Fundur haldinn í Aðalstræti 63, Patreksfirði, 13. febrúar 2017 og hófst hann kl. 16:00
Fundargerð ritaði
- Elfar Steinn Karlsson forstöðum. tæknideildar
Almenn erindi
1. Notkun á bílastæði við íþróttavöllinn á Vatneyri.
Erindi frá Gunnþórunni Bender f.h. Westfjords Adventures. Í erindinu er sótt um leyfi til nýtingar á bílastæðum við íþróttavöllinn á Vatneyri, bílastæði gegnt Þórsgötu 6. Sótt er um leyfi til að nýta 10 stæði við völlinn. Bílarnir verði fjarlægðir þegar stærri viðburðir standa yfir.
Skipulags- og umhverfisráð samþykkir fyrir sitt leyti útleigu á allt að 10 bílastæðum til Westfjords Adventures til eins árs gegn gjaldi. Leigutaki verði þó að gera sér grein fyrir að stæðin standa við íþróttasvæði og að boltar og fleira geti skapað hættu og tjón fyrir bíla sem standa á stæðinu.
Skipulags- og umhverfisráð vísar erindinu áfram til hafnarstjórnar Vesturbyggðar. Sem framtíðarstæði fyrir bílastæði undir bílaleiguna bendir skipulags- og umhverfisráð á svæði aftan við Rauða-Kross húsið.
2. Tjarnarbraut 2. Umsókn um stöðuleyfi.
Guðmundur V. Magnússon vék fund við afgreiðslu málsins.
Erindi frá Hrönn Arnfjörð f.h. BA-110 ehf. Í erindinu er sótt um stöðuleyfi fyrir 20feta gám neðan við Tjarnarbraut 2 á Bíldudal, Vegamót. Erindinu fylgir samþykki húseigenda.
Skipulags- og umhverfisráð samþykkir stöðuleyfi á gámnum til 12 mánaða með fyrirvara um grenndarkynningu.
3. Vatnskrókur 17. Umsókn um lóð.
Eydís Þórsdóttir vék fund undir afgreiðslu málsins.
Erindi frá Laufey Böðvarsdóttur eigenda Vatnskróks 17, Patreksfirði. Í erindinu er sótt um lóð undir geymsluna, en enginn lóðaleigusamningur er í gildi.
Skipulags- og umhverfisráð vísar erindinu áfram til hafnarstjórnar Vesturbyggðar.
4. Framkvæmdaleyfi. Snjósöfnunargrindur og vindkljúfar ofan upptakasvæða Urða og Klifs.
Tekin fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi frá Vesturbyggð, dagsett 10.02.2017. Framkvæmdin felur í sér annars vegar að setja upp snjósöfnunargrindur úr stáli, og hins vegar að setja upp fimm vindkljúfa úr stáli og timbri á steypta undirstöðu ofan upptakasvæða Urða og Klifs, á Patreksfirði. Erindinu fylgja gögn unnin af Verkís og Framkvæmdasýslu ríkisins. Gert er ráð fyrir að verkið hefjist í maí og verklok eru 30. sept 2017.
Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að umsókn um framkvæmdaleyfi verði samþykkt og að skipulagsfulltrúa verði falið að gefa út framkvæmdaleyfið eins og 13. - 16. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mæla fyrir um.
5. Fagranes 1. Umsókn um stofnun lóðar úr landi Haga.
Erindi frá Bjarna S. Hákonarsyni Í erindinu er óskað eftir stofnun lóðar úr landi Haga, Barðaströnd(139802). Nýstofnuð lóð skal bera heitið Fagranes 1 að stærð 3.884 m2, lóðina skal svo sameina við Hagaland, landnr. 172476 sem er í dag hefur skráða stærð 20.000 m2, heildarstærð eftir stækkun er þá 23.884m2.
Skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar samþykkir erindið og felur byggingarfulltrúa að vinna málið áfram.
6. Hagvon umsókn um byggingar- og athafnalóð við Eyragötu
Tekið fyrir aftur erindi Árna G. Bárðarssonar um umsókn um byggingarlóð við Eyrargötu. Lóðin stendur á hafnarsvæði skv. hafnarreglugerð Vesturbyggðar nr. 989/2005.
Skipulags- og umhverfisráð vísar erindinu áfram til hafnarstjórnar Vesturbyggðar sem fjalla þarf um málið.
Til kynningar
7. Umsókn um lóð
Guðmundur V. Magnússon vék fund undir afgreiðslu málsins.
Lagt fram til kynningar bréf frá Guðmundi V. Magnússyni f.h. Búbíl ehf. þar sem lóðinni að Arnarbakka 5 er skilað. Á fundi skipulags- og umhverfisráðs Vesturbyggðar þann 12.04.2016 var samþykkt að leigja lóðina út til félagsins til byggingar íbúðahúsnæðis.
8. Slysavarnadeildin Unnur Patreksfirði - Slysavarnaganga 2015
Lögð fram til kynningar skýrsla sem slysavarnardeildin Unnur hefur unnið vegna atriða sem deildin telur brýnt að lagfæra þurfi innan bæjarmarka á Patreksfirði.
Skipulags- og umhverfisráð hvetur sveitarfélagið til að gera gangskur í því að lagfæra þessi atriði sem deildin bendir á. Ennfremur felur ráðið forstöðum. tæknideildar að ræða við eigendur húsa og muna sem eru í vanrækslu.
Skipulags- og umhverfisráð þakkar slysavarnardeildinni Unni fyrir góðar ábendingar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:48