Treyjan dýra og upphaf Kútmagakvölda Lionsklúbbs Patreksfjarðar.

Á Kútmagakvöldi Lionsklúbbs Patreksfjarðar 15. október 2016 gerðist það  undir styrkri stjórn Jóns Árnasonar skipstjóra og fyrrum alþingsimanns í viðlögum að boðin var upp treyja Arons Einars Gunnarssonar fyrirliða íslenska landsliðsins í knattspyrnu og metin til fjár. Leitað hafði verið til Arons að fá treyjuna í þeim tilgangi og varð hann góððfúslega við því en vísaði málinu til starfsfólks KSÍ til úrlausnar. Þau skilaboð bárust að treyjan yrði send vestur með mikilli gleði og árituð af leikmönnum landsliðsins. Það skilyrði fylgdi afhendingunni að andvirði treyjunnar skyldi renna til uppbyggingar á knattspyrnustarfi á sunnanverðum Vestfjörðum. Það er skemmst frá að segja að treyjan var boðin upp á hátíðinni með tilgreindum skilmálum. Hátíðargestir allt karlar sýndu uppboðinu mikinn áhuga og mikil stemming myndaðist. Skjöldur Pálmason forstjóri Odda h.f. á Patreksfirði stóð fyrir uppboðinu af alkunnri röggsemi. Fljótlega hlupu boðin á hundruðum þúsundum og tilboðsgjafarnir hvattir ákaflega. Öflugir aðilar tókust á um treyjuna og hver um sig ætlaði sér hana. Svo fór að treyjan var slegin hæstbjóðanda á kr. 1.200.000 við mikil fagnaðarlæti.

Þann 7. febrúar  fóru  Eiður B Thoroddsen formaður Lionsklúbbs Patreksfjarðar, Úlfar B Thoroddsen ritari og Gunnar Sean Eggertsson gjaldkeri í íþróttahúsið á Patreksfirði á fund Páls Vilhjálmssonar íþróttafulltrúa á sunnanverðum Vestfjörðum og færðu honum  andvirði treyjunnar dýru eða kr. 1.200.000 til eflingar knattspyrnustarfs á svæðinu. Tók Páll við gjöfinni umkringdur ungum knattspyrnuiðkendum. Páll er jafnframt framkvæmdastjóri Héraðssambandsins Hrafnaflóka og skólastjóri íþróttaskóla sambandsins sem starfræktur er í öllum þéttbýlum á sunnanverðum Vestfjörðum.

Kútmagakvöld hafa verið haldin hvert ár á vegum Lionsklúbbs Patreksfjarðar frá 17. mars 1979 fram til þessa. Lýsingu á fyrsta Kútmagakvöldinu er að finna í annáli klúbbsins frá þeim tíma. Svavar Jóhannsson útibússtjóri Samvinnubankans ritaði:

Laugardagurinn 17. mars 1979. Haldið var svokallað kútmagakvöld á vegum Lionsklúbbsins í félagsheimilinu. Þáttaka var sæmileg um 60 mans að ég best veit, lionsfélagar og gestir þeirra. Allt karlar. Þrír eða fjórir félagar úr Lionsklúbbi Tálknafjarðar munu hafa tekið þátt í samkomunni. Veitingar voru hinar bestu. Kútmagar og lifur, skelfiskur, humar og rækja, sem etið var með dýrum veigum. Þótti þetta allt hafa tekist með ágætum. Allir munu hafa í lokin komist heilir í höfn sinna kvenna. Sagt er að menn séu þegar farnir að hlakka til næsta kútmagakvölds. Ágóði af samkomunni mun hafa verið um kr. 400.000- og gekk sú fjárhæð til byggingar safnhúss að Hnjóti í Örlygshöfn.

Í langan tíma frá upphafi klúbbstarfsins  19. febrúar 1962 var það fastur og ófrávíkjanlegur líður að rita annál um flest sem markvert taldist í þorpinu (Patreksfirði) og nánasta umhverfi. Síðasti annállin náði yfir tímabilið 23. okt.  – 6. nóv. 1990. Því miður féll þessi þáttur niður og hefur ekki verið endurvakinn. Þeir annálar sem hafa verið varðveittir veita ómetanlegar upplýsingar um samfélagið og það sem efst var á baugi hverju sinni og eru þegar dýrmæt heimild um liðinn tíma.

Úlfar B Thoroddsen ritari Lionsklúbbs Patreksfjarðar

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is