Velkomin í gömlu smiðjuna á Bíldudal
Jóhann Gunnarsson, jafnan kallaður Jói Öddu, stendur vaktina í gömlu smiðjunni á Bíldudal nú í júlí. Opið verður að jafnaði kl. 13-16 alla daga vikunnar.
Jóhann er öllum hnútum kunnugur í smiðjunni og mun fræða gesti um sögu smiðjunnar og verkfærin sem eru þar inni. Sveitarfélagið færir honum bestu þakkir fyrir sjálfboðaliðastarfið.
Öll eru hjartanlega velkomin að kíkja í heimsókn. Sé áhugi fyrir að kíkja í heimsókn utan opnunartíma má hafa samband í síma 856 3447.
Hvað er gamla smiðjan?
Gamla smiðjan er staðsett að Smiðjustíg 2 á Bíldudal, fyrir aftan Vegamót. Hún er ein elsta áþreifanlega heimildin um atvinnusögu Bíldudals, en Pétur Thorsteinsson lét reisa smiðjuna, hún var gangsett árið 1894 og útbúin með öllum nýjustu tækjum sem fáanleg voru á þeim tíma. Smiðjan gegndi mikilvægu hlutverki í þjónustu við báta og útgerð á staðnum.


Til hægri er vélin úr Kára BA 265 sem Arnfirðingafélagið í Reykjavík gaf Vesturbyggð árið 2021.