu. Mikil sóknarfæri felast í stofnun þjóðgarðs á Látrabjargi og umhverfisvottun Vestfjarða. Síaukinn áhugi landsmanna og erlendra ferðamanna á Vestfjörðum er líka sóknarfæri fyrir okkur. Umhverfisvæn ferðaþjónusta og fjölskylduferðamennska eiga að vera okkar helsta vara. Í því sambandi þarf að líta til framtíðar og byggja upp grunnstoðir eða „hafnarmannvirki" ferðaþjónustunnar. Bættar samgöngur eru lykilatriði. Upplýsingamiðstöð er verkefni sem við eigum að setja á dagskrá á næstu árum samhliða því að hvetja til endurbygginga á gömlum húsum. Þá er það mín trú að þjóðgarður hér á svæðinu þar sem náttúruvernd, mannlíf og atvinnulíf vinna saman muni auka hagvöxt svæðisins umtalsvert.


En umfram allt þá býr hér hæfileikaríkt og gott fólk með einstakt lundarfar. Fólk sem þekkir að búa við einangrun, vondar samgöngur og erfiðar aðstæðurí okkar litla landi norður í höfum. Svoleiðis fólk getur rifið sig úr kreppu. Við fögnum líka unga fólkinu sem hingað er að flytja eftir nám og vill byggja upp framtíð sína hér . Það segir okkur að framtíð sunnanverðra Vestfjarða er björt.

 

Kæru íbúar!

 

Næstu ár verða áfram erfið en umsvifin í samfélaginu eru að aukast, við sjáum ný tækifæri verða að veruleika og það er íbúafjölgun. Trúin á sunnanverðum Vestfjörðum er að aukast og við þurfum sjálf að auka trú okkar á svæðinu með jákvæðni og uppbyggilegri gagnrýni. Við þurfum að vera sendiherrar svæðisins okkar, sýna aukinn metnað og vera stolt af því sem við höfum. Þannig mun Vesturbyggð verða sterkt samfélag á ný.

 

Patreksfirði, 14. desember 2011
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri

 

 

Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is