Skemmtiferðaskip á Patreksfirði

Skemmtiferðaskipið Sea Explorer mun koma til Patreksfjarðar nk. sunnudag (á morgun), þ. 21. júní 2015. Með skipinu eru 77 farþegar auk áhafnar. Þetta er fyrsta skemmtiferðaskipið, sem kemur til Patreksfjarðar í meira en tvo áratugi. Skipið mun leggjast að bryggju í Patreksfjarðarhöfn.

Sea Explorer er 5-stjörnu lúxus-farþegaskip, nýlega endurbyggt og innréttað með svítum og þægindum, og tekur 120 farþega. Ferðaskrifstofan Westfjords Adventures á Patreksfirði hefur veg og vanda að komu skipsins. Farþegarnir munu m.a. fara í náttúruskoðunarferðir með leiðsögn að Látrabjargi og á Rauðasand, og hafa viðkomu á Minjasafninu að Hnjóti.

Magnað ævintýri í uppsiglingu

„Þetta verður mikið ævintýri fyrir farþegana og við hlökkum til. Við byggjum á þeirri reynslu, sem við höfum í náttúruskoðunarferðum um Látrabjarg og Rauðasand, en  þetta eru tvær mestu náttúruperlurnar á Vestfjörðum“ segir Gunnþórunn Bender, framkvæmdastjóri Westfjords Adventures. „Látrabjargið er magnað á þessum árstíma, seiðandi og iðandi af fluglalífi í þessu stærsta fuglabjargi Evrópu og þar er margt að sjá á stuttum tíma. Á Rauðasandi verður síðan skyggnst inn í undraheima og villta náttúru Rauðasands undir okkar leiðsögn, m.a. farið í sérstaka selaskoðun“ segir Gunnþórunn.

Gunnþórunn segir að koma skipsins marki mikil tímamót í starfsemi Westfjords Adventures, sem hóf starfsemi árið 2013 og býður upp á fölbreytta ferðaþjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum. „Við höfum verið að leita eftir komu lítilla skipa til okkar, allt að 250 farþega, og þetta skip passar algjörlega við það. Auk þess eru allar skoðunarferðir innifaldar fyrir farþega og það einfaldar allan undirbúning og skipulagningu. Þetta er akkúrat það sem við viljum“.

 Tekur á móti hverjum farþega með handartaki.

„Það hefur verið mikill uppgangur í ferðaþjónustunni hér á sunnanverðum Vestfjörðum. Koma þessa  skips er mjög mikilvægt skref í þeirri uppbyggingu. Það skiptir líka máli að þessi stærð skipa hentar okkur vel, skipið getur lagst að bryggju og tiltölulega auðvelt að þjónusta farþegana þannig að þeir fari héðan ánægðir“ segir Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar. Við komu skipsins ætlar hún ásamt formanni hafnarstjórnar að taka á móti skipstjóranum, færa honum gjöf og bjóða síðan hvern farþega velkominn með handartaki. „Það þýðir ekkert annað en bjóða fólk almennilega velkomið af hinni alkunnu íslensku gestrisni“ segir Ásthildur.

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is