Forsvarsmenn fyrirtækja senda þingmönnum áskorun

Forsvarsmenn fyrirtækja í Vesturbyggð skora á alþingismenn í Norðvesturkjördæmi að tryggja að ferjunni Baldri verði nú þegar komið vestur á Breiðafjörð.

 

Rekstur sjávarútvegsfyrirtækja eins og Odda hf. Patreksfirði og Þórsbergs ehf. Tálknafirði byggist í auknum mæli á að koma dýrmætum ferskum afurðum daglega á erlendan markað og er lykill að tilveru þeirra. En til þess þurfa samgöngur að vera tryggðar eins og verið hefur með ferjunni Baldri yfir Breiðafjörð.

Margra ára dýrmætt markaðsstarf er í hættu og mun tapast til samkeppnisaðila ef afhending vöru bregst. Kaupendur og neytendur erlendis hafa engan skilning á lokuðum samgöngleiðum vestast á Vestfjörðum á Íslandi. Þeir leita annað og þá líklegast til helstu samkeppnisaðila okkar í Noregi.

 

Sú hugmynd að bjóðast til að auka þjónustu við vegina er óraunhæf nú um hávetur og sýnir skilningsleysi Vegagerðarinnar á þeim aðstæðum sem eru í vegamálum á svæðinu. Sumir vegir eru gamlir moldarvegir frá því um miðja síðustu öld og liggja um heiðar sem enginn leið er að halda opnum fyrir flutningabíla með góðu móti nema við albestu aðstæður.

 

Ofangreint kemur fram í bréfi Sigurðar Viggóssonar, framkvæmdastjóra Odda hf., og Guðjóns Indriðasonar, framkvæmdastjóra Þórsbergs ehf. til alþingismanna Norðvesturkjördæmis.

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is