Gerum betur

Ágætu íbúar Vesturbyggðar.

Nú hefur snjóað og skafið í skafla um allan bæ eins og öllum er kunnugt. Íbúar eru orðnir nokkuð óvanir veðurfari sem hefur verið hér undanfarið enda lítið snjóað síðustu ár. Þegar sá gállinn er á vetri konungi sem undanfarna daga fara snjóruðningstæki á stjá eldsnemma á morgnana til að ryðja götur og gera þær ráðstafanir sem þarf til að allir komist til vinnu og í skóla. Við viljum gera betur og með samstilltu átaki getum við látið snjóruðning og snjómokstur ganga miklu hraðar fyrir sig en gerist í dag.

Sveitarfélagið og verktakar þess sem og Vegagerðin sjá um snjómokstur í þéttbýli. Unnið er eftir sérstakri áætlun um hvaða leiðir skuli opna fyrst og svo koll af kolli. Reynt er að tryggja að aðalleiðir á þéttbýlisstöðunum séu opnar fyrir kl. 8 á morgnana, leyfi veður, vegna vinnu og skóla.

Mörgum finnst óþægilegt og ergilegt að koma út og sjá að búið að ryðja fyrir bílana. Þetta er að sjálfsögðu ekki gert af ásetningi en stundum er ekkert annað hægt. Þetta er ekki gert til að ergja samborgara enda höfum við engan áhuga á því því sveitarfélagið, starfsmenn þess og verktakar eru til að þjónusta íbúa. Nú langar okkur að fá ykkur í lið með okkur en umfram allt er það þolinmæði sem við þurfum öll að sýna.

Það sem umferð ökutækja og gangandi vegfarendur geta gert er eftirfarandi til að flýta fyrir snjómokstri er:

  1. Ökumenn sýni moksturstækjum tillitsemi og stoppi um 50 metra frá þeim og bíði eftir að vélamaður gefi merki um að bíll megi aka áfram. Vélamenn snjóruðningstækja vilja alls ekki láta umferðina bíða lengur enn þörf er á. Ef bílar fara of nálægt vélunum fara þeir úr speglasýn og sjást því ekki og þá geta slysin gerst.
  2. Vélamaður hefur margs að gæta utan umferðaráreitis, s.s. brunnar, kantsteinar, hraðahindranir, rafmagns-og símaskápar og bílar á kafi svo eitthvað sé nefnt. Sýnið því smá þolinmæði, þetta tekur tíma og allir eru að reyna að gera sitt besta.
  3. Gangandi vegfarendur þurfa nauðsynlega að bera áberandi endurskinsmerki nú í skammdeginu. Fullorðið fólk og börn verða að vera með endurskinsmerki, til þess að sjást í ófærð. Sérstaklega er slæmt þegar gangandi vegfarendur eru í dökkum klæðnaði. Foreldrar gætið að hvort börn ykkar séu með endurskinsmerki á leið sinni um bæinn, það er smart að vera með endurskinsmerki!
  4. Verði þið þess vör að mokstursvélar séu að hreinsa götur í kringum ykkur þá vinsamlegast færið bílana svo þið fáið hreint stæði í götunni. Það er ekki vænlegt til árangurs að láta snjóinn eða snjómokstur fara í taugarnar á sér, heldur sýna tillitsemi og þolinmæði, þá gengur að hreinsun gatna miklu hraðar fyrir sig.
  5. Einnig óskar sveiterfélagið þess að þeir einkaaðilar sem hafa verið að hreinsa til bílastæði og önnur svæði á eigin vegum gæti þess að skilja vel við.
  6. Ef íbúar hafa ábendingar um ómokaðar götur, athugasemdir eða kvartanir eru þeir vinsamlegast beðnir um að hafa samband við undirrituð í síma 450-2300 eða asthildur@vesturbyggd.is eða elfar@vesturbyggd.is .

 Góð samvinna tryggir fljót og vönduð vinnubrögð sem þýðir minni útgjöld fyrir bæjarfélag okkar og betri þjónustu við ykkur, kæru íbúar. Okkar markmið er að þjónusta ykkur vel.

Jólakveðjur,

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri og Elfar Steinn Karlsson, forstöðumaður Tækndeildar Vesturbyggðar.

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is