Hoppa yfir valmynd

Mark­aðs­könnun vegna mögu­legra virkj­un­ar­fram­kvæmda í Ósá í Patreks­firði

Mark­aðs­könnun þessi er undan­fari mögu­legra virkj­un­ar­fram­kvæmda í Ósá í botni Patreks­fjarðar en sveit­ar­fé­lagið Vest­ur­byggð er eigandi þess lands þar sem fyrir er að finna vatns­afls­virkjun sem ekki hefur verið í rekstri.


Skrifað: 27. október 2025

Umhverfis- og framkvæmdasvið sveitarfélags Vesturbyggðar leitar eftir áhugasömum framkvæmdaraðilum við vatnsaflsvirkjun í Ósá í Patreksfirði en með markaðskönnun þessari er markmiðið að kanna áhuga þátttakenda til mögulegs samstarfs en sveitarfélagið vill gæta að því að gagnsæi og jafnræði meðal áhugasamra aðila sé tryggt og styðja við virka samkeppni. Sérstaklega skal tekið fram að þátttaka, sem og engin þátttaka, í markaðskönnun þessari mun ekki hafa áhrif á niðurstöðu mögulegs útboðs eða tilboðsleitana.

Sem fyrr segir er sveitarfélagið eigandi að landi í botni Patreksfjarðar þar sem Ósá liggur en hér að neðan má sjá tölulegar upplýsingar um virka fallhæð, innrennsli til virkjunar og afl hennar miðað við meðalúrkomukort Veðurstofu Íslands (merkt VÍ), hönnunarrennsli sem er 30% af rennsli ákvörðuðu útfrá meðalúrkomukorti VÍ (merkt 30%), og loks innrennsli og afli ákvörðuðu útfrá meðalúrkomukorti úr RÁV2 (merkt RÁV2). Upplýsingar eru fengngar úr skýrslu Verkfræðistofunnar Vatnaskila um kortlagningu smávirkjanakosta á Vestfjörðum, sem unnin var fyrir Orkustofnun árið 2020.


Gert er ráð fyrir að virkjun sem reist yrði á svæðinu væri undir 10 MW og myndi þannig flokkast til smávirkjana.

Upplýsingar sem óskað er eftir

Sveitarfélagið Vesturbyggð leitast eftir að eiga samtal við þátttakendur vegna mögulegra virkjunarframkvæmda í landi sveitarfélagsins. Um væri að ræða óbindandi samtal um tillögur að samstarfi.

Áhugasömum aðilum sem vilja eiga viðræður við sveitarfélagið er bent á að hafa samband í tölvupósti á netfangið geir@vesturbyggd.is með efnisheitinu „Virkjunarframkvæmdir í Ósá í Patreksfirði“ með upplýsingum um þátttakanda, þar með talið tengilið vegna samtals.

Vesturbyggð ábyrgist með engu móti að markaðskönnun þessi endi með útboði eða samþykki á tilboði í framkvæmdirnar.