Óbreytt rjúpnaveiði 2012

Rjúpnaveiðar verða heimilaðar yfir níu daga sem dreifast á fjórar helgar í haust.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið fyrirkomulag rjúpnaveiða haustið 2012, að fengnu mati og tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar. Veiðar verða heimilar í níu daga líkt og haustið 2011 og dreifist veiðitímabilið á fjórar helgar með eftirfarandi hætti:

 

  • Föstudagurinn 26. október til sunnudagsins 28. október.
  • Laugardagurinn 3. nóvember og sunnudagurinn 4. nóvember.
  • Laugardagurinn 17. nóvember og sunnudagurinn 18. nóvember.
  • Laugardagurinn 24. nóvember og sunnudagurinn 25. nóvember.

 

Í mati Náttúrufræðistofnunar kemur fram að rjúpnastofninn sé nú á niðurleið um allt land. Viðkoman 2012 var góð, sem bætir bága stöðu stofnsins, og hann mælist því stærri en haustið 2011 þrátt fyrir minni varpstofn. Verði mikil afföll í rjúpnastofninum viðvarandi á næstu árum sé hins vegar ekki við því að búast að hin náttúrulega uppsveifla í lok þessa áratugar verði veruleg. Áætlaður veiðistofn nú er um 390.000 fuglar, en talið að veiðiþol sé 34.000 fuglar.

 

Umhverfisstofnun leggur áherslu á að farið verði að ráðgjöf Náttúrufræðistofnunar um ráðlagða veiði upp á 34.000 fugla, sem geri um sex rjúpur á veiðimann, miðað við þann fjölda veiðimanna sem að jafnaði fari til rjúpnaveiða. Umhverfisstofnun leggur jafnframt áherslu á fræðslu til veiðimanna um hófsamar rjúpnaveiðar. Rétt sé að viðhalda sölubanni á rjúpu, sem nú er í gildi, og framfylgja því m.a. með því að skoða hvort verslanir selji rjúpur.

 

Bent er á að auk þess sem áfram verður sölubann í gildi á rjúpu og rjúpnaafurðum, þá verður ákveðið svæði á Suðvesturlandi áfram friðað fyrir veiði.

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is