Hoppa yfir valmynd

Sjald­séðar kvik­myndir frá Patreks­firði

Fimmtu­daginn 18. sept­ember verður haldin sérstök sýning á efni Kvik­mynda­safns Íslands frá Patreks­firði. Einstakt efni frá bænum verður sýnt sem sjaldan hefur sést áður. Sýning hefst klukkan 19:00 í Skjald­borg­ar­bíói og tekur um klukku­stund.


Skrifað: 15. september 2025

Sýnt verður myndefni sem Garðar Ó. Jóhannesson (f. 1900 – d. 1970) kvikmyndaði á Patreksfirði á árunum 1948 til 1953. Þetta voru uppgangstímar þar sem meðal annars var unnið við byggingu hafnarmannvirkja og nýir togarar komu til þorpsins. Filmur Garðars voru sennilega aldrei sýndar opinberlega en nú gefst kostur á að kíkja inn um þennan einstaka glugga til fortíðar með Kvikmyndasafni Íslands. Garðar og bróðir hans Friðþjófur ráku fjölskyldufyrirtækið Ó. Jóhannesson, sem var verslun og útgerð, frá árinu 1936 að föður sínum látnum. Efnið var áður sýnt á heimildarhátíðinni Skjaldborg fyrr á árinu.

Einnig verða sýndar svipmyndir annarra kvikmyndagerðarmanna sem áttu leið um Patreksfjörð og nágrenni um miðja síðustu öld. Þar kennir ýmissa grasa sem  varpa áhugaverðu ljósi á bæinn og uppbyggingu hans.

Efnið verður auk þess sýnt á hjúkrunardeild Hvest á Patreksfirði kl. 15:00 sama dag.

Öll eru hjartanlega velkomin og aðgangur er ókeypis.


Menningar- og ferðamálafulltrúi

VMÞ

muggsstofa@vesturbyggd.is/+354 450 2335