Bæjarstjórn Vesturbyggðar mótmælir boðaðri sameiningu heilbrigðisstofnana harðlega og boðar til íbúafundar 30. október nk.

Á 263. fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar sem haldinn var 16. október voru miklar umræður um áform um sameiningu heilbrigðisstofnana á Vestfjörðum. Bæjarstjórn ítrekaði ennfremur ósk um viðræður um endurbætur á Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar og yfirtöku sveitarfélagsins á rekstrinum en það erindi var lagt fram við heilbrigðisráðherra á fundi bæjarráðs með honum í sumar. Bæjarfulltrúar lýstu mikilli andstöðu við tillögurnar og var ákveðið að bjóða heilbrigðisráðherra og þingmönnum kjördæmisins til fundar með íbúum sunnanverðra Vestfjarða þann 30. október kl. 18 í Félagsheimilinu á Patreksfirði.

Bæjarstjórn ítrekaði ennfremur eftirfarndi bókun bæjarráðs Vesturbyggðar:

Bæjarstjórn Vesturbyggðar mótmælir harðlega boðuðum sameiningum heilbrigðisstofnana sem veikja enn frekar grunnstoðir samfélaganna allt í kringum landið og minnka öryggi íbúa. Bæjarstjórn Vesturbyggðar bendir auk þess á að útilokað er að eiga faglegt samstarf við Heilbrigðisstofnunina á Ísafirði 9 mánuði á ári vegna samgönguleysis, allt eins væri hægt að vera í samstarfi við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupsstað eða á Akureyri. Boðuð sameining er einungis til þess fallin að auka enn á einhæfni í atvinnulífi á svæðinu og fækka atvinnutækifærum í heimabyggð. Í ljósi fyrirheita núverandi ríkisstjórnar um eflingu byggða, þá er rétt að benda á mikilvægt hlutverk hins opinbera við að halda úti þjónustu í nærsamfélaginu. Erfitt er að sjá hverju slík sameining á að skila, öðru en fækkun starfa í viðkvæmu samfélagi.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hafnar því alfarið öllum hugmyndum um sameiningu Heilbrigðisstofnunarinnar á Patreksfirði og Heilbrigðisstofnunarinnar á Ísafirði en ítrekar fyrri boð og erindi til heilbrigðisráðherra, dagsettu 29. júlí 2013 þar sem óskað er eftir viðræðum um endurbætur á HSP og yfirtöku sveitarfélagsins á rekstri stofnunarinnar.Með yfirtöku sveitarfélagsins á rekstri heilbrigðisþjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum skapast mörg tækifæri í samþættingu þjónustu við íbúa í samstarfi við Félagsþjónustu Vestur-Barðastrandarsýslu. Möguleiki er á að auka þjónustustigið og efla faglegt starf með sérhæfðu starfsfólki þar sem horft er heildstætt á hvert mál fyrir sig þar sem heilsugæsla og félagsþjónusta vinna saman að bestu lausn mála.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar ítrekar mikilvægi þess að velferðaráðuneytið hefji nú þegar undirbúning að brýnum endurbótum á aðstöðu á Heilbrigðisstofnuninni á Patreksfirði og lýsir sig jafnframt reiðubúið til að hefja viðræður um yfirtöku á rekstrinum.“

Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is