Bæjarstjórn bókar vegna nýrra embætta sýslumanna og lögreglustjóra á Vestfjörðum.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar bókaði eftirfarandi á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar sem haldinn var í gær 18. júní, vegna tillagna um staðsetningu nýrra embætta sýslumanna og lögreglustjóra á Vestfjörðum. Bókunin var samþykkt samhljóða.

 

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hafnar framkomnum hugmyndum Innanríkisráðherra um staðsetningu á sýslumannsembættum og lögreglustjórum skv. nýju lagafrumvarpi sem samþykkt var á vorþingi og gerir ráð fyrir fækkun embætta allt í kringum landið. Bæjarstjórn Vesturbyggðar bendir á að sunnanverðir Vestfirðir séu næst fjölmennasta svæði Vestfjarða og eðlilegt sé að dreifa embættum um fjórðunginn. Þess vegna ber einnig að líta til Patreksfjarðar og Hólmavíkur vegna staðsetningar embætta sýslumanns, lögreglustjóra og Héraðsdóms Vestfjarða, sérstaklega í ljósi erfiðra samgangna.

Umræðuskjal sem fylgir tillögu að reglugerð um staðsetningu sýslumanna og lögreglustjóra er með hreinum ólíkindum. Þar er talað um að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir byggðaröskun og það sé gert með því að staðsetja skrifstofur sýslumanns og lögreglustjóra í sitt hvoru bæjarfélaginu. Tillaga um að staðsetja bæði skrifstofu sýslumanns og lögreglustjóra á norðursvæði Vestfjarða er því í besta falli hlægileg, því ætla má að einungis sé tímaspursmál hvenær sameining verði á norðursvæði Vestfjarða og verða þá skrifstofurnar báðar staðsettar í sama sveitarfélagi og Héraðsdómur Vestfjarða er einnig staðsettur á Ísafirði.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar bendir á að íbúar sunnanverðra Vestfjarða munu ekki geta nýtt sér þjónustu sýslumannsins á Vestfjörðum eins og samgöngur eru í dag enda afar langt til Bolungarvíkur, bæði að sumri og vetri. Úr því að tækifærið var ekki nýtt og embættunum dreift um fjórðunginn þá telur bæjarstjórn Vesturbyggðar eðlilegt að skoða hvort að suðursvæði Vestfjarða eigi ekki frekar heima undir umdæmi Sýslumannsins á Vesturlandi sem sitja á í Stykkishólmi, þar sem auðveldustu samgöngurnar í dag fyrir íbúa Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps eru yfir Breiðafjörð.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar ítrekar að með þessum nýju lögum er enn og aftur vegið að opinberum störfum á landsbyggðinni með tilheyrandi áhrifum á skatttekjur og samfélagsgerð í smærri samfélögum líkt og í Vesturbyggð. Nýlegt dæmi eru áform um sameiningu Heilbrigðisstofnunarinnar á Patreksfirði við HSV á Ísafirði án samráðs við sveitarstjórnir á svæðinu. Þar er tilflutningur opinberra starfa úr vaxandi byggðarlögum á sunnanverðum Vestfjörðum enn og aftur á borði hins opinbera. Það er merkilegt að ríkisstjórnin kynni þessar tillögur, sérstaklega í ljósi orða forsætisráðherra í ávarpi sínu á Þjóðhátíðardaginn þar sem hann ítrekaði mikilvægi uppbyggingar innviða á landsbyggðinni, þessar aðgerðir ganga þvert á þá sýn forsætisráðherranns."

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is