Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir meira en 1 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Heim­ilda­mynda­há­tíðin Skjald­borg 2023

Skjald­borg hátíð íslenskra heim­ilda­mynda verður haldin hvíta­sunnu­helgina 26.–29. maí. Gæða­stundir í Skjald­borg­ar­bíói, skrúð­ganga, plokk­fisk­veisla, limbókeppni og sumar­nóttin á Patreks­firði móta lykil­við­burð fyrir heim­ilda­mynda­höf­unda og áhuga­fólk um heim­ilda­myndir á Íslandi.


Skrifað: 22. maí 2023

Skjaldborg er kraftmikil uppskeruhátíð heimildamyndahöfunda og eina íslenska kvikmyndahátíðin sem sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildamyndir. Reynsluboltar í faginu, byrjendur og hinn almenni áhorfandi koma saman á hátíðinni í skemmtilegu og skapandi samtali sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þróun og miðlun íslenskrar heimildagerðar. Efnistök heimildamyndanna sem hafa verið á dagskrá hátíðarinnar í gegn um árin hafa verið fjölbreytt en þær hafa verið allt frá örstuttum myndum upp í myndir í fullri lengd.

Dagskráin í Skjaldborgarbíói verður fjölbreytt og auk heimildamyndaveislu verða kynnt verk í vinnslu, Kvikmyndasafn Íslands sýnir perlur úr sínu safni og Friðgeir Einarsson sýnir fyrirlestrarverkið blessbless.is. Pallborðsumræður verða haldnar í bíóinu um framtíð íslenskrar heimildamyndagerðar þar sem Gísli Snær Erlingsson, nýr forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, Margrét Jónasdóttir, aðstoðardagskrárstjóri RÚV og heimildamyndahöfundar og framleiðendur skeggræða heitustu málefnin í heimildamyndafaginu. Heiðursgestir hátíðarinnar í ár eru Corinne van Egeraat og Petr Lom, heimildamyndahöfundar og framleiðendur ZINDOC. Mannréttindi eru þeirra helsta viðfangsefni og dæmi um það er Myanmar Diaries sem kom út 2022 og hefur unnið til fjölda verðlauna.

Allar frumsýndar myndir keppa um áhorfendaverðlaunin Einarinn, dómnefndaverðlaunin Ljóskastarann og hvatningarviðurkenningu dómnefndar. Með Einarnum og Ljóskastaranum fylgir veglegt verðlaunafé í formi þjónustu frá tækjaleigunni Kukl og eftirvinnslufyrirtækinu Trickshot.

Á laugardagskvöldinu heldur Lotto tónleika og DJ sett. Lottó semur lög sem snúast um dagdrauma, vonlaus skot og langar nætur úti á lífinu. Á lokakvöldi Skjaldborgar heimsækir tvíeykið DJ Ívar Pétur og Hermigervill Félagsheimili Patreksfjarðar sem TWIN TWIN SITUATION  á lokakvöldi Skjaldborgar. Í farteskinu verða þeir tvíburar með stútfullar partýtöskur af danstónlist!

Hátíðarpassi veitir aðgang að allri dagskrá hátíðarinnar, sjávarréttaveislu, plokkfiskboði kvenfélagsins, partýi á laugardagskvöldinu, lokapartý og aðgang í sundlaugina og á tjaldstæðið alla helgina. Tenglar á miðasölu, dagskrá og fleira má finna á tenglum hér fyrir neðan.