Slökkvilið kallað út vegna hugsanlegs elds

Slökkviliðið á Patreksfirði fékk tilkynningu um mögulegan eld í íbúðarhúsi í bænum laust eftir  miðnætti. Vegfarandi varð var við reyk og hljóð frá reykskynjara.
 

Þegar slökkviliðið komst inn í húsið kom í ljós að ekki var um eld að ræða. Vatnsleiðsla í ofni hafði sprungið og heitt vatn sprautast úr henni. Gufan frá vatninu setti reykskynjarann í gang. Slökkvilið kom snemma á vettvang og dælustarf gekk hratt og vel fyrir sig. Slökkvilið frá Tálknafirði kom einnig á staðinn og slökkvilið frá Bíldudal var snúið við.

Íbúar hússins voru ekki heima, og geta þeir þakkað ungri stúlku sem var á gangi framhjá húsi þeirra fyrir það að ekki urðu meiri skemmdir á heimili þeirra en raun bar vitni. Davíð Rúnar Gunnarsson, slökkviliðsstjóri á Patreksfirði, segir reykskynjarann hafa bjargað því að vatnsskemmdir á gólfi og veggjum urðu eins litlar og þær voru. Ef hans hefði ekki notið við hefði lekinn ekki uppgötvast fyrr en eftir að íbúar hússins kæmu heim af ferðalagi sínu.

 

 

Skrifaðu athugasemd:



Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is