Frístundaheimili Vesturbyggðar - Lengd viðvera á Bíldudal

Auglýsing um frístundaheimili/ lengda viðveru á Bíldudal

Nú er unnið er að því að koma á frístundaheimili/lengdri viðveru á Bíldudal sem allra fyrst og verður hún til húsa í Gamla skóla. Umsjónarmaður er Ólafía Björnsdóttir. Haft verður samband við foreldra þegar  ljóst er hvenær starfið hefst.

Foreldrar sem hyggjast nýta sér þjónustuna eru beðnir um að senda inn skráningarformið sem hér fylgir í viðhengi og senda það til félagsmálastjóra hið fyrsta. Greiðsluseðill verður næst sendur út vegna dvalardaga í janúar og febrúar en eftirleiðis fyrir hvern mánuð í senn.

Hér að neðan er að finna almennar upplýsingar og reglur varðandi frístundaheimili Vesturbyggðar.

Frístundaheimili bjóða upp á lengda viðveru sem er tómstundatilboð til barna í 1.-4. bekk Grunnskóla Vesturbyggðar frá því að skóladegi lýkur til kl. 16:00, þá virka daga sem skólastarf er í gangi. Starfsmenn frístundaheimilanna sjá til þess að nemendur sæki tónlistartíma og íþróttatíma. Að öðru leyti eru börnin við frjálsan leik, úti eða inni. Starfsmaður frístundarheimilisins á Bíldudal sækir börnin í íþróttaskólann að honum loknum.

Almennt gildir að nemendur eru sendir heim að aflokinni dvöl. Þurfa foreldrar að láta vita ef sækja á börnin og hver/hverjir gera það, sjá umsóknareyðublað. Börnin eru ekki send heim með öðrum nema foreldrar hafi látið vita af því fyrirfram. Ef veður er vont þarf að sækja börnin og láta starfsmann vita hver gerir það. Símanúmer frístundaheimilisins verður gefið upp áður en starfið hefst. Foreldrar tilkynna um veikindi eða leyfi til skóla eins og áður nema frítaka eða veikindi verði eftir að skóladegi lýkur, þá þarf að láta umsjónarmann frístundaheimilis vita.

Foreldrar sækja um dvöl í lengdri viðveru til félagsmálastjóra og tekur skráning eða afskráning gildi um næstu mánaðarmót. Skráning/afskráning þarf að berast fyrir 20. mánuðarins á undan. Greitt er fyrirfram fyrir hvern mánuð og er gjaldið innheimt með greiðsluseðli. Ekki er endurgreitt vegna fjarvista eða veikinda nema þau vari lengur en eina viku samfellt. Ekki er veittur afsláttur þó nemendur fari t.d. í íþróttatíma eða tónlistartíma.

Lækkun hefur orðið á gjaldskrá á milli ára. Gjald fyrir hverja dvalarstund er nú 280 kr. Gjald fyrir síðdegishressingu er 220 kr. Gjald fyrir hádegismat á föstudögum er 590 kr. Dvalargjald verður þó aldrei hærra en nítján þúsund krónur með mat á föstudögum og daglegri hressingu. Afslættir eru veittir af dvalargjaldi; 35% til einstæðra forledra og námsmanna sem eru skráðir í fullt nám og ljúka a.m.k. 75% af fullu námi og er reiknað frá því að vottorð um skólavist er lagt fram. Systkinaafsláttur er veittur, 50% vegna 2. barns og 100% vegna 3. barns.

 

Elsa Reimarsdóttir

Félagsmálastjóri

elsa@vesturbyggd.is

4502300

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is