Dynjandi

Dynjandi, © Mats Wibe Lund
Dynjandi, © Mats Wibe Lund
Dynjandisvogur fyrir botni Arnarfjarðar er einstök náttúruperla. Þar er einn fegursti foss landsins og mesti foss Vestfjarða - Dynjandi. Fossinn og umhverfi hans er friðlýstur sem náttúruvætti. Áin Dynjandi rennur ofan af Dynjandisheiði sem liggur í jaðri hálendissvæðis Glámu. Sjáðu kort af verndarsvæðinu.

 

Dynjandi er ótrúlegur á allan hátt og er ein af fegurstu djásnum Íslands. Áin fellur fram af fjallsbrúninni niður nær 100 metra hátt bungumyndað berg með smástöllum. Fossinn breiðir úr sér yfir klappirnar sem eru í reglulegum stöllum og fellur þrep af þrepi.

 

Bergið er myndað af hörðum hraunlögum og millilögum úr sendnum leir sem eru mun mýkri. Mjúku millilögin hafa gefið eftir undan ágangi jökuls og síðar vatns og fossastigi hefur myndast.

 

Fossarnir í Dynjanda eru sex. Efst er tilkomumesti fossinn, Fjallfoss, 30 metra breiður efst og um 60 metra breiður neðst. Hann er um 100 metra hár. Neðar í ánni eru Hundafoss, Strokkur, Göngumannafoss, Hrísvaðsfoss og Sjóarfoss. Minnir fossaröðin helst á brúðarslör. Hægt er að ganga á bak við Göngumannafoss. Hvergi á landinu ber fyrir augu fegurra fossasvæði í einni sjónhending.

Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is