Hoppa yfir valmynd

Ofan­flóða­verk­efni á Patreks­firði.

Þar sem báðar ofan­flóða­fram­kvæmd­irnar á Patreks­firði, bæði frágangur við varnir við Mýrar og Urðar­götu og einnig bráða­varnir við Stekkagil, hafa legið niðri í nokkurn tíma, höfum við tekið saman helstu atriði varð­andi þær fram­kvæmdir ásamt næstu skrefum. Hér að neðan má finna yfirlit yfir stöðu verk­efn­anna og hvernig við stefnum að fram­haldi þeirra.


Skrifað: 2. júlí 2025

Mýragarður – Urðargarður

  1. Staða framkvæmda:
    • Búið er að framkvæma öryggisúttekt á verkinu og hefur verið staðfest að verkið sé komið það langt að það er nú fullkomlega samræmt við hönnun og er fullgild vörn gegn flóðum frá fjallinu.
  2. Næstu skref:
    • Aðgerðir við einstök hús: Sértækar aðgerðir sem þarf að klára við ákveðin hús eru áætlaðar að klárast síðsumars.
    • Frágangur við lóðir: Á sumum stöðum þarf enn að klára frágang við lóðir og er samtal í gangi við lóðarhafa um útfærslur.
    • Geymslusvæði: Geymslusvæði sveitarfélagsins, sem var lánað til verktaka á framkvæmdatímanum, verður endurskilað og gert að afgirtu svæði.
    • Vatnsfangi og drenskurður: Móta þarf svæði ofan við fyrirhugaða girðingu þar sem vatn úr hlíðinni verður tekið upp og veitt í drenskurði.
    • Frágangur við efnissvæði: Vinna úr efni sem var haugað á neðsta svæði við sjó, sem hefur verið notað sem efnissvæði, verður klárað og svæðið sléttað.
    • Hleðslur og þökulögn: Eftir er að ganga frá hleðslum og þökulögn við gangstíga og fláafót, sem einnig verður yfirfarið.
    • Girðingar og merkingar: Efna þarf endurskoðun á girðingum efst á görðum og setja nýjar merkingar við áningarstaði.
    • Flóðarenna: Taka efnið sem skilið var eftir úr flóðarennunni.

Stekkagil – Bráðavarnir

  1. Staða framkvæmda:
    • Mikil vinna hefur verið lögð í bráðavarnir við Stekkagil, en eftir eru nokkur verkefni til að tryggja fullnægjandi umferðaröryggi og aðgerðir til að auka flóðvarnir.
  2. Næstu skref:
    • Umferðaröryggi við Strandgötu: Vantar vegrið meðfram Strandgötu, lenging á ræsum undir Strandgötu og breytingar á inntaki í ræsi til að bæta trekt.
    • Grjótgrindur: Setja þarf grjótgrindur við alla framkvæmdina, með staðsetningu púða sem verður endurskoðuð.
    • Steypa gangstéttar: Klára þarf steypu á gangstéttum meðfram Aðalstræti.
    • Endurgerð afstöðu á ræsum: Áætlað er að endurgera afstöðu á ræsum undir Brunna og lækka ræsi neðan við Brunna til að bæta flæði vatns inn í flóðarennu.
    • Flóðarennur og umhverfisfrágangur: Hækka þarf kanta við flóðarennu á nokkrum stöðum og ganga frá yfirborði umhverfis rennuna.
    • Frágangur við lóðir: Frágangur við lóðir sem tengjast framkvæmdunum verður kláraður, bæði með varnarlegum og landslagslegum útfærslum.
    • Fjarlægja ræsi við Hjalla: Ný göngubrú verður byggð og fer útboð á endanlegum vörnum í Stekkagili fram á næstunni.
    • Minnisvarði: Klára þarf endurgerð á umhverfi minnisvarða um ofanflóð á Patreksfirði frá 1983.
    • Malbik og viðgerðir: Eftir er að malbika sár í götum Aðalstrætis og Strandgötu, en vegna útboðsferla hefur ekki verið hægt að malbika enn.

Samantekt

Í ljósi tafa er stefnt að því að ljúka þeim að fullu með útboði á eftirstöðvum verka og verður það gert á næstu vikum, líklega í júlí. Þar sem þetta er stórt verkefni verða allar áætlanir og framkvæmdir yfirfarnar til að tryggja sem bestan árangur og að fjármunir séu nýttir til fulls.

Við viljum benda á að Framkvæmdasýsla ríkisins hefur haft yfirumsjón um framkvæmdina en Vesturbyggð hefur fylgt eftir framkvæmdum.

Við þökkum íbúum fyrir þolinmæði og munum áfram veita upplýsingar um stöðu verka þegar við á.

Sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs

geir@vesturbyggd.is/+354 450 2300