Selárdalskirkja

Selárdalskirkja: mynd Helgi Hjálmtýsson
Selárdalskirkja: mynd Helgi Hjálmtýsson
Kirkja og prestssetur hefur lengst af verið í Selárdal og þótti Staðurinn um langan aldur meðal merkustu brauða landsins.

Kirkjustaðurinn er á hóli í dalnum. Þar var kirkja helguð heilagri Maríu og Pétri postula í kaþólskum sið. Útkirkja var í Stóra-Laugardal í Tálknafirði og fóru Selárdalsprestar jafnan reiðveginn um Selárdalsheiði til hennar. Jörðin í Selárdal varð eign kirkjunnar í Staðamálum á 13. öld en þá er hennar fyrst getið.

 

Árið 1907 var Selárdalsprestakall lagt niður og Selárdalssókn lögð til Bíldudalsprestakalls. Stóri-Laugardalur var þá gerður að annexíu frá Patreksfirði.

 

Núverandi kirkja í Selárdal er timburkirkja reist árið 1861. Á 100 ára afmæli hennar var hún að heita má smíðuð upp að nýju. Hún á marga merka muni en meðal þeirra er forn predikunarstóll með máluðum myndum af Móse og spámönnum, altaristafla frá 1752 sem er dönsk og sýnir kvöldmáltíðina, vandaður kaleikur frá 1765 og patína.

 

Búið er að afhelga kirkjuna og stóð jafnvel til að hún yrði rifin en átthagafélagið Skjöldur hefur nú um skeið staðið að endurbótum og viðhaldi kirkjunnar og er ljóst að hún mun standa áfram.


Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is