Hoppa yfir valmynd

Hvað er að frétta af Birkimel og Laufinu?

Í liðnum Hvað er að frétta? að þessu sinni heyrum við frá því sem gerist í félags­heim­ilinu Birkimel og frá Laufinu, félags­starfi aldr­aðra á Barða­strönd, sem býður öðrum eldri borg­urum af svæðinu í sveita­teiti þann 18. apríl.


Skrifað: 26. mars 2024

Birkimelur var vígður þann 12. ágúst árið 1961, en áður var félagsheimili við sjóinn á Innri-Múla. Birkimelur var lengi vel með vinsælustu stöðum á landinu og mörg hittust þar á balli. Í tíð formanns hafa leikfélög frá bæði Tálknafirði og Bíldudal haldið sýningar þar og þorrablótin hafa verið vinsæl síðustu ár. Á meðan skóli var starfandi í Birkimel var þar mikið um að vera, enda margir viðburðir sem fylgdu skólastarfinu.

Á veturna spilar félagsstarfið boccia í félagsheimilinu. Eins eru fundir hjá Kvenfélaginu Neista sem er, ásamt UMFB, eigendur félagsheimilisins með sveitarfélaginu. Kvenfélagið heldur aðventukvöld fyrir konur sem er notaleg stund en þar fáum við okkur osta, nammi og heitt súkkulaði, erum með pakkaleik og jólasögu ásamt jólasöng. Kvenfélagið er svo með kaffi fyrir sveitunga á sumardaginn fyrsta, ungmennafélagið heldur skötuveislu sem hefur gengið vel og kirkjurnar halda aðventu kvöld þar sem börnin fá að blómstra. Það hafa líka verið ýmsir fundir í Birkimel. 17.júní er stór dagur þar sem kvenfélagið og Ungmennafélagið halda mikla hátíð með fjallkonu og síðustu ár hafa verið hoppukastalar, mæting hefur verið góð síðustu ár. Á sumrin eru bæði gönguhópar og ættarmót sem leigja félagsheimilið og skólann.

Félagsstarf aldraðra

Félagsstarfið byrjaði fyrst bara aðra hvora viku, sennilega eru kominn 10 ár síðan, nafnið Laufið kom þannig til að við höfðum hugmyndasamkeppni og kusum á milli. Nafnið hefur hentað okkur mjög vel og við erum stoltar af starfi okkar. Við höfum föndrað ýmislegt í Laufinu t.d. könnur, púða, kerti, prjónamerki og armbönd. Eins hefur bókasafnið komið til okkar og núna í vetur höfum við æft ýmislegt og spilað boccia. Á þorranum vorum við með lítið þorramatsblót og fengum Theu Alfreðs sem var í fríi hér alla leið frá Neskaupstað en hún sagði okkur frá öllu því sem þau eru að gera þar. Núna síðast fengum við heimsókn frá Eddu Kristínu Eiríksdóttur sérfræðingi hjá Umhverfisstofnun sem býr á Grjóthólum og sagði hún okkur frá starfi hennar ásamt fróðleik um friðlandið okkar. Síðasta þriðjudag fórum við í heimsókn í Selið á Patró og tókum þátt í pílu.

Fram undan í Birkimel er sveitateiti með sveita- og kúrekaþema þann 18.apríl fyrir 60 ára+ á vegum félagsstarfsins Laufsins. Framreiddar verða grillaðar lambasneiðar og eftir matinn er línudans. Viðburðurinn verður auglýstur betur eftir páska, þá líka hvernig má skrá sig.

Hvað er að frétta? er nýr liður á heimasíðunni þar sem birtar verða fréttir frá starfsstöðvum og stofnunum sveitarfélagsins.

Hattadagur í Laufinu

Félagsheimilið Birkimelur - Forstöðumaður

SBÍ

siljabjorg@vesturbyggd.is/+354 456 2080