Stóra upplestrarkeppni grunnskólanna 2025
Stóra upplestrarkeppni grunnskólanna á sunnanverðum Vestfjörðum 2025 var haldin í gær, 7. maí, við hátíðlega athöfn í Patreksfjarðarkirkju. Upplesararnir stóðu sig allir með stakri prýði.
Skrifað: 8. maí 2025
Mikil spenna ríkti í kirkjunni, enda höfðu keppendur lagt mikið á sig í undirbúningi sínum. Í fyrstu umferð fluttu þeir svipmyndir úr skáldsögunni Draumurinn eftir Hjalta Halldórsson. Í annarri umferð völdu þeir ljóð úr bókinni Allt fram streymir, sem inniheldur ljóð eftir fjölmarga höfunda. Í lokaumferðinni fluttu keppendur ljóð að eigin vali.
Allir upplesararnir fengu viðurkenningarskjal, blóm og bókina Vetrarfrí eftir Hildi Knútsdóttur að gjöf. Lionsklúbbur Patreksfjarðar styrkti keppnina með gjafabréfum frá Landsbankanum, sem voru veitt sem verðlaun fyrir þrjú efstu sætin.
Tónlistarskóli Vesturbyggðar tók einnig þátt í dagskránni. Íris Ásta Lárusdóttir flutti lagið Lunar Eclipse og Lara Alexandra Gomes flutti He’s a Pirate.
Dómnefndina skipuðu Birta Ósmann Þórhallsdóttir, Jónas Snæbjörnsson og Sandra Líf Pálsdóttir. Þau réðu ráðum sínum um stund en komust að lokum að niðurstöðu. Eydís Hanna Bjarnadóttir úr Bíldudalsskóla hlaut þriðja sæti, Katrín Hugadóttir úr Tálknafjarðarskóla annað sæti og sigurvegari keppninnar var Alexander Nói Ásgeirsson úr Patreksskóla. Við óskum þeim innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.
Að lokum var öllum boðið í kaffi og veitingar í safnaðarheimilinu, í boði foreldrafélags Patreksskóla.


