Háskólasetrið boðar bláa hagkerfið til súpufundar í Flæðarmálinu

Að tilgreina og yfirstiga hindranir í frekari þróun sjávarútvegs og fiskeldis á Vestfjörðum

Flæðarmálið er heiti nýrrar fundaraðar Háskólaseturs Vestfjarða þar sem fræðaheiminum og atvinnulífi á Vestfjörðum er gefið tækifæri til að mætast með óreglulegu millibili. Fundaröðin er einkum sett á fót með bláa hagkerfið í huga, en er opið almenningi. Háskólasetur hyggst bjóða í flæðarmálið þegar áhugavert efni, eða fyrirlesara, rekur á fjörur þess. Tímasetningar fundaraðarinnar eru því ekki fastsettir en Háskólasetrið mun virkja fólk innan og utan sinna vébanda til að miðla þekkingu og reynslu til vestfirsks atvinnulífs.

Á fyrsta flæðarmálsfundinum, miðvikudaginn 16. september, mun kennari við Háskólasetrið, Jamie Alley, kynna niðurstöður sínar varðandi hindranir í frekari þróun sjávarútvegs og fiskeldis í Bresku Kólumbíu í Kanada. Þátttakendur munu svo í sameiningu bera þetta saman við stöðuna á Vestfjörðum.

 

Jamie Alley, landfræðingur frá vesturströnd Kanada sem hefur kennt við Háskólasetrið í fjölda ára, hefur nýlega lokið rannsókn fyrir Institute for Coastal Research við Vancouver Island Háskóla í Nanaimo, þar sem hindranir í þróun greinarinnar við vesturströnd Kanada eru tilgreindar. Á fundinum mun Jamie Alley kynna niðurstöður rannsokna sinna í Kanada og í kjölfarið munu þátttakendur reyna að heimfæra niðurstöðurnar á Vestfirði. Í lokinni er gert ráð fyrir að búa til forgangslista varðandi framtíðar rannsóknir á þessu sviði.

 

Boðið verður upp á flæðarmálsfundina á sunnanverðum Vestfjörðum, á norðanverðum Vestfjörðum og á Ströndum í gegn um Skype-fundi í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða. Boðið er upp á súpu og brauð og kaffi og með því.

Æskilegt er að þátttakendur skrái sig í móttöku Háskólaseturs í síma 450 3000 eða í netfanginu reception@uw.is.

 

Staðir:

Ísafirði         Háskólasetri

Patreksfirði  Skor

Tálknafirði    Hópið (óstaðfest)

Hólmavík     Þróunarsetur

 

Dagur: Miðvikudagur, 16.09.2015

 

Dagskrá:

12:00                Súpan tilbúin (eða létt hádegissnarl)

12:10-13:00       Kynning á niðurstöðum úr Bresku Kólumbíu (á ensku, gögnin lögð fram á íslensku)

13:00                Kaffi og með því tilbúið

13:00-14:00       Hindranir í Kanada bornar saman við stöðuna á Vestfjörðum (á íslensku og ensku)

14:00-14:30       Atriði sem vega mest tilgreind og úrlausnarefni rædd, hugsanleg rannsóknarverkefni tilgreind (á ensku og íslensku)

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is