Glæsileg dagskrá um Sjómannadagshelgina á Patreksfirði

Nú líður senn að Sjómannadagshelginni á Patreksfirði. Fjölbreytt dagskrá verður alla helgina og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Saga Sjómannadagshátíðarhalda á Patreksfirði er löng og líkja má helginni við þjóðhátíð enda er stór hluti vinnandi manna og kvenna á Patreksfirði, sjómenn.

Hátíðarhöldin hefjast nk. fimmtudag kl. 18 með Skútuhlaupi frá Íþróttamiðstöðinni Bröttuhlíð. Um kvöldið verður sýnd heimildarmynd um Varðarslysið í Skjaldborg.

Á föstudaginn er fjölbreytt dagskrá frá morgni til kvölds. Tónleikarnir "Heima er best" verða í Félagsheimili Patreksfjarðar á föstudagskvöldið en þar kemur frá hæfileikafólk úr heimabyggð og er dagskráin "eins og bláberjaskyr með rjóma", eins og segir í auglýsingu! Aðgangseyrir er 2000 kr. Allur ágóði rennur til góðra verka í heimabyggð.

Á laugardaginn verður dagskrá frá 10 að morgni. Milli kl. 11 og 13 býður Átthagafélag Patreksfjarðar upp á súpu í húsnæði Fiskmarkaðs Patreksfjarða. KL. 14 hefst dagskrá á hafnarsvæði með fjölmörgum uppákomum og kl. 17 verður hin árlega hátíðarsigling um Patreksfjörð. KL. 20:30 mæta Geirseyringar við kirkju og Vatneyringar við Straumnesplan í viðeigandi bláum og rauðum búningum og gengið verður fylktu liði á Landleguhátíð á hafnarsvæði. Um kvöldið verður stórdansleikur í Félagsheimli Patreksfjarðar með BÓ og co, Rokkabillýbandinu, Eyþóri Inga og Stefaníu Svavars.

Á sunnudagsmorgun kl. 11 verður Sjómannadagsmessa og eftir messu verður gengið í skrúðgöngu að minnisvörðum á hafnarsvæði. Heimildamyndin um Varðarslysið verður endursýnd kl. 13:00 í Skjaldborg.

Klukkan 14 verður dagskrá á íþróttavellinum. Hátíðarræða sem bæjarstjóri Vesturbyggðar flytur. Lokaþrautir og úrslit í ýmsum kappleikjum og ýmislegt annað skemmtilegt. Klukkan 15 hefst síðan hið rómaða kaffihlaðborð Kvenfélagskvenna í Sif á Patreksfirði í Félagsheimili Patreksfjarðar. Það má enginn láta framhjá sér fara.

Nánari upplýsingar eru á Facebook síðu Sjómannadagsráðs á Patreksfirði.

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is