STAÐIR / PLACES 2016

STAÐIR, á ensku PLACES, er vinnudvöl og myndlistarsýning sem fer fram á Vestfjörðum annað hvert ár. Verkefnið hófst árið 2013 með það fyrir sjónum að skapa vettvang fyrir vestan fyrir listamenn að vinna ýmist varanleg eða tímabundin verk í kringum sögulega og einstaka staði. Listamennirnir Ragna Róbertsdóttir, Hekla Dögg Jónsdóttir og Eva Ísleifs taka þátt í verkefninu í ár og setja upp verk í Skjaldborg á Patreksfirði, höfnina á Bíldudal og inn í rúst í Bakkadal, Ketildölum.

Dagskrá á opnunardaginn

Dagurinn hefst laugardaginn 9. júlí kl. 16:00 í Skjaldborg, kvikmyndahúsinu á Patreksfirði þar sem myndverk Heklu Daggar Jónsdóttur Dailies / Dagsverk verður sýnt. Í verkinu vinnur Hekla markvisst með kvikmyndaformið og notar umhverfið í kringum Skjaldborg sem leiksvið.

Klukkan 17:30 verður keyrt á Bíldudal þar sem verk Evu Ísleifs HOOKED / KRÆKTUR verður afhjúpað við höfnina á Bíldudal og formlega gefið bæjarsamfélaginu. Íbúar Bíldudals hafa löngum verið þekktir fyrir sagnahefð. Listaverkið syngur óð til þeirrar hefðar.

Frá Bíldudal liggur leiðin út í Bakkadal þar sem Ragna Róbertsdóttir hefur unnið innsetningu í rúst við hús sitt í samvinnu við Ásmund Hrafn Sturluson arkitekt. Rústin eða Bakka Bíó eins og gamla byggingin er kölluð í dag, hefur staðið óhreyfð í áratugi þar til nú.

Ef veður leyfir mun opnunin halda kyrru fyrir í Bakkadal þar sem slegið verður upp fjörugrilli fyrir gesti. Boðið verður upp á nýveiddan lax en fólki er líka velkomið að taka eitthvað með sér.

Staðir vilja þakka eftirtöldum kærlega fyrir alla hjálp og velvilja – Jóni Þórðarsyni, Hirti Sigurðssyni, Guðbjarti Þór Sævarsyni Eldsmið, Listaháskólinn í Reykjavík, Vesturbyggð, Oddi hf, Kristni Hilmari Marínósyni, Vestfjörðum og Skjaldborg.Verið hjartanlega velkomin á opnun þriggja sýninga í Vesturbyggð laugardaginn 9. júlí frá klukkan 16:00 - 21:00.

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is