Hoppa yfir valmynd

Skipulags og umhverfisráð #113

Fundur haldinn í Svörtuloftum, fundarsal í ráðhúsi Vesturbyggðar, 12. desember 2023 og hófst hann kl. 11:00

Nefndarmenn
  • Barði Sæmundsson (BS) aðalmaður
  • Friðbjörg Matthíasdóttir (FM) aðalmaður
  • Jóhann Pétur Ágústsson (JPÁ) formaður
  • Ólafur Byron Kristjánsson (ÓBK) aðalmaður
  • Rebekka Hilmarsdóttir (RH) aðalmaður
Starfsmenn
  • Elfar Steinn Karlsson (ESK) byggingafulltrúi

Fundargerð ritaði
  • Elfar Steinn Karlsson byggingarfulltrúi

Þórkatla Soffía Ólafsdóttir formaður bæjarráðs, Jón Árnason varaformaður bæjarráðs og Guðrún Eggertsdóttir varamaður í bæjarráði komu inn á fundinn og tóku þátt í umræðum og véku af fundi að því loknu.

Almenn erindi

1. Friðlandið í Vatnsfirði. Umsagnarbeiðni, breyting á friðlýsingarskilmálum.

Erindi frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, dags. 12. október 2023. Í erindinu er óskað umsagnar Vesturbyggðar um erindi Orkubús Vestfjarða ohf. og greinargerð um áhrif Vatnsdalsvirkjunar á friðland í Vatnsfirði.

Í erindi Orkubús Vestfjarða ohf. til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra er óskað eftir því að ráðherra hlutist til um það að breyta reglum um friðlandið í Vatnsfirði þannig að heimilt sé að veita leyfi til virkjunar vatnasvæðis friðlandsins til að reisa og reka raforkuver innan friðlandsins.

Formaður leggur fram eftirfarandi bókun til samþykktar:

Árið 2018 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um að setja Vestfirði í forgang í raforkumálum. Í ályktuninni kemur m.a. fram að Vestfirðir verði líkt og aðrir landshlutar eigi síðar en árið 2030 með hringtengt flutningskerfi eða ígildi þess. Samkvæmt skýrslu starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum sem gefin var út í apríl 2023 er lagt til að auka orkuframboð á Vestfjörðum um allt að 80% fram til ársins 2030.

Í ályktun 68. fjórðungsþings Vestfirðinga frá 6.-7. október 2023 er sett fram sú krafa að stjórnvöld taki fyrir lok árs 2023 þær ákvarðanir sem nauðsynlegar eru til að umbylta flutningsmálum raforku og framleiðslu raforku innan Vestfjarða. Vesturbyggðharmar þá óásættanlegu stöðu sem orkuskortur á Vestfjörður hefur haft um áratugaskeið og þannig hindrað eðlilega framþróun atvinnulífs og samfélags á Vestfjörðum.

Friðlandið í Vatnsfirði er afmarkað í aðalskipulagi Vesturbyggðar 2018-2035, og lýst sem svæði þar sem finna má náttúrulegan reynivið og birkiskóga sem breiða úr sér frá flæðarmáli og langt uppá heiðar og er það einkenni Vatnsfjarðar. Skógurinn ásamt víðáttumiklum leirum eru búsvæði fjölskrúðugs lífríkis. Vinsælt svæði til útivistar. Svæðið hefur því hátt verndargildi og verið friðað síðan 1975. Þá hefur sveitarfélagið einnig komið að undirbúningi stofnun þjóðgarðs um svæðið.

Eins og fram kemur í greinargerð Orkubús Vestfjarða, Vatnsdalsvirkjun í Vesturbyggð, sem gefin er út í október 2023, mun virkjun og tengdar framkvæmdir koma til með að raska náttúrufars- og menningarþáttum sem hafa hátt verndargildi. Virkjunin myndi hafa í för með sér rask á birki sem nýtur sérstakrar verndar, áhrif á vatnalífrask á búsvæðum dýra, áhrif á menningarminjar á svæðinu, þ.e. varðaðri Þingmannaleið og áhrif á rennsli í Vatndalsá og Austurá sem mun hafa áhrif á ásýnd fossa sem njóta sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum.

Vesturbyggð leggur áherslu á að tillögur sem þegar hafa verið ákveðnar í svæðisbundnum aðgerðum og með tímasettum áföngum verði settar í forgang, áður en kannað er hvort að ástæða sé til að breyta friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar. Einnig leggur Vesturbyggð ríka áherslu á að tvöföldun Vesturlínu verði hafin nú þegar, enda nauðsynlegt að lokið verði við þá framkvæmd, hvort sem virkjað verður meira innan svæðisins eða ekki. Þá leggur Vesturbyggð jafnframt áherslu á að þær vatnsaflsvirkjanir á Vestfjörðum sem hafa nú þegar verið samþykktar innan Rammaáætlunar, þ.e. Austurgil og Ófeigsfjörður séu settar í forgang. Þannig fái náttúran í Vatnsfirði áfram að njóta vafans, og að ekki verði gengið lengra en nauðsynlegt er og lokið verði fyrst við þær framkvæmdir sem þegar hafa verið undirbúnar til að mæta þeim mikilvægu almannahagsmunum sem felast í aðgengi að orku á Vestfjörðum áður en ákvörðun er tekin um afnám eða breytingu á friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar.

Tillaga að bókun er felld með þremur atkvæðum (FM, OBK og BS) gegn tveimur (JPÁ og RH).

FM, OBK og BS leggja fram eftirfarandi tillögu að bókun til samþykktar:

Í bókun formanns kemur fram að leggja beri áherslu á að tillögur sem þegar hafa verið ákveðnar í svæðisbundnum aðgerðum og með tímasettum áföngum verði settar í forgang, áður en kannað er hvort að ástæða sé til að breyta friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar.

Ýmsir kostir hafa verið lagðir fram sem taldir eru leysa vandann til skemmri og lengri tíma, en ekki hefur verið sýnt fram á að vilji sé til að fjármagna þá kosti eða með hvaða hætti þeir verði tryggðir þegar ljóst má vera að tími og fjármagn verður lykilþáttur í þeim öllum. Því þykir okkur ekki skynsamlegt að hafna þessari leið og teljum að bókun formanns gangi ekki nógu langt til að bregðast við brýnum hagsmunum samfélagsins um styrkingu raforkukerfisins á Vestfjörðum og framtíðarhagsmunum sunnanverða Vestfjarða þegar kemur að orkuskiptum og frekari uppbyggingu atvinnulífs. Horfa þurfi til allra kosta í því samhengi og fá fram með opnu og skilgreindu ferli, viðhorf þeirra sem lögum samkvæmt fjalla um slíka kosti. Því viljum við leggja áherslu á að ráðherra nýti heimild skv. b-lið 1. mgr. 44. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, þar sem við teljum að mjög brýnir samfélagslegir hagsmunir krefjist þess að kosturinn verði skoðaður.

Tillaga að bókun er samþykkt með þremur atkvæðum (FM, OBK og BS) gegn tveimur (JPÁ og RH).

Málsnúmer

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:45