Nafn á nýtt sveitarfélag
Óskað er hér með eftir tillögum frá íbúum um nafn á nýtt sameinað sveitarfélag Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps. Frestur til innsendingar er til kl. 13 fimmtudaginn 29. febrúar.
Á fundi undirbúningsstjórnar um sameiningu Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps sem haldinn var 7. febrúar síðastliðinn var ákveðið að hefja ferli við val á nafni á sameinað sveitarfélag. Kosið verður til sameiginlegrar sveitarstjórnar 4. maí næstkomandi og mun sameiningin taka gildi 15 dögum síðar eða 19. maí.
Óskað er nú eftir tillögum að nafni frá íbúum og í framhaldi mun undirbúningsstjórn senda tillögur til Örnefnanefndar til umsagnar. Tillögur íbúa verða leiðbeinandi, en ákvörðun um nafn hins sameinaða sveitarfélags er í höndum nýrrar bæjarstjórnar að fenginni umsögn Örnefnanefndar í samræmi við sveitarstjórnarlög.
Samkvæmt lögum skal nafnið samræmast íslenskri málfræði og málvenju og tengjast viðkomandi svæði sérstaklega. Æskilegt er að nafn sveitarfélagsins beri með sér að um stjórnsýslueininguna sveitarfélag sé að ræða, það er að heiti sveitarfélagsins endi til dæmis á -hreppur, -bær, –kaupstaður, -byggð, -þing eða að skeytt sé Sveitarfélagið framan við nafnið. Á vef Örnefnanefndar má finna upplýsingar um nefndina og meginsjónarmið um nöfn sveitarfélaga.
Innsendingar tillagna
Skilafrestur tillagna að nafni á nýtt sameinað sveitarfélag Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps er til kl. 13:00 fimmtudaginn 29. febrúar 2024. Tillögur berist í tölvupósti til menningar- og ferðamálafulltrúa á netfangið muggsstofa@vesturbyggd.is. Einnig er hægt að koma tillögum á framfæri í ráðhúsi Vesturbyggðar og á skrifstofu Tálknafjarðarhrepps á opnunartímum. Æskilegt er að tillögum fylgi rökstuðningur, þar sem því er lýst hvernig nafnið tengist svæðinu og samræmist íslenskri málfræði og málvenju.