Vesturbyggð hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar
Sveitarfélagið hefur hlotið viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2025 fyrir árangur í jafnréttismálum. Viðurkenningin er veitt þeim aðilum sem hafa náð markmiðum verkefnisins um jöfn kynjahlutföll í efsta stjórnendalagi.
Á viðurkenningarhátíð Jafnvægisvogarinnar 9. október 2025 hlaut sveitarfélagið viðurkenningu fyrir markvissa vinnu að jafnrétti kynjanna. Samtals hlutu 128 aðilar viðurkenningu í ár, þar af 16 sveitarfélög, fyrir að hafa náð markmiði verkefnisins um 40/60 kynjahlutfall í framkvæmdastjórn eða efsta lagi stjórnunar.
Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu sem miðar að því að auka jafnvægi kynja í stjórnunarstöðum og hvetja fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög til að vera fyrirmynd í jafnréttismálum.
Viðurkenningunni fylgir tré til gróðursetningar í Jafnréttislundi FKA í Reykjavík, sem tákn um stuðning við jafnrétti og sjálfbærni.