„Hér erum við öll eins og ein stór bæjarstjórn!“

Áhugasömum íbúum Vesturbyggðar gafst nýverið kostur á að funda með fulltrúum sveitarstjórnar, bæjarstjóra og nokkrum stjórnendum sveitarfélagsins, um gerð fjárhagsáætlunar fyrir Vesturbyggð. Vel var mætt til funda, sem haldnir voru á Bíldudal, Birkimel og Patreksfirði, dagana 5. – 7. okt.

Á fundinum á Bíldudal, varð mikil umræða um lífsgæði og öryggi íbúa og væntanlega uppbyggingu. Aðstæður fyrir börn og ungmenni eru mikilvægur hluti af lífsgæðum og var m.a. kallað eftir úrbótum í íþróttaaðstöðu og –starfi, skólabókasafni, endurbótum á lóðum við leik- og grunnskóla og auknu tómstundaframboði eftir skólatíma. Varðandi öryggi, var tvennt sem fundargestum var hugleiknast, að færa þungaflutninga af Dalbraut og breyta aðkomunni að bænum og hvernig bæta megi heilbrigðisþjónustu á staðnum.

Rætt var um uppbyggingu, þörf á endurbótum á höfn, fjölgun íbúðarhúsnæðis og síðast en ekki síst hver væri framtíðarsýnin árið 2020. Ljóst er að ef uppbyggingaráform ganga eftir, mun verða mikil íbúafjölgun á Bíldudal á næstu 5 – 10 árum.

Á Birkimel var rætt um möguleika til að styrkja byggðina, þegar víða stefnir í kynslóðaskipti í landbúnaðinum. Íbúar sjá fjölmörg tækifæri, m.a. í ferðaþjónustu, en það er helst að vanti fleira fólk til að nýta þau. Kallað var eftir endurbótum á Félagsheimilinu Birkimel og varpað fram hugmyndum um nýtingu skólahúsnæðis þegar skólastarf mun fyrirsjáanlega liggja niðri um tíma. Þá voru uppi ýmsar hugmyndir um uppbyggingu ferðaþjónustu og þar bar Birkimel oft á góma. Rætt var um sorpmál, hitaveitu og leiðir til eflingar landbúnaðar, s.s. sveitamarkað eða „Beint frá býli“. Fram kom að bæta þurfi hafnaraðstöðu á Brjánslæk.

Á Patreksfjarðarfundinum komu fram tvær undirbúnar hugmyndir/tillögur, en íbúum stóð til boða að kynna hugmyndir sínar á fundunum. Annars vegar afhentu íbúar á Björgunum undirskriftalista þar sem óskað var eftir hraðahindrunum í götunni. Hins vegar sagði Páll Hauksson frá hugmynd sinni um tennisvöll á reitnum fyrir utan fótboltavöllinn. Fleiri hugmyndum var síðan varpað fram um þennan reit.  

Mikil umræða varð um umferð, umferðaröryggi og göngustíga. Fram kom áhugi á að bæta umgengni og ásýnd í bænum og á útivistarsvæðum og huga að leikvöllum. Rætt var um metnað í skólamálum og ýmis samfélagsmál. Margir lýstu ánægju sinni með malbikun gatna og töldu sig merkja vaxandi jákvæðni í samfélaginu.

Á öllum fundunum fór fram málefnalegt samtal milli íbúa og stjórnenda Vesturbyggðar. Fram komu hugmyndir að lausnum í ýmsum málum og haft var á orði að slíkt samtal, á jafningjagrunni væri jákvætt og æskilegt að halda fleiri slíka fundi. Eða svo notuð séu orð eins fundarmanna: „Hér erum við öll eins og ein stór bæjarstjórn“.  

 Vesturbyggð mun nú vinna úr skilaboðum íbúafundanna og þegar fjárhagsáætlun liggur fyrir verður sent út dreifibréf þar sem sagt verður frá hvernig skilaboð íbúa nýttust. Stjórnendur sveitarfélagsins ætla að halda áfram á þessari braut og verður íbúum boðið til enn frekara samráðs á næstu misserum.  

Umsjón með íbúafundunum hafði Sigurborg Kr. Hannesdóttir, hjá ráðgjafarfyrirtækinu ILDI í Grundarfirði, en hún hefur sérhæft sig í aðferðum við þátttöku almennings.

Bæjarstjóri, Ásthildur Sturludóttir lauk öllum fundunum með því að hvetja íbúa til að hafa samband við sig eða aðra stjórnendur, ef eitthvað er og sagði að að virðing fyrir samborgurum skipti miklu máli til að styrkja samfélögin innanfrá.

Skrifaðu athugasemd:



Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is