Nýtt byggðarmerki
Bæjarstjórn hefur samþykkt nýtt byggðarmerki fyrir sveitarfélagið Vesturbyggð. Merkið varð hlutskarpast í hönnunarsamkeppni um nýtt byggðarmerki, það hannaði hönnunarstofan Kolofon og mun framvegis prýða öll opinber gögn og kynningarefni sveitarfélagsins.
Um hönnunarsamkeppnina
Vesturbyggð „hin fyrri“ og Tálknafjarðarhreppur sameinuðust þann 19. maí árið 2024 og hlaut nýtt sveitarfélag nafnið Vesturbyggð. Í kjölfar sameiningarinnar var ákveðið að efna til opinnar hönnunarsamkeppni um nýtt byggðarmerki, en hingað til hafa byggðarmerki beggja sveitarfélaga verið notuð til jafns.
Keppnin fór fram í nafnleynd og stóð yfir frá 28. maí síðastliðnum til og með 8. júlí. Alls bárust 56 fjölbreyttar tillögur frá hönnuðum alls staðar af landinu sem endurspegluðu náttúru, menningu og sögu svæðisins. Hönnuðunum er þakkað kærlega fyrir þátttökuna.
Dómnefnd hönnunarsamkeppninnar, skipuð af Birtu Ósmann Þórhallsdóttur, Greipi Gíslasyni og Guðmundi Oddi Magnússyni, fundaði og fór yfir allar innsendar tillögur. Að lokinni yfirferð var samhljóma samþykkt af dómnefnd að leggja til við bæjarstjórn að tillaga nr. 67278 yrði gerð að nýju byggðarmerki sameinaðrar Vesturbyggðar. Tillagan var samþykkt á 15. fundi bæjarstjórnar þann 20. ágúst síðastliðinn.

Lýsing höfundar
Byggðarmerkið er leikur að sjónrænu formi, sem bæði minnir á öldur og er um leið teikning af firði á milli fjallahlíða.
Úr forminu má einnig lesa bókstafinn V, sem tilvísun í nafn sveitarfélagsins.
Merkið kinkar enn fremur kolli til þess merkis sem er talið vera elsta skjaldarmerki Íslands, frá 1258. Merkið var þverröndótt með 6 bláum röndum á silfurskildi.

Rökstuðningur dómnefndar
Í minnisblaði dómnefndar segir:
Dómnefnd mat tillögurnar út frá þeim forsendum sem fram komu í keppnislýsingu, einkum með tilliti til:
- Einkennandi útlits og tengingar við náttúru, sögu eða ímynd sveitarfélagsins.
- Skýrleika og notagildis í mismunandi miðlum og stærðum.
- Fagurfræðilegra gilda og frumleika.
- Meginregla skjaldamerkjafræðinnar, sbr. 4. og 5. gr. reglugerðar um byggðarmerki nr. 112/1999.
Horft er út fjörð þar sem sjóndeildarhringurinn víkkar. Framundan er óendanleikinn. Áhorfandinn stendur í skut skips og horfir á kjölfar þess sem myndast á haffletinum – hann er á heimleið.
Táknmál merkisins lítur ekki til þriggja eða fleiri samfélagshluta heldur myndar heild og möguleikarnir eru óendanlegir.
Höfundur merkisins bendir á þá skemmtilegu staðreynd að merkið kinkar sannarlega kolli til þess sem talið er fyrsta skjaldarmerki Íslands, frá 1258. Þverlínur hins gamla skjaldar umbreytast í fjarðarmynni, öldur og kjölfar sem að lokum forma bókstafinn V fyrir Vesturbyggð.
Merkið er skilmerkilegt, skýrt og einfalt en býður upp á mismunandi túlkanir. Sífleiri myndir birtast því lengur sem horft er á það. Merkið samræmist öllum meginkröfum um byggðarmerki að formi og lögun.
Kynning og innleiðing
Merkið verður tekið í notkun á vefsíðu, samfélagsmiðlum og skjölum sveitarfélagsins eins fljótt og unnt er, og smám saman á skiltum, merkingum, kynningarefni og öðru efni. Leiðbeiningar um notkun merkisins verða aðgengilegar á heimasíðunni.