Hoppa yfir valmynd

Fram­tíð­ar­hús­næði fyrir Bíldu­dals­skóla

Í vikunni var birt frum­varp til fjár­laga, þar sem m.a. er kveðið á um heimild fjár­mála­ráð­herra til að ganga til samn­inga við Vest­ur­byggð vegna ráðstöf­unar Bíldu­dals­skóla vegna áform­aðra fram­kvæmda við ofan­flóða­varnir á svæðinu


Skrifað: 15. september 2023

Frá því í október 2022 hefur skólastarf í Bíldudalsskóla verði í tímabundnu húsnæði vegna raka og myglu í húsnæði Bíldudalsskóla við Dalbraut. Sveitarfélagið leitaði til umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytisins hvort ríkið væri tilbúið til að kaupa Bíldudalsskóla af sveitarfélaginu í staðin fyrir að byggja sérstakan varnargarð fyrir ofan Bíldudalsskóla. Allt væri þetta háð mati sveitarfélagsins á þeim kostum sem sveitarfélagið stæði frammi fyrir, að gera lagfæringar á húsnæðinu við Dalbraut eða byggja nýtt skólahúsnæði. Ef gerðar yrðu lagfæringar á húsnæðinu við Dalbraut yrði húsnæðinu jafnframt breytt þannig að það uppfyllti nútímakröfur skólastofnana.

Unnið hefur verið mat á kostnaði við lágmarkslagfæringar á skólahúsnæðinu á Dalbraut, þarfagreining unnin með kennurum og starfsfólki og kannaðir ólíkir kostir við útfærslu nýrrar skólabyggingar.

Nú þegar niðurstaða ríkisins liggur fyrir munu starfsfólk sveitarfélagsins og bæjarfulltrúar meta þá kosti sem eru í stöðunni og taka ákvörðun um framtíðarhúsnæði Bíldudalsskóla.

Gert verður ráð fyrir framkvæmdum við skólahúsnæði á Bíldudal á árinu 2024.