Fundur haldinn í Baldurshaga, 14. janúar 2026 og hófst hann kl. 15:30
Nefndarmenn
- Jón Þórðarson (JÞ) aðalmaður
- Rúnar Örn Gíslason (RÖG) formaður
- Þórkatla Soffía Ólafsdóttir (ÞSÓ) aðalmaður
Starfsmenn
- Lilja Magnúsdóttir (LM) ritari heimastjórna
Fundargerð ritaði
- Lilja Magnúsdóttir ritari
Almenn erindi
1. Fjárhagsáætlun 2026 - 2029.
Samþykkt fjárhagsáætlun 2026 - 2029 lögð fram til kynningar
Gerður Sveinsdóttir, bæjarstjóri, sat fundinn undir þessum lið og fór yfir afgreidda fjárhagsáætlun Vesturbyggðar 2026-2029 og þau verkefni sem farið verður í á árinu á Bíldudal.
2. Öryggi varaafls og fjarskipta í Arnarfirði
Öryggi varaafls og fjarskipta í Arnarfirði í kjölfar þeirra atburða sem urðu í Tálknafirði vegna rafmagnsleysis í desember.
Dagana 11.desember og 31.desember varð rafmagnslaust Í Tálknafirði vegna bilunar í spenni á Keldeyri í Tálknafirði. Í kjölfar rafmagnsleysisins í Tálknafirði urðu miklar truflanir á fjarskiptum og varð algjört rof á sambandi um tíma. Einnig varð rafmagnslaust á Bíldudal þann 11.desember og gekk illa að koma varaafli í gang fyrir allt þorpið.
Heimastjórn Arnarfjarðar lýsir áhyggjum sínum af hinum viðamiklu truflunum sem urðu á varaafli og á fjarskiptum í þessu rafmagnsleysi og beinir þeim tilmælum til orkufyrirtækja og allra fjarskiptafyrirtækja að farið verði vandlega yfir allt varaafl sem á að taka við þegar rafmagnslaust verður á Bíldudal til að minnka líkur á að ástand líkt og það sem varð í Tálknafirði geti komið upp á Bíldudal. Nauðsynlegt er að fjarskipti séu örugg í slíku ástandi til að tryggja öryggi íbúa og takmarka tjón fyrirtækja.
Heimastjórn Arnarfjarðar bendir sérstaklega á nauðsyn þess að tryggja öryggi á Bíldudalsflugvelli í svona ástandi, bæði hvað varðar fjarskipti og raforku þar sem Bíldudalsflugvöllur gegnir lykilhlutverki í samgöngum til og frá svæðinu, sérstaklega hvað varðar sjúkraflug.
Samþykkt samhljóða.
3. Ketildalavegur 619
Erindi til Vegagerðarinnar varðandi Ketildalaveg 619 og viðhald á honum.
Heimastjórn Arnarfjarðar lýsir alvarlegum áhyggjum af ástandi Ketildalavegar 619 sem liggur frá Bíldudal og út í Selárdal. Ástand vegarins hefur lengi verið mjög slæmt og hann fengið lítið viðhald. Heimastjórn bendir á að um þennan veg þurfa íbúar í Ketildölum til að sækja alla þjónustu árið um kring. Grjóthrun er á veginn allt árið og á veturna er víða snjóflóðahætta.
Viðbragðsaðilar verða að geta komist á staðinn ef þörf krefur og útköll hafa orðið á þessu svæði sem hafa tekið viðbragðsaðila langan tíma að komast á staðinn vegna ástands vegarins.
Auk íbúa í Ketildölum er þar fjöldi sumarhúsaeigenda sem dvelja þar mikið og á sumrin er mjög mikil umferð ferðamanna um þennan veg sem heimsækja Ketildali og þá sérstaklega Selárdal þar sem unnið er að uppbyggingu ferðaþjónustu.
Heimastjórn Arnarfjarðar hvetur Vegagerðina til að sinna viðhaldi Ketildalavegar sem allra best og að lágmarki að reyna að hefla hann sem fyrst á vorin þar sem ferðamannatími er alltaf að hefjast fyrr að sumri til og stendur lengur fram á haustið.
Samþykkt samhljóða.
4. Samgönguáætlun 2026-2040
Samgönguáætlun 2026 - 2040 tillaga til þingsályktunar
Heimastjórn Arnarfjarðar bendir á mikilvægi Bíldudalsflugvallar fyrir samgöngur til og frá Vesturbyggð og þá sérstaklega fyrir sjúkraflug. Mjög brýnt er að koma upp bættum hindrunarljósum og aðflugsljósum að flugvellinum til að unnt sé að tryggja öryggi flugs í myrkri þar sem lítið er um ljós í nágrenni flugvallarins og því nauðsynlegt að bætt sé úr ljósabúnaði við flugvöllinn sem allra fyrst. Sjúkraflug á sér stað á öllum tímum sólarhrings og gríðarlega mikilvægt að hægt sé að lenda á Bíldudalsflugvelli hvenær sem er en flugmenn hafa kvartað undan ljósleysi í aðflugi að flugvellinum þegar komið er til lendingar í myrkri.
Heimastjórn Arnarfjarðar tekur undir bókun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 19. fundi þann 11.12.2025 varðandi framkvæmdir við Bíldudalsveg og ítrekar sérstaklega nauðsyn þess að þeirri framkvæmd verði flýtt eins og kostur er. Vegurinn inn Arnarfjörð er oft í afar slæmu ástandi og ekki haldið opnum að vetri til sem lengir ferðatíma verulega fyrir íbúa og fyrirtæki á Bíldudal þar sem aka þarf yfir Hálfdán, Mikladal og Kleifaheiði til að komast áleiðis út af svæðinu. Það er því afar mikilvægt að koma á heilsárssamgöngum inn Arnarfjörð sem fyrst til að stytta ferðatíma og lækka flutningskostnað fyrirtækja og íbúa.
Einnig tekur heimastjórn Arnarfjarðar undir bókun bæjarstjórnar þar sem fagnað er því að Suðurfjarðagöng, göng um Mikladal og Hálfdán séu meðal forgangsverkefna í drögum að samgönguáætlun. Heimastjórn fagnar því sérstaklega að áætlað sé að hefja undirbúning að rannsóknum og hönnun þessa verkefnis strax á næsta ári og mikilvægt að sú áætlun standist. Jarðgöng á sunnanverðum Vestfjörðum munu skipta sköpum í samgöngum innan sveitarfélagsins og stuðla að jákvæðri þróun í uppbyggingu atvinnulífs og fjölgun íbúa í sveitarfélaginu.
Heimastjórn Arnarfjarðar fagnar því að bygging nýrrar trébryggju í Bíldudalshöfn sé staðfest í drögum að samgönguáætlun og að vinna við hana hefjist sem fyrst. Stöðugt eykst þörf fyrir bryggjupláss í Bíldudalshöfn og mun trébryggjan mæta þeirri þörf að einhverju leyti.
Samþykkt samhljóða.
5. Járnhóll 13, Bíldudalur - ósk um breytingu á skipulagi
Tekin fyrir umsókn Láss ehf, dagsett 25. nóvember 2025. Í umsókninni er sótt um stækkun lóðar Járnhóls 13 (L231108) og færslu á byggingareit.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkti áformin á 16. fundi sínum þann 18. desember og telur að um óveruleg frávik sé að ræða og hagsmunir nágranna skerðist í engu og að breytingin sé undanþegin grenndarkynningu, sbr. 3. mgr. 44. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010 enda varðar breytingin ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins sem landeiganda og lóðarumsækjanda. Skipulags- og framkvæmdaráð lagði til við heimastjórn Arnarfjarðar að málið verði samþykkt.
Heimastjórn Arnarfjarðar samþykkir erindið.
Samþykkt samhljóða
Til kynningar
6. Ofanflóðavarnir á Bíldudal
Staðfesting á tillögu FSRE um töku tilboðs Borgarverks í ofanflóðavarnir á Bíldudal.
Lagt fram til kynningar.
7. Bíldudalsskóli og Tjarnarbrekka Hönnun og undirbúningur
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 16:45
Formaður setti fund og kannaði hvort athugasemdir væru við fundarboðið.
Svo var ekki og formaður lýsti fundinn lögmætan.