Opið fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða sem tengjast Sóknaráætlun Vestfjarða 2025–2029. Umsóknarfrestur stendur frá hádegi 17. september til hádegis 22. október.
Uppbyggingarsjóðurinn veitir annars vegar verkefnastyrki til atvinnuþróunar, nýsköpunar og menningar og hins vegar stofn- og rekstrarstyrki til menningarstofnana. Við úthlutun er lögð áhersla á að styðja verkefni sem auka atvinnutækifæri, efla vöruþróun og hönnun, stuðla að fagmennsku í listum og menningu og styrkja menningartengda ferðaþjónustu og gjaldeyrisskapandi starfsemi.
Árið 2026 verður sérstaklega horft til verkefna sem stuðla að uppbyggingu vetrarferðaþjónustu á Vestfjörðum. Markmiðið er að efla fjölbreytt framtak sem styður atvinnulíf, menningu og nýsköpun í heimabyggð.
Nánari upplýsingar um umsóknarferlið og úthlutunarreglur má finna á heimasíðu Vestfjarðastofu.