Fundur haldinn í ráðhúsi Vesturbyggðar, 7. janúar 2026 og hófst hann kl. 13:00
Nefndarmenn
- Gunnar Sean Eggertsson (GSE) varaformaður
- Jenný Lára Magnadóttir (JLM) aðalmaður
- Rebekka Hilmarsdóttir (RH) formaður
Starfsmenn
- Lilja Magnúsdóttir (LM) ritari heimastjórna
Fundargerð ritaði
- Lilja Magnúsdóttir ritari
Almenn erindi
1. Fjárhagsáætlun 2026 - 2029.
Samþykkt fjárhagsáætlun Vesturbyggðar 2026-2028 lögð fram til upplýsinga.
Nanna Lilja Sveinbjörnsdóttir, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs kom inn á fundinn undir þessum lið og fór yfir afgreidda fjárhagsáætlun Vesturbyggðar 2026 - 2029 og þau verkefni sem farið verður í á árinu.
2. Samgönguáætlun 2026-2040
Samgönguáætlun 2026 - 2040 tillaga til þingsályktunar
Heimastjórn Patreksfjarðar fagnar framlögðum drögum að samgönguáætlun og þeim áherslum sem þar koma fram fyrir sunnanverða Vestfirði varðandi forgangsröðun í jarðgöngum
Suðurfjarðagöng
Heimastjórn fagnar sérstaklega tillögu í drögum samgönguáætlunar að jarðgöng undir Mikladal og Hálfdán, Suðurfjarðagöng, séu á meðal forgangsverkefna, enda er engum jarðgöngum til að dreifa á sunnanverðum Vestfjörðum. Sú samgöngubót sem felst í jarðgöngum milli byggðakjarna á sunnanverðum Vestfjörðum mun gjörbreyta búsetuskilyrðum íbúa og rekstrarumhverfi fyrirtækja sem í dag búa við samgöngur um eina hæstu fjallvegi landsins.
Patrekshöfn
Heimastjórn Patreksfjarðar gerir alvarlegar athugasemdir við að samkvæmt drögum að samgönguáætlun hefur ekki verið tekið tillit til beiðni Vesturbyggðar um að haldið sé áfram með undirbúning og framkvæmd fyrir stórskipakant við Patrekshöfn. Þrátt fyrir að samkvæmt drögum samgönguáætlunar eru hafnaframkvæmdir á forræði sveitarstjórna þá liggur fyrir að Vegagerðin hafi ekki lagt til við innviðaráðherra í tillögum sínum í samgönguáætlun að haldið yrði áfram með undirbúning fyrir stórskipakant við Patrekshöfn þrátt fyrir að Vegagerðinni beri að hafa samráð við viðkomandi hafnarstjórn við undirbúning tillögugerðar sinnar skv. 2. mgr. 23. gr. hafnarlaga nr. 61/2003. Gerir heimastjórn því alvarlegar athugasemdir við framgöngu Vegagerðarinnar gagnvart sveitarfélaginu við undirbúning málsins. Einnig gerir heimastjórn Patreksfjarðar athugasemdir við það mat sem Vegagerðin framkvæmdi um tillögugerðina og forgangsröðun framkvæmda þegar kemur að málefnum Patrekshafnar, þá sérstaklega er varðar öryggi sjófarenda og þá atvinnuuppbyggingu sem tengist framkvæmdinni, en samkvæmt drögum samgönguáætlunar ber að líta til þess sérstaklega við forgangsröðun framkvæmda.
Undirbúningur fyrir gerð stórskipakants við Patrekshöfn hefur staðið yfir um árabil og var í samgönguáætlun fyrir 2019-2023 og 2020-2024 veitt framlag til öldustraumsrannsókna vegna undirbúnings fyrir stórskipakant við Patrekshöfn og hafa þær rannsóknir þegar farið fram. Þá hefur Vesturbyggð unnið að endurskoðun á deiliskipulagi fyrir hafnarsvæði Patrekshafnar þar sem gert er ráð fyrir framkvæmdinni. Sveitarfélagið hefur því ekki horfið frá þeirri framkvæmd sem hefur verið unnið að á síðustu átta árum. Með tillögugerðinni og forgangsröðun Vegagerðarinnar er sá undirbúningur að engu gerður samkvæmt drögum samgönguáætlunar og gerir heimastjórn verulegar athugasemdir við það. Fullyrðingar Vegagerðarinnar um að þar sem fallið hafi verið frá áformum um frekari uppbyggingu á hafnarsvæði Patrekshafnar er tengist fiskeldi séu ekki lengur til staðar forsendur til að fara í framkvæmdina, á sér enga stoð í raunveruleikanum, enda hófst undirbúningur fyrir gerð stórskipakants við Patrekshöfn á árinu 2018, löngu áður en hugmyndir um frekari uppbyggingu tengda fiskeldi komu fram á árinu 2021.
Heimastjórn bendir á að framkvæmd við stórskipakant við Patrekshöfn er mikilvæg m.a. fyrir samgöngukerfi landsins, almannahagsmuni á Patreksfirði og hagkvæmni. Sérstaklega er framkvæmdin mikilvæg fyrir öryggi sjófarenda, sem er ein aðaláhersla samgönguáætlunar 2026-2040 og hefur því mikla þýðingu fyrir almannahagsmuni á Patreksfirði. Núverandi hafnarmannvirki mæta ekki lengur þeirri þörf sem er þegar til staðar í Patrekshöfn, bæði hefur fiskiskipum með heimahöfn fjölgað og þau stækkað, strandveiðibátum fjölgað og þá hefur fjöldi þjónustubáta í fiskeldi margfaldast á síðustu árum og hafa þeir einnig stækkað. Þá hefur þröngt aðgengi í Patrekshöfn valdið vandræðum og tjóni, þar sem höfnin er þröng og erfitt er fyrir stærri skip að athafna sig í höfninni. Gerð stórskipakants er því grundvallarþáttur í að auka öryggi sjófarenda, bæta aðstöðu hafnarinnar og draga úr líkum á eignartjóni. Með stórskipakanti verður unnt að bæta aðgengi stærri skipa og þar með tryggja betri nýtingu á hafnarmannvirkjum Patrekshafnar. Með framkvæmdinni er einnig unnt að auka verulega rekstraröryggi hafnarinnar og skapa betri forsendur fyrir frekari atvinnuuppbyggingu, m.a. með tækifærum til strandsiglinga og þjónustu við þær útgerðir sem stunda fiskveiðar á veiðisvæðum fyrir utan sunnanverða Vestfirði. Þegar hafa umsvif Patrekshafnar aukist til muna eins og rakið er í drögum að samgönguáætlun, þar sem vegna aukinna umsvifa er Patrekshöfn aftur orðinn hluti af grunnneti samgangna. Heimastjórn bendir einnig á að heiti hafnarinnar er ranglega nefnt í drögum samgönguáætlunar sem þar er tilgreint Patreksfjarðarhöfn, en rétt heiti hafnarinnar er Patrekshöfn.
Raknadalshlíð
Heimastjórn Patreksfjarðar gerir einnig athugasemd við að ekki er lagt til neitt framlag til að tryggja öryggi vegfarenda sem fara um Raknadalshlíð líkt og lagt er til fyrir aðra vegakafla þar sem mikil ofanflóðahætta er til staðar. Heimastjórn ásamt Vesturbyggð hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að fundin verði framtíðarlausn til að verja vegfarendur sem aka um Raknadalshlíð, en þar eru snjóflóð og grjóthrun algeng. Að mati heimastjórnar Patreksfjarðar er mikilvægt að tryggt verði öryggi vegfarenda um Raknadalshlíð til framtíðar, hvort sem er með nýju vegstæði eða öðrum lausnum sem til þess eru fallnar að auka öryggi vegfarenda allt árið um kring.
Bíldudalsflugvöllur
Heimastjórn Patreksfjarðar gerir alvarlegar athugasemdir við að ekki sé lengur gert ráð fyrir að bæta aðflugsljós við Bíldudalsflugvöll til að auka öryggi í aðflugi að flugvellinum og tryggja að hægt sé að lenda á flugvellinum allan sólarhringinn. Allt sjúkraflug á sunnanverðum Vestfjörðum fer um Bíldudalsflugvöll sem er hluti af grunnneti samgangna og gegnir því veigamiklu hlutverki í samgönguneti Vestfjarða. Mikilvægt er að ekki verði frekari tafir á uppsetningu aðflugsljósa við Bíldudalsflugvöll til að tryggja öryggi sjúklinga og aðgengi að viðunandi heilbrigðisþjónustu allt árið um kring.
Heimastjórn Patreksfjarðar hvetur bæjarstjórn Vesturbyggðar til að koma á framfæri framangreindum athugasemdum er varðar Patrekshöfn, Raknadalshlíð og Bíldudalsflugvöll og farið verði í þær framkvæmdir á fyrri hluta samgönguáætlunar.
Samþykkt samhljóða.
3. Hafnarbakki 12, Patreksfirði. Byggingaráform
Tekin fyrir umsókn Héðins Hákonarsonar, dagsett 16. desember 2025. Sótt er um að setja upp tæknirými við austurgafl Hafnarbakka 12 sem stæði 2 m út fyrir byggingareit og yrði 7 m langt.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við heimastjórn Patreksfjarðar á 16. fundi sínum þann 18. desember að áformin verði samþykkt. Ráðið taldi að áformin séu þess eðlis að þau séu undanþegin grenndarkynningu þar sem um óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Heimastjórn Patreksfjarðar samþykkir tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs og samþykkir áform um breytingu á húsnæðinu og felur skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram.
Samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:50
Formaður setti fund og kannaði hvort athugasemdir væru við fundarboðið.
Svo var ekki og formaður lýsti fundinn lögmætan.