Kærkomin gjöf frá Vélaverkstæðinu
Í hjarta Patreksfjarðar, við Patreksskóla, hefur risið kastali. Leikkastali sem er gjöf Vélaverkstæðis Patreksfjarðar í tilefni af 10 ára afmælis fyrirtækisins.
Auk hans gaf fyrirtækið einnig ýmis smærri leiktæki sem sett voru upp á leikskólalóð Arakletts og útibekki fyrir báðar lóðir. Leiktækin auka fjölbreytni þeirra leiktækja sem fyrir eru og mun gjöfin gleðja yngstu kynslóðina okkar og halda áfram að gleðja um ókomna tíð.
Ég þakka Gunnari Sean, eiganda Vélaverkstæðisins, kærlega fyrir góða afmælisgjöf sem er kærkomin viðbót á grunn- og leikskólalóðirnar á Patreksfirði.
Undanfarnar vikur höfum við orðið vitni að mörgum samfélagslegum verkefnum sem eru borin uppi af sjálfboðaliðum og fyrirtækjum í sveitarfélaginu. Skjaldborgarhátíðin, Sjómannadagshátíðin og leiktækin frá Vélaverkstæðinu er dæmi um það mikilvæga hlutverk sem einstaklingar og fyrirtæki spila í því að styðja og styrkja samfélagið sem við erum öll hluti af. Vil ég nota tækifærið og þakka fyrir það sömuleiðis, þetta er menning sem mikilvægt er að halda í.

Þórdís Sif Sigurðardóttir og Gunnar Sean takast í hendur fyrir framan umræddan kastala.