Nýr slökkvibíll á Bíldudal
Slökkviliðið á Bíldudal fékk afhenta nýja slökkvibifreið í desember síðastliðnum. Bíllinn er ekki bara fallegur heldur er hann líka vel útbúinn.
Nýi bíllinn kemur til með að stytta viðbragðstíma slökkviliðsins og bæta starfsumhverfi og öryggi slökkviliðsmanna. Bíllinn leysir af 1983 árgerð af Magirus-Deutz sem keyptur var notaður frá Þýskalandi árið 2005. Sveitarfélagið fékk styrk frá Fiskeldissjóði upp í kaupin.
Bíllinn er af gerðinni Scania P500 4×4 og var breytt í slökkvibíl í Kielce í Póllandi af Moto Truck SP. Z O.O. Búnaður bílsins er veglegur en þar ber helst að nefna OneSeven froðuslökkvikerfi, 4000 lítra vatnstank ásamt tveimur 100 lítra froðutönkum. Á þaki bílsins er fjarstýrð dæla með myndavél, sjálfvirkar kastkeðjur eru við afturhjól, dráttarspil, 360° myndavélakerfi, klippur, rafstöð, fjórir reykköfunarstólar, hitamyndavél og margt fleira.
Á sunnanverðum Vestfjörðum er starfrækt slökkvilið á Patreksfirði, Tálknafirði og á Bíldudal, við útköll eru öll slökkviliðin kölluð út og því er mikilvægt að slökkviliðið hafi yfir að ráða öflugum bifreiðum til að lágmarka útkallstíma á milli fjarða, en um erfiða fjallvegi er að fara.
Elfar Steinn Karlsson og Valdimar Bernódus Ottósson, slökkviliðsstjóri.