Árbók Barðastrandarsýslu 2012

Árbók Barðastrandarsýslu 2012
Árbók Barðastrandarsýslu 2012
Bókin hefst með fundi Patreksfjarðar í kvæðinu Sigling Örlygs gamla eftir Jón Trausta. Á eftir koma níu greinar og þrjár skýrslur.

 

Fyrst fjallar Guðjón Friðriksson um upphaf þorps á Patreksfirði sem upphaflega er ritgerð hans til B.A. prófs við Háskóla Íslands frá 1970 en ritgerðin hefur áður birtst í Árbók Sögufélags Ísfirðinga.

 

Síðan ritar Steinunn Eyjólfsdóttir stutta frásögn af því er hvítabjörn kom fram í Skjaldarbjarnarvík á Ströndum á fyrri hluta síðustu aldar.

 

Þá birtir Einar Óskarsson frá Firði ljóðabréf sem hann fékk sent um miðja síðustu öld frá Júlíusi á Litlanesi.

 

Adólf Friðriksson segir frá uppgreftri í Hringsdal í Arnarfirði, kumlum og munum sem hafa fundist þar en fornleifarannsóknum er ólokið svo enn gætu fundist álíka fornminjar þar.

 

Finnbogi Jónsson segir frá Brynjólfi Björnssyni sem um tíma bjó í Litlanesi og kvæðabálki hans frá 1914 um býli og ábúendur í Múlasveit. Fjölmargar myndir af ábúendum fylgja og er nánar sagt frá þeim.

 

Már Jónsson birtir einkabréf foreldra Einars Péturssonar til hans, rituð í Skáleyjum 1882-1886. Einar var fæddur um miðja 19. öld, fór til Kaupmannahafnar að læra trésmiði, missti geðheilsu og lést í Sviðnum 1941. Á hann er einnig minnst í árbókinni fyrir 2005.

 

Ari Ívarsson skrifar um vélvæðingu í Rauðasandshreppi og nágrenni. Í greinni er fjallað um vélvæðingu báta, fyrstu bílana, dráttarvélar og jarðýtur.

 

Jófríður Leifsdóttir birtir texta eftir Eystein Gíslason í greininni Bundið mál og Þrymur Sveinsson birtir bréf Hákonar Magnússonar til sáttanefndar Reykhólahrepps frá 1905.

 

Því næsta eru birtar þrjár skýrslur: Látnir sýslungar 2010 eftir Daníel Hansen, skýrsla stjórnar Barðstrendingafélagsins fyrir árið 2011 og skýrsla formanns kvennadeildar Barðstrendingafélagsins fyrir árið 2011. Loks er skrá yfir höfunda efnis.

 

Hægt er að panta árbókina hjá Hjörleifi Guðmundssyni, formanni félagsins, í síma 846 4730. Einnig eru til sölu eldri árgangar.

 

Árbók Barðastrandarsýslu er héraðsrit Barðastrandarsýslu. Í bókinni eru allra jafna birtar greinar um menn og málefni úr sýslunni, skrifaðar af fólki úr sýslunni eða fólki sem tengist henni. Árbókina prýðir fjöldi mynda sem fæstar hafa birst opinberlega áður. Árbókin er bæði fræðirit og skemmtirit.

Árbók Barðastrandarsýslu 2012 er 23. árgangur og telur 223 síður að þessu sinni. Daníel Hansen er ritstjóri og Sögufélag Barðastrandarsýslu gefur út.

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is