Hoppa yfir valmynd

Vest­ur­byggð verður á Gull­kist­unni

Vest­ur­byggð og Minja­safnið Hnjótur verða á Gull­kist­unni Vest­firðir, stór­sýn­ingu atvinnu­lífs og menn­ingar á Vest­fjörðum, laug­ar­daginn 6. sept­ember.


Skrifað: 5. september 2025

Sýningin fer fram í íþróttahúsinu Torfnesi á Ísafirði. Gríðargóð þátttaka er á sýningunni og munu þar yfir áttatíu fyrirtæki, stofnanir, listamenn og frumkvöðlar kynna blómlega starfsemi sem finna má í landshlutanum, þar á meðal 12 þátttakendur frá sunnanverðum Vestfjörðum.

Frú Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, verður meðal gesta og mun hún opna sýninguna. Einnig mun Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, ávarpa samkomuna.

Gullkistan Vestfirðir er atvinnuvegasýning sem stendur frá kl. 12:00 til 17:00 og þar verður einnig boðið upp á lifandi dagskrá. Í Menntaskólanum á Ísafirði fer fram hliðarviðburður með spennandi erindum, þar sem Guðni Th. Jóhannesson verður meðal framsögumanna. Dagskrána má sjá hér.

Vestfjarðastofa fer með skipulagningu sýningarinnar en drög að henni lagði Sóknarhópur Vestfjarða, skipaður fulltrúum vestfirsks atvinnulífs og menningar.

Aðgangur á sýninguna er ókeypis og öllum opinn.