Aukin umsvif og bjartsýni í Vesturbyggð- miklar framkvæmdir á dagskrá.

Fjárhagsáætlun Vesturbyggðar 2015 samþykkt

 • Tekjuaukning Vesturbyggðar milli ára vegna fólksfjölgunar og aukinna umsvifa, íbúar eru nú 990.
 • Reksturinn fyrir fjármagnsliði jákvæður um 69 milljónir kr.
 • Rekstarafgangur samstæðunnar áætlað 4 milljónir kr. á árinu.
 • Veltufé frá rekstri áætlað 90 milljónir kr.
 • Skuldahlutfall er áætlað að verði 140%.
 • Álagningarstuðlar fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði lækka í 0,5%,
 • Leikskólagjöld og og gjald fyrir lengda viðveru hækkar ekki.

Fjárhagsáætlun Vesturbyggðar fyrir árið 2015 var samþykkt í bæjarstjórn Vesturbyggðar við síðari umræðu 2. desember sl. Íbúum hefur fjölgað um 40 á milli ára og eru nú 990. Þetta þýðir auknar tekjur og meiri umsvif í samfélaginu. Aldrei fyrr hafa jafn miklar fjárfestingar verið samþykktar og í þessari fjárhagsáætlun eða upp á 215 milljónir króna. Er það helst að nefna nýja flotbryggju á Patreksfirði, landfyllingu á Bíldudal, fyrri áfanga endurbóta á Íþróttamiðstöðinni Bröttuhlíðar, viðbygging við Íþróttamiðstöðina Byltu á Bíldudal vegna tjaldsvæðisaðstöðu og tækjasals. Ennfremur er gert ráð fyrir að fara í fyrsta áfanga endurbyggingar Aðalstrætis á Patreksfirði og vinna að endurbótum í Vatneyrarbúð innanhúss. Áfram verður unnið að endurbótum á skólahúsnæði í sveitarfélaginu og bættum tækjakosti. Fyrirtæki og félagasamtök hafa fært skólunum spjaldtölvur að gjöf sem er þakkarvert.

 

Unnið verður að innleiðingu skólastefnu Vesturbyggðar í samstarfi við Ingvar Sigurgeirsson professor við Háskóla Íslands, boðið verður upp á tilraunaverkefni sem felst í meðferð talmeinafræðinga í gegnum fjarfund og áfram verður boðið upp á sálfræðiþjónustu eins og verið hefur sl. ár. Eins er áætlað að bjóða upp á foreldranámskeið byggja upp þverfaglegt teymi og vinna að aðgerðaráætlun gegn ofbeldi. Opnunartími Eyrarsels og Læks á Bíldudal verður aukinn og kanna á með áhuga á félagsstarfi fyrir aldraða á Barðaströnd.

 

Samþykkt var að vinna að úttekt á rekstri áhaldahúsa, hafna og slökkviliðs með samvinnu í huga enn ekki síður bætta nýtingu starfsmanna. Áfram verður unnið að frekari flokkun sorps í sveitarfélaginu og verða Blátunnur settar upp við hver hús sem taka við pappír og pappa. Áfram verður unnið með símenntunaráætlun Vesturbyggðar og áhersla verður lögð á efla þekkingu starfsmanna Vesturbyggðar.

 

Álagningarstuðlar fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði lækka í 0,5%, og leikskólagjöld og lengd viðvera hækka ekki að öðru leyti hækka gjaldskrár almennt um 3,4%.

Miklar breytingar hafa orðið á rekstri Vesturbyggðar síðustu ár. Unnið hefur verið að skuldalækkun með sölu fasteigna og niðurgreiðslu skulda. Langtímaskuldir Vesturbyggðar eru í dag um 980 milljónir við tvo lánadrottna, Lánasjóð sveitarfélaga og Íbúðalánasjóð. Gert ráð fyrir raunhækkun skulda á næsta ári vegna fjármögnunar á framkvæmdum. Heildarskuldbindingar Vesturbyggðar; langtímalán, skammtímalán og lífeyrissjóðsskuldbindingar eru áætlaðar að verði 1.422 milljónir og eigið fé 320 milljónir kr. í lok næsta árs Skuldahlutfall er áætlað að hækki úr 136% í 140% í lok næsta árs. Lykiltölur

 • Reksturinn fyrir fjármagnsliði er jákvæður um 69 milljónir. Er áætlaður 74 milljónir í fjárhagsáætlun 2014.
 • Fjármagnsliðir eru áætlaðir 65 milljónir. Eru 74 milljónir í fjárhagsáætlun 2014.
 • Rekstrarniðurstaðan er jákvæð um 4 milljónir en er áætluð jákvæð um 0,5 milljónir í fjárhagsáætlun 2014.
 • Veltufé frá rekstri er áætlað 90 milljónir kr. er áætlað 83 milljón kr. í fjárhagsáætlun 2014.

 

Útsvar og fasteignagjöld

Útsvarsprósenta verður óbreytt frá fyrra ári. Álagningarstuðull fasteignaskatts á A-flokk húsnæðis (íbúðir) lækkar í 0,500%. Aðrir álagningarstuðlar fasteignagjalda verða óbreyttir.

Nánari upplýsingar veitir Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri. Sími: 864-2261. Netfang: asthildur@vesturbyggd.is

 

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is