Klippikort Vesturbyggðar – breytt fyrirkomulag á móttöku sorps á gámastöðvum.

1 af 2

Sú breyting verður frá og með febrúarmánuði 2017 að öllum eigendum fasteigna í Vesturbyggð sem greiða sorpeyðingargjald til sveitarfélagsins verður afhent eitt klippikort fyrir gjaldskyldan heimilisúrgang (sjá flokkun hér fyrir neðan) sem losa má á gámastöðvunum á Patreksfirði og á Bíldudal. Kortið verður afhent á bæjarskrifstofunni á Aðalstræti 63, Patreksfirði og á skólaskrifstofunni á Bíldudal. Þeir sem ekki eiga þess kost að sækja sitt kort á framantalda staði geta fengið kortið sent í pósti til sín. Tilkynna má um þá ósk í síma 450 2300 eða senda tölvupóst á vesturbyggd@vesturbyggd.is.

Klippikortið gatað.

Þegar komið er með heimilissorp á gámastöðvarnar á Patreksfirði eða á Bíldudal verður kortið gatað af starfsmönnum Gámaþjónustu Vestfjarða ehf. til samræmis við magnið sem komið er með. Á kortinu eru átta reitir hver fyrir 0,25 m3 samtals 4 m3. Auka klippikort kostar 8.500 kr. sem kaupa má á bæjarskrifstofunni.

Klippikort ekki meðferðis.

Ef klippikortið er ekki meðferðis við komu á gámastöð verður móttekið sorp skráð á móttökuseðil auk kennitölu og kostar hver rúmmeter 6.220 kr. án virðisaukaskatts. Innheimtuseðill verður sendur út fyrir gjaldskyldu sorpi sem skilað er án klippikorts.

Ógjaldskyldur og gjaldskyldur úrgangur.

Mikilvægt er að flokka úrgang sem til fellur og skila á gámastöðvarnar. Klippt verður fyrir gjaldskyldan úrgang á meðan tekið verður á móti ógjaldskyldum úrgangi án greiðslu.

Það er mjög mikilvægt að flokka úrgang rétt og koma þannig í veg fyrir sóun verðmæta.

Megnið af sorpi sem skilað er inn á gámastöðvarnar er endurnýtt og breytist í verðmæti sem ekki þarf að greiða fyrir. Ýmiss úrgangur þarfnast þó kostnaðarsamrar meðhöndlunar og þarf að borga fyrir það sorp.

Á gámastöðvunum á Patreksfirði og á Bíldudal er sorpi flokkað í þrjá flokka:

Ógjaldskyldur úrgangur. Settur í flokkunarkrá (karabar).

Fernur (drykkjarfernur), dagblöð, bylgjupappír, plastumbúðir, kertaafgangar, smærri málmar og rafhlöður.

Ógjaldskyldur úrgangur. Skilað í sorpgáma á gámastöðvar.

Raftæki og rafeindatæki, nýtanleg föt og klæði (í safngám), kælitæki, hjólbarðar, spilliefni, rafgeymar og nytjahlutir.

Gjaldskyldur úrgangur. Skilað í sorpgáma á gámastöðvar.

Gler (og postulín og flísar), ónýtanleg föt og klæði, stærri málmar (þ.m.t. bárujárn), jarðvegur (grjót og möl), timbur, plast (annað s.s. garðhúsgögn, leikföng, rör, blómapottar), óflokkað til urðunar, grófur úrgangur (húsgögn, dýnur, innréttingar), gras og hey, garðaúrgangur (og trjágreinar), múrbrot, gifs og gifsplötur og annar úrgangur frá framkvæmdum.

Vesturbyggð, 30. janúar 2017

Bæjarstjórinn.

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is