Atvinnuhúsnæði í Verbúðinni til leigu
Sveitarfélagið auglýsir til leigu atvinnurými í Verbúðinni í Eyrargötu við Patrekshöfn. Rýmið hefur áður hýst veitinga- og menningarstarfsemi og hentar vel fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi.
Rýmið, sem áður hýsti meðal annars Flak og Skútann, er um 120 m² að stærð og samanstendur af sal, eldhúsi, bar, salerni og herbergi inn af sal. Það er hluti af Verbúðinni í Eyrargötu á Patreksfirði, þar sem einnig eru vinnustofur listamanna og bókaútgáfan Skriða. Verbúðin er samkomustaður þar sem skapandi starfsemi og mannlíf mætast. Sveitarfélagið óskar eftir leigutaka sem hefur áhuga á að nýta rýmið undir starfsemi sem eflir mannlíf og þjónustu í bænum. Áður hefur rýmið verið nýtt fyrir veitinga- og menningarstarfsemi, en allar hugmyndir um nýtingu eru velkomnar.
Leigusamningur verður gerður við hæfan aðila til ákveðins tíma eða ótímabundið með uppsagnarfresti. Sveitarfélagið áskilur sér rétt til að velja þann umsækjanda sem að mati þess hefur bestu mögulegu áætlun um rekstur í húsnæðinu.
Rýmið er laust til afhendingar. Umsókn um leigu rýmisins skal senda á vesturbyggd@vesturbyggd.is merkt „Verbúð“. Í umsókn skal koma fram áform umsækjenda um nýtingu á húsnæðinu, það er hverskonar starfsemi og eftir atvikum áformaður opnunartími. Frekari upplýsingar veitir hafnarstjóri.
Umsóknir skulu berast í síðasta lagi miðvikudaginn 1. október 2025.