Nýr samningur við Ásgarð
Sveitarfélagið og Ásgarður – skólaráðgjöf hafa undirritað nýjan samning um áframhaldandi samstarf Ásgarðs við grunn- og leikskóla sveitarfélagsins.
Skrifað: 23. október 2024
Ásgarður hefur veitt Vesturbyggð faglega ráðgjöf síðan 2016, þegar fyrsti samningurinn var gerður, og hefur starfað með skólum sveitarfélagsins að fjölbreyttum verkefnum.
Ásgarður sinnir sérfræðiþjónustu fyrir starfsfólk í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins með það að markmiði að efla skólastarfið og innleiða menntastefnu ríkisins. Með kerfisbundnum stuðningi við stjórnendur, kennara og annað starfsfólk hefur Ásgarður hjálpað til við að bæta gæði kennslu og námsumhverfis. Samstarfið hefur einnig falið í sér ráðgjöf til fræðsluyfirvalda sveitarfélagsins og hefur Ásgarður tekið þátt í mótun skólastefnu Vesturbyggðar.
Með nýja samningnum heldur þetta mikilvæga samstarf áfram og leggur grunn að frekari þróun og styrkingu menntakerfisins í sveitarfélaginu. Samningurinn er hluti af viðleitni Vesturbyggðar til að tryggja börnum á svæðinu fyrsta flokks menntun í samræmi við gildandi menntastefnu.
Á myndinni eru Gerður Björk Sveinsdóttir, bæjarstjóri, og Kristrún Lind Birgisdóttir, framkvæmdarstjóri Ásgarðs, við undirritun samningsins.