Hoppa yfir valmynd

Samráðs­fundur um fram­halds­deild FSN á Patreks­firði

Fjöl­brauta­skóli Snæfell­inga hóf rekstur fram­halds­deildar á Patreks­firði haustið 2007. Í upphafi átti deildin að vera þróun­ar­verk­efni til fjög­urra ára en þetta verk­efni þóttist takast vel  og Fram­halds­deildin er enn rekin.


Skrifað: 11. júní 2024

Ýmsar ástæður styðja við þá hugmynd að reka framhaldsdeildina sem útibú frá FSN í Grundarfirði. Helstu ástæður fyrir því að bjóða upp á þennan möguleika á framhaldsmenntun í heimabyggð er m.a. hækkun lögræðisaldurs í 18 ár 1997​, hversu lágt hlutfall nemenda úr Vesturbyggð lauk framhaldskólanámi​, hversu kostnaðarsamt það er fyrir fjölskyldur að senda unglinga í burtu til náms í framhaldsskóla  og brottflutningur fjölskyldna vegna skólasóknar barna á framhaldsskólaaldri.

Nemendum í deildinni hefur hins vegar fækkað m.a. vegna styttingar náms til stúdentsprófs og fækkunar nemenda í árgöngum á upptökusvæðinu. Á vinnudögunum var m.a. fundur með starfsfólki FSN og hagaðilum í Vesturbyggð en þarna voru m.a. mættir fulltrúar úr nýrri sveitarstjórn í Sameinuðu sveitarfélagi Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar, skólastjórar, fyrrum nemendur, fulltrúar foreldrafélaga, tómstundafulltrúi, fulltrúar sem sjá um skóla og fræðslumál og  foreldrar. Á fundinum var framtíð Framhaldsdeildarinnar rædd og mögulegar leiðir til þess að efla deildina en deildin er í töluverðri varnarbaráttu um þessar mundir.

Hrafnhildur Hallvarðsdóttir skólameistari hóf fundinn, bauð heimafólkið sérstaklega velkomið og fór yfir upphaf deildarinnar . Ólafur Þór Ólafsson fráfarandi sveitarstjóri Tálknafjarðar stýrði síðan fundinum. Hermann Hermannsson, mannauðsstjóri FSN og Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir, deildarstjóri framhaldsdeildarinnar kynntu niðurstöður úr viðhorfskönnun sem var lögð fyrir útskrifaða nemendur framhaldsdeildar. Helstu niðurstöður úr viðhorfskönnuninni voru m.a. þær að nemendur eru þeirrar skoðunar að gæði náms í FSN er sambærilegt og í öðrum framhaldsskólum. Útskrifaðir nemendur telja að ferðirnar í Grundarfjörð hafi verið mikilvægar og þar hafi myndast vinasambönd og tengsl sem eru enn til staðar í dag. Framhaldsdeild FSN er góður kostur fyrir nemendur á sunnanverðum Vestfjörðum að mati nemenda. FSN hefur reynt að koma til móts við þarfir nemenda og síðastliðin tvö ár hafa verið reglulegar komur kennara í deildina yfir önnina. Reynt er að hafa 2-3 ferðir á önn og koma kennararnir 2-4 saman.

Eftir þessa kynningu tók við hópavinna þar sem unnið var með SVÓT greiningu þ.e. fundarmenn ræddu styrkleika, veikleika, ógnanir og tækifæri í rekstri Framhaldsdeildrainnar. Helstu styrkleikar sem komu fram voru m.a. að það er kostur að geta sótt sér nám í heimabyggð og verið heima hjá fjölskyldunni sinni undir verndarvæng foreldra og/ eða forráðamanna. Á þessum árum taka nemendur út mikinn þroska og það er gott að geta gert það á sínu heimasvæði og það eru meiri líkur á því að unga fólkið komi aftur á sitt heimasvæði og setjist þar að eftir frekari menntun. Þá var einnig nefnt sem kostur að kostnaður foreldra er minni og börn á staðnum lífga upp á bæina. Aðstaðan í skólanum þykir góð, nemendur fá góða og persónulega þjónustu og kennsluaðferðir eru framúrstefnulegar og efla sjálfstæð vinnubrögð hjá nemendum en það nýtist þeim mjög vel í frekara námi og út á vinnumarkaðinum. Helstu ógnanir og veikleikar voru fámenni og smæð deildarinnar, námsframboð og fjárskortur. Fundarmenn sáu mörg tækifæri til að efla deildina og nefndu til dæmis að auka samstarf við fyrirtæki á svæðinu, fara í samstarf við aðra skóla og efla fjarnám eldri nemenda. Í lokin komu ýmsar hugmyndir frá hópunum sem tengdust flestar fjölbreyttara félagslífi fyrir nemendur, aukin samskipti nemenda, meiri markaðssetningu og finna fósturfjölskyldur á Snæfellsnesi fyrir nemendur framhaldsdeildar þannig að þeir geti gist þar í námsferðum.

Það er nokkuð ljóst að nemendur sem stunda framhaldsnám í heimabyggð eru líklegri til þess að koma aftur til baka eftir að hafa farið og sótt sér frekara nám og var samhljómur um að það er byggðastefna ef nemendur eiga möguleika á að sækja sér framhaldsnám í heimabyggð, það styrkir samfélögin ef að unglingar á aldrinum 16-20 ára eru hluti af íbúasamsetningunni í stað þess að hverfa á braut á haustin. Þessi fundur gaf okkur margar hugmyndir um hvað við gætum gert í framtíðinni og í samtalinu skynjuðum við samhug um þessa deild og vilja til að hún starfi áfram þannig að starfsfólk Fjölbrautaskóla Snæfellinga fór tvíelft heim með bjartsýnina í farteskinu. Við þökkum Sameinuðu sveitarfélagi fyrir frábærar móttökur og hlökkum til frekara samstarfs.

Hrafnhildur Hallvarðsdóttir skólameistari Fjölbrautaskóla Snæfellinga