Jarðhitaleit á Patreksfirði lofar góðu
Í nýrri rannsóknarborun á Patreksfirði fannst um 40°C volgt vatn á rúmlega 200 metra dýpi. Talið er að það sé í nógu miklu magni til að nýta á varmadælur til þess að kynda hitaveituna á Patreksfirði.
Orkubú Vestfjarða hefur undanfarnar vikur staðið fyrir borun á þremur rannsóknarholum og nýrri vinnsluholu á Patreksfirði, auk þeirrar sem boruð var haustið 2024. Markmið verkefnisins er að kanna möguleika á að finna og nýta volgt vatn á varmadælur sem kæmu í stað rafkyntra katla fjarvarmaveitunnar á staðnum.
Í nýrri borholu fannst um 40°C volgt vatn á rúmlega 200 metra dýpi. Sú niðurstaða er mjög jákvæð og gefur vísbendingar um raunhæfa nýtingu þess. Á næstu dögum verður borun lokið og afkastamælingar framkvæmdar til að meta vatnsmagn og hitastig nánar. Verkefnið er mikilvægt framfaraskref í átt að sjálfbærari orkulausn fyrir Patreksfjörð.