Háskóli Íslands auglýsir eftir sérfræðing í fuglafræðum til starfa.

Staða rannsóknarsérfræðings í fuglafræði við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, með aðsetur á Patreksfirði.

Leitað er að starfsmanni til að stunda stofnrannsóknir á bjargfuglum. Aðalstarf viðkomandi verða sjálfstæðar rannsóknir á bjargfuglum í Látrabjargi. Starfsmaðurinn mun koma á reglubundnum mælingum á varpárangri bjargfugla og/eða lífslíkum fullorðinna fugla, ásamt rannsóknum þeim tengdum. Notast verður við sniðtalningar og er stefnt að merkingum á einstaklingum. Þessi vinna fer að miklu leyti fram í samstarfi við starfsmenn Rannsóknasetursins, landeigendur og aðra staðkunnuga.

Umsækjendur skulu hafa lokið meistara- eða doktorsprófi. Reynsla af fuglarannsóknum í felti er skilyrði.  Auk þess er krafist lipurðar í mannlegum samskiptum, góðra skipulagshæfileika og aga til að vinna sjálfstætt. Reynsla af því að búa og starfa á landsbyggðinni er æskileg. Umsækjendur skulu hafa reynslu af sjálfstæðum vinnubrögðum við vísindastörf og geta tjáð sig á íslensku og ensku bæði í rituðu og töluðu máli.

Ráðið verður í starfið til tveggja ára með möguleika á ráðningu í eitt ár til viðbótar að þeim tíma liðnum. Æskilegt er að umsækjandi geti hafið störf sem fyrst.

Tekið verður tillit til hversu vel rannsóknir umækjanda falla að áherslusviðum Rannsóknasetursins.

Umsóknir skulu berast á rafrænu formi á netfangið starfsumsoknir@hi.is merkt HÍ13030070. Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni rækilega skýrslu um vísindastörf sem þeir hafa unnið, ritsmíðar og vottorð um námsferil og störf. Einnig er nauðsynlegt að í umsókn komi fram hvaða verkefnum umsækjendur hafa unnið að, hverju þeir vinna að núna og ítarleg lýsing á fyrirhuguðum rannsóknum þeirra ef af ráðningu yrði. Laun eru samkvæmt kjarasamningi Félags háskólakennara og fjármálaráðherra.

Umsóknarfrestur er til 7. apríl 2013.

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun liggur fyrir.  

Nánari upplýsingar veitir Jón Einar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknasetursins á Snæfellsnesi, joneinar@hi.is.

Við ráðningar í störf við Háskóla Íslands og stofnanir hans er tekið mið af jafnréttisáætlun Háskólans.

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is