Mótmæli vegna Breiðafjarðaferjunnar Baldurs

Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð
Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð
Bæjarstjórn Vesturbyggðar og hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps mótmæla harðlega þeirri einhliða ákvörðun Vegagerðarinnar að flytja Baldur í Landeyjahöfn til að þjónusta íbúa Vestmannaeyja.

Er þetta gert án þess að fyrir liggi aðgerðaáætlun um hvernig skuli staðið að því að þjónusta íbúa og fyrirtæki á sunnanverðum Vestfjörðum á meðan Baldur er fjarverandi.

Sveitarstjórnirnar hafa fullan skilning á vanda Eyjamanna sem enn og aftur sýnir mikilvægi þess að ný ferja til Vestmannaeyja verði keypt svo fljótt sem verða má, enda var Landeyjahöfn ekki hönnuð með núverandi Herjólf í huga.

Sveitarstjórnirnar hafa áhyggjur af mögulega langri fjarveru Baldurs frá Breiðafjarðarsiglinum sem koma sér mjög illa á þessum árstíma enda ástand vega á sunnanverðum Vestfjörðum ekki með þeim hætti að hægt sé að treysta á að samgöngur séu greiðar. Þá er allra veðra von og vegir geta orðið ófærir í einu vetfangi. Vegagerðin boðar allt að 10 daga fjarveru en reynslan sýnir að það verður alltaf lengri tími.

Baldur er aðalflutningaleið fyrirtækja á sunnanverðum Vestfjörðum. Atvinnulífið treystir á greiðar samgöngur enda mikil verðmæti sem þarf að koma til skila frá atvinnulífinu á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal á markaði innanlands sem utan.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar og hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps gera þá kröfu til Vegagerðarinnar að sólahringsþjónusta og aðstoð verði við flutningabíla upp erfiða hjalla og hálsa á Vestfjarðavegi 60, alla daga uns Baldur snýr til baka.


Fh. bæjarstjórnar Vesturbyggðar, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri
Fh. hreppsnefndar Tálknafjarðarhrepps, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, oddviti
 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is