Hoppa yfir valmynd

Málþing um snjóflóð og samfélög

Málþing um snjóflóð og samfélög verður haldið í Edin­borg­ar­húsinu á Ísafirði dagana 5.-6. maí 2025.


Skrifað: 9. apríl 2025

Snjóflóð og skriðuföll hafa valdið mörgum slysum, stórfelldu efnahagslegu tjóni og margs konar röskun á starfsemi og mannlífi hér á landi allt frá landnámi. Segja má að íslenskt samfélag hafi um langan aldur tekist á við slys af völdum snjóflóða og skriðna með því að taka á sig höggið, lagfæra skemmdir en harka af sér manntjón, og halda svo áfram með tilveruna.

Frá upphafi 20. aldar hafa 226 látist í snjóflóðum og skriðuföllum, þar af 173 í snjóflóðum. Mannskaðasnjóflóðin í Neskaupstað í desember 1974 og svo í Súðavík í janúar 1995 og á Flateyri í október sama ár ollu straumhvörfum í afstöðu Íslendinga til snjóflóðahættu og síðan hefur verið unnið ötullega að uppbyggingu snjóflóðavarna og bættum viðbúnaði við snjóflóðahættu.

Af því tilefni að í ár eru 30 ár liðin frá snjóflóðunum í Súðavík og á Flateyri verður haldið málþing á Ísafirði dagana 5. og 6. maí nk. þar sem sjónum verður m.a. beint að áhrifum snjóflóða og snjóflóðavarna á samfélög á hættusvæði.

Frekari upplýsingar og skráningu á viðburðin má finna á heimasíðu hans.