Búum okkur undir framtíðina

Öflugt íþróttastarf, ljósleiðaravæðing, málefni eldri borgara og sjúkrahús, listir, menning, söfn og minjavernd, ásamt umhverfismálum og samgöngum, eru þau mál sem leggja ætti mesta áherslu á til að bæta búsetuskilyrði í Vesturbyggð.

Þetta kom fram á tveggja daga íbúaþingi Vesturbyggðar, sem haldið var 16. – 17. apríl, á Patreksfirði.  Þar fóru fram líflegar umræður, margar hugmyndir viðraðar og kraftur og hugur í þátttakendum. 

Framtíðarsýnin fyrir Vesturbyggð er sú að íbúum fjölgi og til verði eitt 2.500 íbúa sveitarfélag á sunnanverðum Vestfjörðum.  Byggt verði á auðlindum svæðisins.  Horft er sérstaklega til laxeldis og ferðaþjónustu sem helstu vaxtarbrodda í atvinnulífi, ásamt framþróun í sjávarútvegi og rannsóknum.  Landbúnaður blómstri enn frekar á Barðaströnd.  Aukin fjölbreytni í atvinnulífi og kraftmikið menningarlíf er sérstaklega mikilvægt til að halda konum á svæðinu.  Fram kom draumur um stofnun þjóðgarðs á Látrabjargi og góðar heilsárs samgöngur um allt svæðið. 

Íþróttastarf hlaut mest vægi í forgangsröðun þátttakenda, með áherslu á fjölbreytni fyrir alla aldurshópa.    

Huga þarf að innviðum og þar var ljósleiðaravæðing efst á blaði og góðar samgöngur, m.a. fleiri göng, og bættar flugsamgöngur.  Skipuleggja þarf lóðir fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi. Bygging smáhýsa gæti verið lausn í húsnæðismálum.  Byggja þarf nýtt hjúkrunarheimili við Sjúkrahúsið á Patreksfirði.    

Í fræðslumálum er m.a. mikilvægt að sinna þörfum nýbúa, íslenskukennslu, nýta staðbundnar aðstæður í kennslu og auka samvinnu milli skólastiga.  Ýmsar hugmyndir voru viðraðar um leiksvæði og tómstundir barna. 

Ásýnd og umhverfismál voru mikið til umræðu.  Stöðugt þarf að sinna tiltekt, útivistarsvæðum, torgum og görðum og skapa góðar aðstæður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.  Áhugi er á aukinni sorpflokkun og m.a. vísað til sjálfbærrar þróunar og umhverfisvottunar Vestfjarða.  

Þátttakendur lýstu miklum áhuga á að bjarga húsinu Straumnesi á Patreksfirði og koma því í notkun og sáu fyrir sér að þar og á svæðinu í kring gæti orðið miðpunktur menningar og mannlífs. 

Auka mætti áhuga á listum og menningu með viðburðum og með því að miðla sögu svæðisins, bæði til ferða- og heimamanna.  Rædd var hugmyndin um að lýsa upp Stapana og setja ljóð Jóns úr Vör á veggi í þorpinu.

Einn hópur ræddi um ímynd Vesturbyggðar út frá styrkleikum svæðisins og gerði tillögur um verkefni sem styrkt gætu jákvæða ímynd. 

Vesturbyggð, líkt og flestar aðrar sjávarbyggðir á Íslandi, er að ganga í endurnýjun lífdaga.  Sjávarútvegurinn er ennþá mikilvægur, en hann er ekki lengur eina lífsbjörgin.  Tækifærunum fjölgar en á sama tíma er sterkt afl sem togar ungt fólk og menntað fólk í burtu.  Á íbúaþinginu voru ræddar leiðir til að skapa mótvægi og leiðir til að laða fólk og fyrirtæki að svæðinu.  Vesturbyggð býr sig undir framtíð sem kallar á nýja ásýnd og fjölbreytt atvinnulíf, menningu og mannlíf.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar tekur nú við niðurstöðum þingsins og verða íbúar upplýstir um hvernig unnið verður úr þeim. 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is