Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir meira en 1 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Dagvist­un­armál á Patreks­firði

Unnið hefur verið að því að  finna lausn á húsnæð­is­vanda leik­skólans Arakletts og niður­staða  af þeirri vinnu er að búið er að panta „ævin­týra­borgir“. Um er að ræða einingar sem smíð­aðar eru sem eining­arhús og eru hann­aðar út frá þarf­agrein­ingu leik­skólans og í samræmi við áætlaða nýtingu húsnæð­isins. Með þessari nálgun er verið að nýta þann hraða sem þessi bygg­ing­ar­máti býður upp á ásamt því að enn meiri stækk­un­ar­mögu­leiki er til staðar við þannig húsnæði.


Skrifað: 24. janúar 2023

Framleiðsla á húsinu er hafin erlendis en samhliða er unnið að undirbúning sem þarf hér heima, með það að markmiði að allt verði tilbúið til að reisa húsið er það kemur til landsins. Þegar að sú vinna fer af stað mun verða töluvert rask á leikskólalóðinni, bæði vegna þess pláss sem þarf vegna framkvæmdanna, en einnig vegna þess að útisvæði leikskólans mun minnka og breytast eftir að húsið er komið upp. Með þessari viðbyggingu mun aðstaða batna til muna fyrir börn, starfsfólk og stjórnendur leikskólans. Stækkun nemur um 160 fm. og vonast er til að þessi stækkun muni duga til að koma til móts við þörfina næstu ár.

Því miður er ekki raunhæft að áætla að hægt verði að taka ný börn inn á leikskólann og nota húsið fyrr en eftir sumarleyfi leikskólans.

Þar sem leikskólinn Araklettur er fullsetinn og biðlisti hefur myndast hefur Vesturbyggð, í framhaldi af fundi bæjarráðs í síðustu viku, ákveðið að hrinda af stað verkefni til að brúa bilið þar til nýtt húsnæði verður tekið í notkun. Fyrirhugað er að auglýsa eftir teymi tveggja einstaklinga til að starfa sem dagforeldrar á Patreksfirði. Áætlað er að gera samskonar reglur um dagforeldra og gilda á Barðaströnd, en einungis er um tímabundið úrræði að ræða á Patreksfirði. Reglurnar fela í sér að Vesturbyggð leggur dagforeldrum til húsnæði,  þeim að kostnaðarlausu. Auk þess munu dagforeldrar geta sótt um styrk til Vesturbyggðar ef fjöldi barna og samanlagðar tekjur standa ekki undir tilteknum tekjum, sem nánar verður útfært í reglunum. Dagforeldrar þurfa að uppfylla skilyrði reglugerðar um daggæslu barna í heimahúsum og sækja um leyfi til gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.

Við hvetjum ykkur til að hjálpa okkur við að leita leiða til að brúa bilið þar til við fáum í hendurnar það húsnæði sem mun sinna faglegu starfi leikskólans Arakletts um ókomna tíð. Formleg auglýsing eftir dagforeldrum með reglum þar um verða birt á vef sveitarfélagsins á næstu dögum.