Auglýsing um breytingu á aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018

Vesturbyggð
Vesturbyggð
Gerð hefur verið svokölluð lýsing vegna fyrirhugaðrar breytingar á aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018 vegna laxeldis, urðunar, landnotkunar í fjallshlíðum, þéttbýla- og iðnaðarsvæða á Bíldudal. sbr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Á fundi skipulags- og bygginganefndar Vesturbyggðar þann 14. nóvember 2012 og á fundi bæjarstjórnar þann 21 nóvember 2012 var skipulagslýsingin samþykkt. Skipulagslýsingin er nú til kynningar í samræmi við 30 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Tilefni aðalskipulagsbreytingar er að Sveitarfélagið Vesturbyggð vinnur nú að breytingu á aðalskipulagi. Breytingin er í nokkrum liðum sem taldir eru upp hér að neðan.

1. Fjarðalax hefur í huga að koma upp fóðurstöðvum á tveimur stöðum innan Vesturbyggðar. Annars vegar í Fossfirði og hins vegar í Patreksfirði. Skilgreind eru því iðnaðarsvæði á þessum stöðum þar sem gert er ráð fyrir fóðurstöðvum. Samhliða
aðalskipulagsbreytingu er unnið að deiliskipulagi.

2. Breytingin mun einnig skilgreina urðunarsvæði í Vatneyrarhlíð þar sem ætlunin er að urða óvirkan úrgang. Unnið er að deiliskipulagi fyrir svæðið og verður það auglýst samhliða aðalskipulagsbreytingunni.

3. Aðalskipulagsbreytingin er einnig gerð vegna þess að verið er að festa í sessi geymslusvæði fyrir brotajárn við Bíldudal, að koma fyrir gámaplani og færsla á steypustöð sem staðsett er við höfnina á Bíldudal. Unnið er að deiliskipulagi fyrir svæðið.

4. Gerð er einnig breyting á þéttbýlismörkum á Patreksfirði og á Bíldudal og hlíðarnar ofan byggðar, lækjarfarvegir, gil, árbakkar, fjörur og strandsvæði eru skilgreindar sem opið svæði til sérstakra nota. Í vinnslu er deiliskipulag fyrir krapaflóðavarnir sem nær yfir hluta Litludalsár að verslunar‐ og þjónustusvæði V8 og svæði S16/V7.

5. Gerð er breyting á verslunar‐ og þjónustusvæði merkt V8. Svæðið mun stækka til norðurs og gerð verður einnig breyting á tengibraut (Aðalstræti) en henni verður lokað á milli Aðalstrætis 100 og 110 og verður að botnlanga sitthvoru megin við Litludalsá.

Unnið er að deiliskipulagi fyrir svæði S16/V7.

Breytingin fellur undir lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 þar sem hún er að móta stefnu um tilkynningarskylda framkvæmd. Samkvæmt 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, viðauka 2, þarf að kanna matskyldu framkvæmdarinnar þar sem um er að ræða förgunarstöðvar þar sem úrgangur er brenndur, meðhöndlaður með efnum eða urðaður.

Helstu forsendur fyrir breytingunni eru þær að koma þarf fyrir fóðurstöðvum fyrir fiskeldiskvíar í Fossfirði og í Patreksfirði og að skilgreina núverandi urðunarsvæði í Vesturbyggð þar sem lítið magn af óvirkum úrgangi hefur verið urðaður. Ennfremur er verið að tryggja nægjanlegt framboð af iðnaðarlóðum og lóðum fyrir hesthús við Bíldudal sem og víkka út möguleika til mannvirkjagerðar í útjaðri Patreksfjarðar og Bíldudals hvort sem er til útivistar eða ofanflóðavarna.

 

Skipulagslýsingin er til sýnis á heimasíðu Vesturbyggðar www.vesturbyggd.is og skrifstofu Vesturbyggðar, Aðalstræti 75, Patreksfirði, frá 22 - 29 nóvember 2012 á skrifstofutíma.

 

Athugasemdir við skipulagslýsinguna skulu berast Skrifstofu Vesturbyggðar, Aðalstræti 63, 450 Patreksfirði eigi síðar en 29. nóvember 2012 og skulu þær vera skriflegar.

 

Eftir kynningu á skipulagslýsingunni verður fjallað um aðalskipulagsbreytinguna og hún kynnt samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010.

 

 

Ármann Halldórsson,
byggingarfulltrúi Vesturbyggðar

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is